Heimildarmyndin Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur var frumsýnd í Bíó Paradís 28. nóv. og er enn í sýningu. Myndin fjallar um baráttu íslenskra homma og lesbía fyrir fullum lagalegum mannréttindum. Sú saga er um margt sérstök og óvenjuleg segir í kynningu, en fáir minnihlutahópar hafa náð jafn langt á eins skömmum tíma og fá samfélög í heiminum tekið eins snöggum stakkaskiptum.
Verkefnið hefur verið um aldarfjórðung í vinnslu. Á þessum 25 árum frá því að Hrafnhildur tók fyrsta viðtalið hefur safnast saman u.þ.b. 400 klst af kvikmynduðu efni sem því miður kemst ekki allt fyrir í heimildamyndinni né þáttaröðinni. Það var því ákveðið að gera aðgengileg stóran hluta af viðtölunum bæði í handriti og á kvikmynd fyrir almenning og aðra áhugasama um þessa sögu. Það verður gert á vefsíðunni svonafolk.is þegar frumsýningum er lokið í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi fyrir kynslóðir framtíðar.
Við frumsýninguna opnaði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og menntamálaráðherra umrædda vefsíðu en þar munu í framtíðinni öll viðtölin sem Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefur tekið upp í tengslum við þetta verkefni vera aðgengileg, bæði sem textaskjöl og sem vídeófælar fyrir komandi kynslóðir sem vilja kynna sér málefnið til hlítar.
Svona fólk - stikla
Felix Bergsson og Hrafnhildur
Hrafnhildur Gunnarsdóttir ræddi við Felix Bergsson í þættinum Fram og til baka á Rás 2. Viðtalið hefst 1:28 inn í upptökunni.
Viðtal í Fréttablaðinu
Hrafnhildur var líka í viðtali í Fréttablaðinu 23. nóv. og fjallaði þar bæði um gerð myndarinnar og sína sögu.
Hrafnhildur hafði sjálf komið út úr skápnum sextán ára. „Í myndinni nota ég mitt líf til viðmiðunar og hef leikinn þegar ég var sex ára og allir héldu að ég væri strákur sem fór rosalega í taugarnar á mér en hafði sína kosti. Ég sagðist til dæmis heita Hrafn þegar ég var að selja blöð niðri í bæ og fékk þá sömu góðu meðferð og hinir strákarnir á meðan stelpunum var alltaf hent aftast í röðina. Ég eignast fyrstu kærustuna þegar ég er sextán ára 1980 og fór með hana heim og foreldrar mínir tóku mér og mínum kærustum vel og studdu mig alla tíð þótt þeim hefði aldrei dottið í hug að fara í göngu niður Laugaveginn. En það var þessi kynslóð,“ segir Hrafnhildur og hlær.
Hún varð fljótlega virk í nýstofnuðum Samtökunum ’78 og settist í stjórn þegar hún var nítján ára. „Ég var innblásin af kvennafrídeginum ’75 og var viss um að heimurinn væri að breytast og við myndum hafa það betra.“
Lögin um staðfesta samvist breyttu miklu
Og breytingarnar urðu svo sannarlega og mjög markverðar. Hrafnhildur er ekki í vafa þegar hún er spurð hver sú markverðasta var. „Það var þegar íslenska fjölskyldan tekur þessi börn sín upp á sína arma. Þar er byltingin, finnst mér,“ segir hún. „Og það sést til dæmis á því að Gay Pride er fjölskylduhátíð á Íslandi, öfugt við mörg lönd. Þetta stafar örugglega af smæð samfélagsins og hversu nálæg við erum hvert öðru, þetta verður einhvern veginn fjölskyldubylting.“
Hún segir lögin um staðfesta samvist vera birtingarmynd á þessari byltingu á vettvangi hins persónulega. „Hugmyndin um staðfesta samvist er norræn að uppruna og ekkert endilega í takt við það sem okkar fólk var að pæla, við vorum frekar á þeirri línu að það ætti að leggja niður hjónabandið sem stofnun,“ segir hún. „En það kom á óvart hvað lögin um staðfesta samvist breyttu miklu. Þá voru sambönd okkar ekki jaðarsett lengur heldur normalíseruð. Þarna er stofnun samfélagsins sem viðurkennir og það er persónuleg stofnun en ekki opinber. Þarna voru reyndar sett sérlög yfir okkur og mér fannst það pínu niðurlægjandi, að það gætu ekki gilt sömu lög yfir sömu réttindi og skyldur fyrir alla. En svo voru hjúskaparlögin leiðrétt kringum 2011 og nú er meira að segja búið að breyta eyðublöðum þannig að ekki þarf að skrifa brúðgumi og brúður heldur einstaklingur eitt og einstaklingur tvö.“
Sagan öll rakin í fimm sjónvarpsþáttum
Heimildarmyndin Svona fólk verður frumsýnd 28. nóvember í Bíói Paradís en allt verkefnið er stærra í sniðum. „Þetta verða fimm þættir fyrir sjónvarp að lokum þar sem öll sagan er rakin,“ segir Hrafnhildur. „Myndin sem ég sýni núna er fyrri hluti sögunnar með áherslu á áttunda og níunda áratuginn.“ Eftir þessi tuttugu og sex ár liggur enda gríðarmikið af efni. „Ég er með fjörutíu viðmælendur og fimm hundruð klukkutíma af efni, bæði sem ég hef tekið sjálf og svo hef ég verið að viða að mér og safna,“ segir hún og bætir við að myndin hafi tekið ýmsum breytingum á þessum tíma. „Það hefur verið erfiður róður fjárhagslega að reka þetta. En ég passaði að eiga bæði viðtöl við þá sem ég taldi að hefðu lagt þessari baráttu lið í einhverjum mæli og við venjulegt fólk og hvernig því reiddi af. Ég legg áherslu á að myndin rekur réttindabaráttu homma og lesbía fyrst og fremst, þetta er ekki saga annarra hópa þó aðeins sé komið inn á málefni transfólks sem hefur ætíð verið hluti af okkar samfélagi.“
Mikilvægt að segja þessa sögu
„Af því að ég hef upplifað að það er til fólk sem þekkir ekki söguna jafnvel fólk á svipuðum aldri og ég og svo unga fólkið sem áttar sig engan veginn á því hvernig þetta var. Það þarf að passa að þetta gleymist ekki því það getur alltaf orðið bakslag,“ segir Hrafnhildur og nefnir dæmi. „Vinkona mín býr til dæmis með konunni sinni og dóttur í Kaupmannahöfn og þar eiga kennarar stelpunnar í mesta basli með að skilja að hún geti átt tvær mömmur. Þetta er að gerast í fyrirmyndarsamfélaginu Danmörku, svo við tölum nú ekki um það sem er að gerast í Bandaríkjunum og Rússlandi.“
Hún segir líka mikilvægt fyrir samtímann og framtíðina að muna hvernig mannréttindum og virðingu var komið á. „Það varð að vinna hlutina þverpólitískt, pólitískar línur eiga ekki heima í þessu málefni. Stundum áttum við góða stuðningsaðila innan úr Heimdalli og Sjálfstæðisflokknum en líka á vinstri vængnum. Hið lagalega umhverfi er í lagi hér núna en það getur allt breyst og við þurfum að vera á varðbergi.“
Lesið viðtalið allt hér: Þurfum að vera á varðbergi og þekkja söguna