Gleðivíma - RÁN | Lag Hinsegin daga 2024

Gleðivíma - RÁN | Lag Hinsegin daga 2024

Gleðivíma er lag Hinsegin daga 2024. Þetta er fyrsta lagið sem Margrét Rán Magnúsdóttir gefur út undir nafninu RÁN og með henni í laginu er Páll Óskar Hjálmtýsson.

Hún fjallaði um lagið í viðtali á mbl.is:

„Ástæðan fyrir því að ég fékk Palla með mér í þetta var konseptið af laginu, textinn er svolítið um mig að fara í fortíðina þegar ég fór fyrst á Pride og þetta var svo mikil gleðisprengja,“ segir Margét í samtali við mbl.is. Þegar hún sótti hátíðina fyrst var Palli nýbúinn að gefa út lagið International sem var mjög vinsælt á þeim tíma.

„Þetta var rosa mikið Pride-lag þessa árs og þetta er svolítið svona „my coming out“ lag þannig að ég bara svona: „Ómægod það væri svo geðveikt að fá Pál Óskar,“ til að taka þetta svona í heilan hring.

Margrét heyrði þá í Páli Óskari sem var heldur betur til. „Hann er bara æðislegur, hann er ótrúlega skemmtilegur, svo gaman að vinna með honum, ég væri alveg klárlega til í að gera eitthvað annað lag sem við myndum kannski bara gera frá grunni saman,“ segir hún.
Fjallar um eigin reynslu af Pride

Margrét útskýrir að lagið „Gleðivíma“ sé um frelsandi upplifun hennar á fyrsta Pride-hátíðinni sem hún sótti. „Ég er að tala um hversu frelsandi það einhvern vegin var fyrir mig, þegar ég var fimmtán ára að koma á Pride. Það var svo mikilvægt fyrir mig þarna, til þess að sjá bara, heyrðu já, hérna á ég heima, þetta er öryggisnetið sem að er að fara grípa mig, hérna er fólk eins og ég,“ segir hún.

Henni langar að koma til skila gleðinni, hvað það er að fá að tilheyra einhverju og hvað það er ótrúlega slítandi að þurfa að fela sig á bakvið grímu. „Það er ömurlegt að ekki vera þú sjálfur. Kannski ef þú kíkir á Pride, þá sérðu ljósið,“ segir Margrét.

„Þetta bilaðislega flotta 3D artwork er unnið af Jakobi Hermannssyni frá Strik studio og myndin tekin af hæfileikaríku Elísabetu Blöndal,“ segir hún um myndina sem fylgir laginu. Myndin er unnin útfrá styttunni af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli.

Lesið allt viðtalið á mbl.is: Stolt hinsegin manneskja sem ætlar aldrei að hætta að vera sýnileg

Lagið er aðgengilegt á Spotify og YouTube.

Tengdar greinar