Við sigrum aldrei hatur án þess að hafa ástina með

Við sigrum aldrei hatur án þess að hafa ástina með

Magnús Bjarni Gröndal, sem betur er þekktur undir listamannsnafninu Migthy Bear, opnaði sig um tabúin, listina, hatrið og ástina í einlægu viðtali við Stundina nýverið.

Hann er framúrstefnulegur listamaður, söngvari og gítarleikari í þungarokkshljómsveitinni We Made God og flytur tilraunakennda raftónlist í gervi dragdrottningarinnar Mighty Bear.

Kom seint út úr skápnum.

„Það er ekki einhver ein ástæða fyrir því af hverju ég steig fram svona seint. Það var samt að miklu leyti vegna særinda á unglingsárunum, en ég var lágur til loftsins, bjartróma með eindæmum og átti það til að detta í dans á göngum grunnskólans, semsagt auðvelt skotmark. Einnig spilaði inn í sú staðreynd að ég vissi ekki hvernig ég ætti að vinna með þetta allt saman, þennan grun um samkynhneigð mína. Málið er að ég eignaðist kærustur á þessum tíma og ég gat stundað kynlíf með þeim. Þetta skildi mig eftir alveg ringlaðan, ég hugsaði með mér; hvað er ég þá? Ef ég get ekki sofið hjá stelpu, hver er ég? hvað á ég eiginlega að gera? Úr varð að ég notaði alla mína krafta í að spyrna á móti þessu, sem varð til þess að það bókstaflega hrundi allt kerfið,“ rifjar Magnús Bjarni upp. „Svo fyllist hjartað mitt af reiði og biturð, sem tæmdi sál mína allri gleði. Ég varð alveg tómur og átti ekkert eftir.“ 

Viðbrögð nánustu ættingja.

„Ég óttaðist viðbrögð þeirra, sem er samt sérstakt þar sem ég ólst upp við mikið ástríki, en ég nötraði og var alveg á nálum. Viðbrögðin hefðu þó ekki getað orðið betri. Ég sat með mömmu og við grétum saman og féllumst í faðma, það var léttir að hleypa loks fílnum út úr stofunni. Mamma mín sagðist þó alltaf hafa vitað þetta, en að hún hafi leitt hugann frá þessu eftir að ég byrjaði að vera með stelpum á unglingsárunum. Eins kom þetta vinum mínum ekkert á óvart. Seinna meir skyldi ég að það væri í lagi og vel hægt að laðast kynferðislega að hinu kyninu þó svo maður fyndi ekki þessa djúpstæðu tilfinningu sem maður fær þegar maður stofnar til parsambands. Tilfellið er að ég þurfti bara minn tíma til þess að finna mig, þó svo það hefði verið gaman að upplifa það fyrr að koma út úr skápnum þá myndi ég ekki vilja breyta neinu. Það er í raun sorglegt að vita til þess að til sé fjöldinn allur af fólki sem leyfir sér ekki að pæla í eigin kynhneigð, fáir sem voga sér að opna á þessa gátt. Það þarf ekkert endilega að prufa, en af hverju ekki að pæla í því? Finna hvert kynhneigðin leiðir og sjá hvert hjartað liggur.“

Magnús leggur áherslu á mikilvægið og styrkinn sem felst í því að sýna auðmýkt.

„Það skilar engu að reyna að troða ofan í kokið á fólki skoðunum sínum. Reynum heldur að hafa áhrif og komast mjúkt inn í hugvitin hjá manneskjunni. Við sigrum aldrei hatur án þess að hafa ástina með. Mig langar ekkert að rífast við þá einstaklinga sem ég vil fá með mér í lið. Ég kýs heldur að nota samkennd þrátt fyrir að vilja það ekki alltaf, vera auðmjúki maðurinn. Þannig sigrum við þetta. Almenn velsæmi gildi sama hvað.“ 

 Lesið viðtalið allt hjá Stundinni 21 maí 2018: Amma hjálpaði til með dragið

Heimasíða Mighty bear

Tengdar greinar