Í nýjustu bók sinni, Hinni hliðinni, eigrar höfundur um skóglendi hugans og við það vaknar gamlar minningar. Bókin inniheldur leiftur- og örsögur sem skáldagyðjan hefur fengið að móta og forma eftir sínu höfði en í sumum þeirra kann þó að leynast sannleikskjarni. Höfundur dvelur m.a. í leikhúsi næturlífsins á Laugarveginum en gluggar jafnframt í fornsögur og rifjar upp áfanga úr langri og strangri baráttu fyrir réttindum og sýnileika. Meðal þess sem ber á góma í Hinni hliðinni eru rassragir menn til forna, tannhvassar drottningar og óvissuferðir í grænan lund.
Bókin er nú einnig fáanleg á ensku undir nafninu: Little Gay Reykjavík, Queer History and Anecdotes. (uppfært júlí 2019)
Guðjón Ragnar Jónasson er íslenskufræðingur og kennari við Menntaskólann í Reykjavík. Hann þýddi bókina Mennirnir með bleika þríhyrninginn sem kom út árið 2013 og hefur auk þess skrifað barna- og námsbækur. Guðjón sat lengi í stjórn Samtakanna78 og Hinsegin daga.