Kynsjúkdómaskoðun

Á ég að láta athuga hvort ég er með kynsjúkdóm þótt mér finnist ég vera frísk/frískur?

Þú getur haft kynsjúkdóm án þess að vera með nokkur einkenni. Þú ættir því að fara til læknis ef núverandi eða fyrrverandi bólfélagi þinn hefur fengið kynsjúkdóm eða ef þú hefur einkenni sem gætu bent til þess að svo væri. Allt heilbrigðisstarfsfólk er bundið þagnarskyldu.

Konur og karlar sem stunda skyndikynni eða eru með fleiri en einum samtímis ættu sérstaklega að huga að kynsjúkdómum, einkum ef um óvarin kynmök (kynmök án smokks) er að ræða.

 

Hvaða einkenni geta bent til kynsjúkdómasmits?

Konur:

  • Það er mörgum konum eðlilegt að fá útferð frá leghálsi, sérstaklega mitt í tíðahringnum. Taktu eftir því hvort útferðin breytist, svo sem:
    • - verður meiri eða þykkari
    • - kemur nýr litur
    • - kemur vond lykt
    • - koma blæðingar milli tíða
  • Konur geta einnig fengið verki við samfarir.

Karlar:

  • Útferð úr þvagrás karla bendir til kynsjúkdómasmits. Getur þó verið eðlilegt við kynferðislega örvun.
  • Karlar geta fundið fyrir sársauka í pungnum eða endaþarmi – pungurinn getur orðið aumur og bólginn.

Á við bæði kynin:

  • Kláði, sviði, útbrot eða sár á eða kringum kynfærin.
  • Verkir sem líkjast blöðrubólgu: Tíð þvaglát eða sviði við þvaglát. Kviðverkir: Tengjast gjarnan hita og slappleika.
  • Athugið! HIV og lifrarbólgu B fylgja engin sjúkdómseinkenni á kynfærum.

 

Er ég með kynsjúkdóm ef ég er með fyrrgreind einkenni?

Það getur verið, en þessi einkenni geta einnig átt við aðra sjúkdóma. Hafir þú slík einkenni ættir þú því að fara til læknis til að fá úr því skorið. Alls ekki fá lyf frá öðrum að láni eða bíða og sjá til. Með því að greina sjúkdóma snemma má oft draga úr alvarleika þeirra.

 

Hvað á ég að gera ef ég held að ég hafi smitast?

Ef þú hefur tekið áhættu í kynlífi eða hefur einkenni sem gætu bent til kynsjúkdóms er mikilvægt að þú látir skoða þig. Þannig getur þú komið í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist og verði alvar- legur og að þú smitir aðra óviljandi.

Ef bólfélagi þinn fer í skoðun og reynist vera með kynsjúkdóm ættir þú einnig að láta skoða þig, jafnvel þótt þú hafir engin einkenni. Þú gætir verið smituð/smitaður án þess að taka eftir því eða þá að einkennin eru ekki ennþá komin í ljós.

Leitaðu alltaf til læknis, hann er bundinn þagnareiði. Einungis þú færð því að vita niðurstöðu skoðunarinnar. Skoðun og meðferð flestra kynsjúkdóma er ókeypis.

Hægt er að fara í skoðun á öllum heilsugæslustöðvum á landinu. Í Reykjavík geta allir lands- menn farið á A-1, húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi. Sú deild hefur sérhæft sig í greiningu og meðferð húð- og kynsjúkdóma. Nánari upplýsingar um greiningarstaði má finna á blaðsíðu 27.

 

Hvað er skoðað?

Oftast er byrjað á því að skila inn þvagprufu. Ef um klamydíusmit er að ræða er það gjarnan eina sýnið sem er tekið. Ef á þarf að halda eru ýmist tekin sýni úr leggöngum, leghálsi, þvagrás, endaþarmi eða hálsi. Oftast er einnig tekin blóðprufa. Hvaða sýni og hversu mörg eru tekin fer m.a. eftir því hvort og þá hvaða einkenni þú ert með.

 

Hvernig fer kvensjúkdómaskoðun fram?

Kvensjúkdómaskoðun er skoðun á kynfærum kvenna sem læknir framkvæmir. Skoðunin fer fram í sérstökum stól þar sem konan hálfpartinn liggur í stólnum og er með fæturna í tveimur fótastoðum. Fótastoðirnar gera það að verkum að læknirinn getur framkvæmt rannsóknina

á þægilegan hátt og konan er jafnframt með fæturna í afslappaðri stöðu.

Fyrst leitar læknirinn eftir einkennum á ytri kynfærum og á svæðinu þar í kring. Því næst skoðar hann varlega leggöng og legháls með hjálp sérhannaðs áhalds sem auðveldar skoðunina. Nauðsynleg sýni eru tekin frá leghálsi og þvagrás með mjóum sýnapinnum. Oft er síðan þreifað á kviðnum og í leggöngum og athugað hvort eggjaleiðarar séu bólgnir eða bólga sé í eitlum í nára.

 

Er óþægilegt að fara í skoðun?

Með góðri samvinnu þinnar og læknisins má draga úr eða koma í veg fyrir óþægindi.

 

Hvernig eru karlar skoðaðir?

Karlinn á að standa eða sitja á venjulegum skoðunarbekk. Læknirinn athugar fyrst hvort einkenni séu í pungnum og á typpinu með því að ýta forhúðinni vel til baka. Því næst þreifar læknirinn á typpinu og pungnum til þess að athuga hvort allt sé eðlilegt eða hvort hann finni fyrir kúlum, bólgum eða eymslum sem gætu verið merki um sjúkdóm.

Ef læknirinn finnur merki um sjúkdóm tekur hann sýni frá þvagrásaropi karlsins með mjóum pinnum. Þetta getur verið dálítið óþægilegt, þess vegna getur verið gott að liggja meðan prufan er tekin. Það tekur bara nokkrar sekúndur að taka sýnið. Sé um klamydíusmit að ræða er einungis tekið þvagsýni.

Læknirinn getur einnig skoðað endaþarmsopið og hann setur inn fingur til þess að þreifa blöðruhálskirtilinn. Stundum þarf líka að taka sýni frá endaþarminum.

 

Hvað ef ég er barnshafandi?

Ef þú ert barnshafandi og heldur að þú sért með kynsjúkdóm er mikilvægt að þú farir í skoðun og fáir meðferð. Sumir kynsjúkdómar geta nefnilega smitað barnið á meðgöngunni eða í fæðingunni. Sárasótt, HIV og lifrarbólga B geta t.d. smitað barnið bæði í meðgöngu og fæðingu. Klamydía, lekandi, kynfæraáblástur og kynfæravörtur geta smitað barnið í fæðingu. Í upphafi meðgöngu er alltaf boðið upp á HIV-próf í mæðraskoðun. Til öryggis ættir þú að þiggja það.

 

Má ég stunda kynlíf þegar ég er með kynsjúkdóm?

Þú ættir að bíða með að stunda kynlíf ef þú telur að þú getir verið smituð/smitaður. Láttu skoða þig og bíddu þangað til þú veist hvort þú ert smituð/smitaður. Það tekur yfirleitt um eina viku. Reynist þú vera smituð/smitaður ættir þú að bíða með að stunda kynlíf þangað til meðferð lýkur. Ef kynsjúkdómurinn reynist ólæknandi er mikilvægt að gæta fyllsta öryggis í kynlífinu það sem eftir er ævinnar.

 

Þarf maður alltaf að segja bólfélaga frá smitinu?

Það er mikilvægt að þú segir bólfélaga þínum frá smitinu, sért þú smituð/smitaður. Þá getur hann líka farið í skoðun og fengið meðferð ef þörf er á.

Veltu fyrir þér hvort þú getir hafa smitað fleiri en einn bólfélaga eða þeir smitað þig. Það skiptir miklu máli að allir fái skoðun. Sé meðferð hafin fljótt, er miklu minni hætta á erfiðum og/eða alvarlegum afleiðingum smits. Ef þér finnst erfitt að hafa samband við fyrri bólfélaga, geturðu talað við lækninn þinn og hann getur haft samband við þá. Það er algjörlega nafnlaust.

 

Greiningarstaðir og nánari upplýsingar

Hvert get ég leitað til þess að fara í kynsjúkdómaskoðun?

A-1, göngudeild húð- og kynsjúkdóma, Landspítala Fossvogi, vegna kynsjúkdóma. Panta þarf tíma á virkum dögum milli kl. 8:15–15:00. Sími 543 6050

A-3, göngudeild smitsjúkdóma, Landspítala Fossvogi, vegna HIV, lifrarbólgu B og C. Panta þarf tíma á virkum dögum milli kl. 8:00–16:00. Sími 543 6040

Heilsugæslustöðvar landsins

Húð- og kynsjúkdómalæknar

Kvensjúkdómalæknar (fyrir konur) eða þvagfærasérfræðingar (fyrir karla)

 

Kynsjúkdómar. Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. 2017

Úr upplýsingabækling Landlæknis um kynsjúkdóma, smitleiðir þeirra, einkenni, meðferð og forvarnir 2017.

PDF bæklingur