Hvað er flatlús?
Flatlús (Phthirus pubis) er sníkjudýr sem er aðallega að finna í hárunum í kringum kynfærin. Hún getur líka verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.
Hvernig smitar flatlús?
Flatlús smitast við nána snertingu en einnig með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.
Hver eru einkenni af völdum flatlúsar?
Flatlús veldur oftast miklum staðbundnum kláða.
Er hægt að fá meðferð við flatlús?
Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í lyfjaverslunum. Hann er borinn á alla hærða staði nema hársvörðinn. Farðu nákvæmlega eftir leiðbeiningunum í pakkanum. Bólfélaginn og fjölskyldumeðlimir verða líka að fá meðferð svo smit eigi sér ekki stað aftur. Sængurver og föt skal þvo á venjulegan hátt.