Stungið í steininn fyrir samstöðu með samkynhneigðum

Stungið í steininn fyrir samstöðu með samkynhneigðum

Á stuttri ævi David Kajjoba hefur hann ratað langa leið frá götum Kampala í hinu stríðshrjáða ríki Uganda, þar sem bandarískir trúboðar ala á fordómum gagnvart samkynhneigðum og alla leið til Íslands. Hann tók þátt Gleðigöngunni í Reykjavík undir merkjum Amnesty International fyrir þrem árum og þegar það fréttist í Uganda varð móður hans þar fyrir alvarlegri líkamsárás og ljóst að það getur reynst lífshættulegt fyrir David að snúa til baka til Uganda.

Hann spjallaði við blaðamann Morgunblaðsins og fór yfir sögu sína:  

Í Úganda eru fordómar gegn samkynhneigð mjög útbreiddir og hún af mörgum talin syndsamleg. Börn landsins alast upp við þessa fordóma sem eru predikaðir í kirkjum landsins, m.a. að undirlagi bandarískra trúboða í gegnum áratugina. „Það fer heilaþvottur fram í kirkjunum,“ lýsir David. Sögunni um Gómorru og Sódómu er haldið á lofti eins og heilögum sannleik og notuð í áróðursskyni. Ef eitthvað bjátar á má skýra það með syndsamlegri hegðun. „Ég var í þessum hópi,“ viðurkennir David og segist enn fullur blygðunar yfir þessari fáfræði sinni. „Þegar ég var í menntaskóla þá var þar einn skólabróðir minn sem okkur fannst skrítinn. Ég var í þeim hópi sem sagði við hann að samkynhneigð væri ekki rétt. Hann yrði að fara í kirkju og leiðrétta þetta. Það endaði með því að hann flúði land og til Belgíu árið 2003.“

Á þessum tíma var ýmislegt að breytast í Evrópu varðandi réttindi samkynhneigðra. Það hafði áhrif í Úganda en ekki til hins betra.

David hafði lengi látið sig mannréttindi varða en viðhorf hans sjálfs til samkynhneigðar fóru ekki að breytast fyrr en hann kynntist Sylgju Dögg og Pálma. Þau töluðu um samkynhneigð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í fyrstu þótti David það óþægilegt en smám saman fór hann að hugsa: „Getur verið að allt sem mér hafi verið kennt um þetta sé rangt?“

Hann segist alltaf taka fólki með opnum hug og gæti þess að dæma það ekki fyrir fram. Hann vilji kynnast fólki og málefnum betur áður en hann taki afstöðu. Það var það sem gerðist varðandi mannréttindi samkynhneigðra. Hann þurfti að fræðast. Eftir það galopnaðist hugur hans. Þegar hann heimsótti svo Ísland í fyrsta skipti gjörbreyttust viðhorf hans. „Fyrir slysni rambaði ég inn á skemmtistað fyrir samkynhneigða í Reykjavík. Mér fannst það furðulegur staður í fyrstu! En svo kom maður til mín og ég sagði honum að ég væri frá Úganda. Hann sagði þá: Já, þið eruð ekki hrifnir af okkur! Þegar hann sagði þetta þá fangaði hann athygli mína. Og við fórum að tala saman og hann sagði mér að fræðast meira um málið og reyna að skilja betur.“

Það var einmitt það sem David gerði. Allar götur síðan hefur hann verið ötull baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda.

Þegar hugarfar hans breyttist og hann hafði eytt tíma á Íslandi fór hann að taka meira eftir hinsegin fólki í felum í heimalandinu. Hann kynntist samkynhneigðum í háskólanum og fór að tala við þá. Hann sagði þeim að eina leiðin til að breyta viðhorfum væri að tala um hlutina og það strax. Sumum fannst erfitt að heyra þetta og treystu honum ekki. „Ég sagði þeim að ég hefði verið á Íslandi, í Noregi og Hollandi og hefði séð hvernig samkynhneigðir geta verið þeir sjálfir og ekki í felum.“

 

Stungið í steininn fyrir samstöðu sem samkynhneigðum

Samkynhneigð hefur lengi verið bönnuð í Úganda líkt og í mörgum Afríkuríkjum. Er David var í háskóla var verið að ræða á úgandska þinginu lagafrumvarp um hertar refsingar við slíkum „brotum“. Mikil ólga var í landinu og alþjóðasamfélagið reyndi að þrýsta á stjórnvöld að hætta við lagasetninguna. Frumvarpið var fyrst lagt fram af þingmanni árið 2009 og næstu ár voru samkynhneigðir ofsóttir með hjálp nokkurra fjölmiðla sem birtu m.a. lista yfir nöfn samkynhneigðs fólks og heimilisföng þess.

David tók virkan þátt í réttindabaráttunni og þegar frumvarpið var til umfjöllunar í úgandska þinginu snemma árs 2014, þar sem m.a. var kveðið á um lífstíðarfangelsisdóm yfir þeim sem yrðu „uppvísir“ að því að eiga í samkynhneigðum kynferðislegum samböndum, mætti hann ásamt hópi fólks til að mótmæla. Hann var handtekinn. Eina leiðin til að sleppa úr fangaklefa var að segjast saklaus og aðeins hafa verið á leið í skólann. „Það var allt á suðupunkti og mikil múgæsing í gangi. Ef ég vildi halda baráttunni áfram varð ég að fara þessa leið.“

 

Örlagarík þátttaka í Gay Pride

Í kjölfarið fór David til Íslands og tók þá um sumarið þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík undir merkjum Amnesty International. „Yfirvöld í háskólanum mínum fréttu af þátttöku minni og neituðu í kjölfarið að gefa út námsskírteini mitt. Ég lauk náminu en hef ekki enn fengið skírteinið til að sanna það.“

Samstaða Davids með samkynhneigðum og þátttaka hans í Gleðigöngunni á Íslandi átti eftir að hafa aðrar og enn afdrifaríkari afleiðingar.  Fréttir af því bárust andstæðingum samkynhneigðra í Úganda til eyrna og það varð til þess að hópur fólks réðst inn á heimili móður hans og gekk í skrokk á henni. Hlaut hún m.a. alvarlega áverka á höfði. „Ég varð miður mín en líka reiður þegar ég frétti af þessu. Hún átti engan hlut að máli. Þetta var hræðilegt.“

Mikill vindur fór úr réttindabaráttu samkynhneigðra í landinu um þetta leyti að mati Davids. Lagafrumvarpið hafði verið samþykkt og undirritað af forsetanum en var síðar ógilt af dómstólum. Múgæsingur var mikill og baráttufólkið í lífshættu. Hefði David snúið aftur til Úganda eftir dvölina á Íslandi sumarið 2014 hefði hann að öllum líkindum verið handtekinn eða hlotið enn verri örlög.

Honum bárust ítrekaðar hótanir í gegnum síma og á Facebook. Hann fór með málið til lögreglunnar hér á landi og var ráðlagt að snúa ekki aftur til Úganda eins og hann hafði ætlað sér að gera. Hann sótti því um dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi sem hann fékk.

Þrátt fyrir þessa lífsreynslu segist David ekki hafa hugsað alvarlega um að láta af baráttu sinni. „Við verðum að halda áfram að berjast til að breyta samfélaginu.“

Eitt af því góða sem baráttan hefur skilað er að skólabróðir hans sem flúði til Belgíu undan ofsóknum vegna samkynhneigðar sinnar hafði samband við hann. Því fylgdi mikill léttir og þeir eru vinir í dag.

 

Dav­id ásamt Pálma, Sylgju og börn­um þeirra í fyrstu heim­sókn Dav­ids til Íslands
Dav­id ásamt Pálma, Sylgju og börn­um þeirra í fyrstu heim­sókn Dav­ids til Íslands

Lært mikið af Íslendingum

Nú eru liðin rúmlega þrjú ár síðan David var síðast í Úganda. Hann segir að það yrði erfitt fyrir sig að flytja þangað aftur eins og staðan er í dag. Hann fengi ekki vinnu vegna skoðana sinna og líf hans gæti mögulega verið í hættu. Hann langar helst að mennta sig vel og snúa kannski aftur síðar meir. Stjórnmál eru eitt af því sem hann gæti vel hugsað sé að taka þátt í. „Ég vil breyta Úganda,“ segir hann ákveðinn. Breytingarnar byrji á því að tala um hlutina. Það hafi hann lært af Íslendingum.

Á næsta ári rennur dvalarleyfi hans út. Hann mun sækjast eftir endurnýjun. Hér á Íslandi vill hann vera. „Mér finnst eins og dvöl mín á Íslandi síðustu ár hafi verið skólaganga. Ég hef lært svo mikið. Ekki aðeins um mannréttindi heldur einnig um hvernig samfélagskerfi geta virkað. Hvernig megi nota upplýsingar til að bæta samfélög og gera þau öruggari. Hvernig skipulag getur breytt miklu í atvinnulífinu til dæmis.“

Hann hóf íslenskunám hjá Mími í vetur. Og honum gengur vel. Hann skilur orðið talsvert í íslensku og getur svarað með einföldum setningum. Framfarirnar eru miklar enda David að upplagi góður námsmaður og fróðleiksfús með eindæmum. Nýverið tók hann svo bílpróf. Þá hefur hann eignast kærustu. Lífið brosir því við honum í augnablikinu.

 

Lesið viðtalið allt á mbl.is: Af götu Kampala til Mosfellsbæjar