Hvernig notar maður smokk?

Athugaðu hvort dagsetningin er í lagi og að ekki leki loft út því ef hann er útrunninn eða umbúðir hafa rofnað er ekki hægt að treysta á að viðkomandi smokkur veiti öryggi og á hann þá bara heima í ruslinu.

 

Opnaðu bréfið

Ýttu smokknum vel til hliðar inn í bréfinu og rífðu það varlega upp. Taktu smokkinn úr bréfinu en passaðu þig á því að neglurnar rífi hann ekki.

 

Settu smokkinn á

Settu smokkinn á typpið þegar það er orðið stinnt. Gættu að því að ,,hringurinn“ á smokknum snúi út svo hægt sé að rúlla smokknum á. Haltu fyrir totuna með þumalfingri og vísifingri svo ekkert loft verði í smokknum meðan hann er settur á typpið. Sé loft fremst í smokknum getur hann rifnað við samfarir.

 

Rúllaðu smokknum á

Á meðan þú heldur um totuna með annarri hendinni, ýtir þú forhúðinni vel til baka og rúllar smokknum með hinni hendinni eftir endilöngu typpinu eins langt og þú kemst. Mundu að hafa nóg pláss í lokaða endanum fyrir sæðið.

 

Taktu smokkinn af þér

Þegar typpið er tekið út, verður þú að halda fast við smokkinn svo að hann verði ekki eftir inni. Þú mátt því ekki bíða of lengi með að taka typpið út því það verður fljótt lint eftir sáðlát. Þá getur smokkurinn auðveldlega losnað af.

 

Smokkanotkun

Sumir nota bara smokk þegar þeir eru einhleypir eða í útlöndum. En það geta allir fengið kyn- sjúkdóma og oftast vitum við ekki hvort aðrir eru smitaðir. Þeir vita það oft ekki sjálfir og eru því ekki meðvitaðir um hættuna sem þeir og bólfélagar þeirra eru í. Allir sem taka áhættu geta smitast af kynsjúkdómum.

Ef þú velur að nota smokk hefurðu valið öruggustu leiðina til að vernda sjálfa/sjálfan þig og aðra gegn smiti. Það er ekki augnablikið sem á að ákvarða hvort maður ver sig eða ekki í kyn- lífi. Það er ákvörðun sem þú sjálf/sjálfur tekur. Við sýnum ekki traust með því að vera kærulaus, við sýnum traust með því stunda öruggt kynlíf. Öruggt kynlíf er fólgið í því að nota smokk alltaf í kynlífi, ekki bara stundum, og fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum um notkun hans.

Það þarf alltaf að setja smokkinn á áður en slímhúðir snertast, sama hvort um kynmök, munn- mök eða endaþarmsmök er að ræða. Það er einnig mikilvægt að nota smokk allan tímann meðan á samförum stendur, ekki bara rétt fyrir sáðlát. Kynsjúkdómar geta smitast þó ekki sé um sáðlát að ræða og auk þess eru töluverðar líkur á þungun. Við skyndikynni ætti alltaf að nota smokk. Þegar stofnað er til lengri kynna ættu báðir aðilar að fara í skoðun áður en smokkanotkun er hætt.

  • Smokkar eru eina getnaðarvörnin sem er bæði vörn gegn kynsjúkdómum og getnaði.
  • Smokkar eru til í ýmsum gerðum, litum og bragðtegundum.
  • Til eru sérstakir smokkar fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir latexi.
  • Kvensmokkar geta komið sér vel.
  • Sé notað sleipiefni eru vatnsleysanleg efni best því að fituleysanleg efni, t.d. vaselín og olíur, geta skemmt smokkinn.
  • Smokkar fást víða, t.d. í matvöruverslunum, bensínstöðvum og apótekum.
Kynsjúkdómar. Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. 2017

Úr upplýsingabækling Landlæknis um kynsjúkdóma, smitleiðir þeirra, einkenni, meðferð og forvarnir 2017.

PDF bæklingur