Hvað er kynfæraáblástur?
Kynfæraáblástur er sýking af völdum veirunnar Herpes simplex, tegund 2, sem orsakar litlar blöðrur og sár á kynfærum. Veiran berst frá húðsmitinu og sest í taugahnoð við mænuna. Þar getur hún legið í dvala árum saman, oftast að skaðlausu fyrir þann sem er smitaður. Veiran getur þó leitað til baka eftir tauginni til húðar eða slímhúðar, venjulega til sama staðar og í upphafi. Oft getur liðið langur tími þangað til sýkingin kemur fram aftur. Einkennin minnka og hverfa oftast alveg með tímanum. Kynfæraáblástur er algengur sjúkdómur.
Hvernig smitast kynfæraáblástur?
Kynfæraáblástursveiru er að finna í sýktum sárum og sáravökvum. Veiran smitar aðallega þegar sár eða sáravökvi snertir slímhúð kynfæris, endaþarms, augna, vara eða munns ból- félagans. Smit getur einnig átt sér stað ef maður fær sýktan sáravökva á hendurnar og snertir síðan eigin slímhúð eða slímhúð annarra.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn getur bara verndað þá hluta kynfæranna sem hann hylur. Veira í sári sem er ekki hulin smokki getur því smitað við samfarir. Smithættan er mest þegar sjúkdómurinn er með sýnilegum blöðrum og sárum og rétt áður en blöðrurnar koma fram. Þú ættir því ekki að hafa samfarir þegar ástand þitt er þannig. Þegar engar blöðrur eða sár eru á húð eða slímhúð er smithættan minni.
Góður handþvottur þegar sár og blöðrur koma fram getur komið í veg fyrir að þú smitir aðra með höndunum.
Er kynfæraáblástur hættulegur?
Kynfæraáblástur getur verið mjög svæsinn sjúkdómur, sérstaklega í upphafi smitsins, og getur valdið töluverðum óþægindum. Hann er samt hættulaus fyrir konuna en veiran getur valdið alvarlegri sýkingu hjá nýfæddum börnum sem geta smitast af móðurinni í fæðingu. Því er mikilvægt fyrir þungaðar konur að láta lækninn vita um kynfæraáblásturssýkingu.
Hver eru einkenni kynfæraáblásturs?
Fyrstu einkenni eru sviði eða verkur í húð eða slímhúð en síðan koma fram misstórar blöðrur. Blöðrurnar springa oft fljótt og verða að sársaukafullum sárum. Samtímis koma oft eymsli í nárann vegna eitlastækkana ef sýkingin er í kynfærum. Auk þess getur sýkingin valdið hita, höfuðverk, slappleika og í undantekningartilfellum heilahimnubólgu.
Í fyrsta sinn sem blöðrur og sár myndast gróa þau vanalega innan þriggja vikna. Þegar endur- sýking á sér stað koma sárin yfirleitt á sama stað og áður en eru vægari, sársaukaminni og gróa oftast hraðar.
Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Einkennin koma vanalega í ljós einni til þremur vikum eftir smit. Sumir fá einkennin seinna og eru dæmi um að liðið geti langur tími þar til einkennin koma fram. Flestir sem smitast fá reyndar aldrei sár og blöðrur og margir vita því aldrei um að þeir eru smitaðir af kynfæraáblæstri.
Hvernig er hægt að greina kynfæraáblástur?
Auðvelt er að greina kynfæraáblástur, ef einkennin eru komin fram, með skoðun læknis og/eða sýnatöku til rannsóknar.
Er hægt að fá meðferð við kynfæraáblæstri?
Ennþá er engin lækning til við kynfæraáblæstri. Aftur á móti er til meðferð sem getur dregið úr einkennum og stytt tímann sem þú ert með blöðrur og sár. Til þess að meðferðin virki þarf að hefja hana eins fljótt og unnt er. Þú þarft ekki meðhöndlun ef sárin eru þér ekki til ama.