Landsliðsfyrirliðinn skartar litum regnbogans á HM

Landsliðsfyrirliðinn skartar litum regnbogans á HM

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson ætlar að fagna fjölbreytileikanum á handboltavellinum og skarta litum regnbogans á HM í handbolta í Frakklandi.

„Ég styð einfaldlega jafnrétti. Þar sem ég er faðir tveggja unglingsstúlkna er ég meðvitaður um kynjamisrétti og ýmsa aðra mismunun en eins og ég hef áður sagt þá finnst mér að kyn, litarháttur, trú eða kynhneigð eigi ekki að skipta máli. Með þessu er ég ekki að reyna að hrópa á athygli eða spila mig sem hetju og ég átta mig á því að mörgum finnst að íþróttaheimurinn eigi ekki að blanda sér í stjórnmál. Ég vil ekki sjá að öll athyglin verði á þessu litla atriði því ég er kominn til Frakklands til að gera mitt besta fyrir landsliðið. Ég er fyrst og fremst íþróttamaður en ef ég get gert eitthvað gagn með því að sýna stuðning á opinberum vettvangi þá geri ég það með ánægju,“ er haft eftir Guðjóni Val Sigurðssyni í viðtali á vefsíðunni gayiceland.is.

 

Þegar EM í handbolta fór fram í Póllandi fyrir ári hugðust bæði Guðjón Valur og Bjarte Myrhol, fyrirliði Noregs, spila með fyrirliðabönd á upphandleggnum sem skörtuðu litum regnbogans. Þeim var hins vegar meinað að gera það þegar til kastanna kom. Guðjón segist eiga von á því að andrúmsloftið sé öðruvísi í Frakklandi heldur en í Póllandi. „Ég er ekki að reyna að vera uppreisnarseggur. Ég var pirraður þegar okkur var ekki leyft að spila með fyrirliðaböndin í fyrra og mér finnst því í aðra röndina að því máli sé ólokið, að koma stuðningnum á framfæri.“

Guðjón er á skósamningi hjá Mizuno og átti þátt í hönnun skónna WaveMirage 2. Mizuno hefur útvegað honum skó til að keppa í á HM þar sem regnbogafánann er að finna en hann er alþjóðlegt tákn réttindabaráttu samkynhneigðra.

Gæsahúð af stolti

Felix Bergsson fagnaði fréttunum í færslu á facebook:

Guðjón Valur Sigurðsson var að setja heimsmet og er orðinn markahæsti landsleikjamaður handknattleikssögunnar! Hann er einhver magnaðasti íþróttamaður sem þessi þjóð hefur nokkurn tímann eignast. Árangur hans er ótrúlegur hvert sem litið er. Hann er glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar. En það er fleira

Guðjón Valur á stórt pláss í hjörtum hinsegin fólks en hann hefur stigið fram og stutt við réttindabaráttuna með ótvíræðum og glæsilegum hætti. Í íþróttaheiminum er stöðug leit að fyrirmyndum og ótrúlega fáir samkynhneigðir hafa þorað að stíga fram. Þess vegna eru skref eins og þessi þar sem hetja eins og Guðjón Valur lýsir yfir ótvíræðum stuðningi við hinsegin bræður og systur svo ótrúlega mikilvæg.

Til hamingju Guðjón Valur! Til hamingju Ísland! Ég fæ gæsahúð af stolti yfir þér!

 

Sjá viðtal á GayIceland: GUÐJÓN VALUR: SUPPORTS LGBTI+ COMMUNITY BY WEARING RAINBOW SHOE AT WORLD CHAMPIONSHIP

og umfjöllun á mbl.is: Guðjón Val­ur skart­ar lit­um regn­bog­ans