Binni Glee - SnapChat stjarna sem þorir að vera hann sjálfur

Binni Glee - SnapChat stjarna sem þorir að vera hann sjálfur

Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee er einn af þeim vinsælu íslensku snöppurum sem rætt var við í fyrsta þættinum af nýrri þáttaröð Lóu Pind á Stöð 2 - Snapparar.

Hér má sjá brot úr þættinum: Binni Glee: Hættur að hanga í Kringlunni en finnst þó alltaf gaman að hitta aðdáendur

 

„Á snapchat þorði ég loksins að vera ég sjálfur“

í Jólablaði Vikudags sem unnið var af fjölmiðlafræðinemum við Háskólann á Akureyri var viðtal við Binna Glee þar sem farið var yfir hvernig þetta byrjaði allt: 

Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee, er átján ára Akureyringur og nemandi við Verkmenntaskólann á Akureyri. Binni starfar á hárgreiðslustofu en er fyrst og fremst landsfræg samfélagsmiðlastjarna. Mögulega kannast ekki allir við nafnið, sérstaklega ekki eldri kynslóðin, en flestir þeir sem yngri eru þekkja Binna Glee. Á  samfélagsmiðlinum Snapchat fylgjast sextán til sautján þúsund manns með honum daglega.

Á Snapchat sýnir Binni frá sínu daglega lífi sem ungur einlægur Akureyringur og áhugamaður um förðun. Ævintýri hans á Snapchat byrjaði í apríl 2016, en þá gerði hann aðganginn sinn opinn almenningi. Binni segir vinkonu sína hafa hvatt sig áfram til að byrja með.

"Áður en hún sagði mér að opna aðganginn var þetta bara fyrir vini mína, eins og það er hjá flestum, en fljótlega eftir að ég gerði aðganginn opinn varð þetta rosalega vinsælt. Á einum mánuði var ég kominn með fimm þúsund fylgjendur,” rifjar Binni upp.

 

Einn sá vinsælasti á Snapchat á Íslandi

„Mér finnist eitthvað vandræðalegt að segja það en já, ég er einn sá vinsælasti á Snapchat á Íslandi. Það horfa um sextán til sautján þúsund manns á mig daglega að meðaltali á snappinu. Talan getur farið upp í tuttugu þúsund og niður í fimmtán þúsund,“  segir Binni.

Bætir hann við að ferlið frá því að hann opnaði aðganginn þar til hann varð svona vinsæll hafi verið mjög hratt. Hann veit hreinlega ekki hvað olli þessum gríðarlegu vinsældum.

„Það komu bara allir þessir fylgjendur og ég var í sjokki yfir því. Ég hef pælt í því þegar ég fer á tónleika þar sem eru kannski tólf þúsund manns og hugsað um að það að séu fleiri að fylgjast með mér eru í salnum. Ég myndi ekki einu sinni þora að fara upp á svið og tala við allt þetta fólk. Það væri of mikill pressa,“ segir hann.

„Ég held að það hafi gert það auðveldara fyrir mig að opna mig í gegnum símann þar sem maður getur ekki séð fólkið sem horfir á mann“.

Þrátt fyrir að vera orðinn þessi mikla stjarna segist Binni alltaf verið feiminn. „Ég hef alltaf verið mjög feiminn, alveg síðan ég var lítill. Snapchat hefur hjálpað mér rosalega við að losa mig við feimnina ég er mjög þakklátur fyrir það. Þetta hefur gefið mér mörg tækifæri og meira sjálfstraust“.

 

Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee.
Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee.

 

Mikill áhugi á förðun

„Ég hafði svo mikinn áhuga á förðun þegar ég opnaði snappið og ég sýndi mikið af því.  Ég held að ég hafi verið eini strákurinn sem var að sýna eitthvað frá förðun,“ segir hann.

Þrátt fyrir þessar  miklu vinsældir finnst Binna hann nú samt bara vera ósköp venjulegur strákur. Þá segist hann leggja mikla áherslu á að vera fyrirmynd fyrir þá ungu krakka sem fylgja honum á miðlinum. „Ég er með marga unga fylgjendur og vill ekki hafa neitt dónalegt eða eitthvað þannig inni á snappinu. Ég reyni að vera einlægur. Ég veit að margir elska að fylgjast með mér af því ég er ég sjálfur og er stoltur af því“.

 

Hjálpaði sér og öðrum að koma úr skápnum

Nokkrum mánuðum áður en Brynjar opnaði snappið sitt kom hann út úr skápnum, þá sextán ára gamall. Hann segir Snapchat hafa hjálpað sér mjög í því ferli.

„Eftir að ég kom út úr skápnum og fór á Snapchat leið mér miklu betur. Út af Snapchat þorði ég loksins að vera ég sjálfur og ég fékk rosalega mikið af góðum viðbrögðum út á það,“ segir Binni.

„Ég var að sýna að það væri allt í lagi að vera samkynhneigður og hef verið að fá skilaboð frá fólki sem segir að ég hafi hjálpað því að koma út úr skápnum. Mér finnst það geggjað,“ segir hann þakklátur.

„Ég fékk til dæmis skilaboð í fyrra frá fylgjanda sem var að spyrja mig hvað hann ætti að gera í sínum málum. Núna fyrir nokkrum dögum fékk ég aftur skilaboð þar sem hann þakkaði fyrir hjálpina við að koma út úr skápnum. Þetta er örugglega það besta við að vera snappari fyrir mér. Að geta hjálpað fólki“.

 

Mánudagur er Mask Monday

„Ég vil endilega hvetja fleiri stráka til að vera með í maskakvöldinu. Við erum öll með húð. Margir sem halda að maskar séu bara fyrir stelpur en það er ekki þannig. Það er 2017, það er enginn að dæma. Fólk má vera hvernig sem er, málað eða ekki. Mér finnst að á Íslandi sé þetta lítið mál. Maður á alveg að geta verið maður sjálfur“.

Lesið viðtalið allt „Á SNAPCHAT ÞORÐI ÉG LOKSINS AÐ VERA ÉG SJÁLFUR“

 

Það besta í lífinu að koma úr skápnum

Lapparinn er með vikuleg viðtöl á föstudögum og í febrúar síðastliðnum svaraði Binni Glee hefðbundnum spurningum á videoformi.

Ein spurningin var Hvað er það besta sem gerst hefur í lífi þínu? „Að koma út úr skápnum.“

 

En hvernig byrjaði þetta?

Eftir að hafa verið með Snappið opið í um það bil fimm mánuði var fylgjendahópurinn strax orðinn mjög stór. Binni var fenginn í föstudagsþáttinn á N4 sjonvarpsstöðinni 2. september 2016 og fer þar yfir hvernig þetta þetta hafði verið að þróast í skemmtilegu og einlægu viðtali.

 

Binni Glee framleiðir gerviaugnhár

Binni Glee á samstarf við ýmsa aðila og nú fyrir jólin komu á markaðinn gerviaugnhár sem hann hannaði og voru framleidd í samstarfi við Tönju Ýr sem rekur Tanja Yr Cosmetics.

Binni Glee x Tanja Ýr - Limited Edition
Binni Glee x Tanja Ýr - Limited Edition

Hér er er linkur á augnhár Binna Glee: Binni Glee x Tanja Ýr - Limited Edition

Binni Glee og Tanja Ýr
Binni Glee og Tanja Ýr með augnhárin góðu

Það má alveg mæla með Binna Glee á Snap Chat, þið finnið hann undir notendanafninu binniglee.

Tengdar greinar

Nýlegar greinar