Strákarnir á Borginni hittast öll laugardagskvöld á barnum inni í Gyllta sal, söng Bubbi Morthens á plötunni Ný spor árið 1984. Söngurinn varð fljótt sígild perla í safni Bubba, sannkallað tímanna tákn – hispurslaus og einlægur. Enda fjölgaði þeim mjög á þessum árum, hommum og lesbíum sem voru sýnileg í íslensku samfélagi og heimtuðu sitt rými án þess að biðjast afsökunar á neinu eins og segir í öðrum söng. Þegar íslenskir hommar minnast liðinna daga ber barinn á Borginni oft á góma, enda var hann helsti samkomustaður þeirra í Reykjavík í aldarfjórðung.
Á Hótel Borg var á árum áður boðið upp á bestu gistingu í Reykjavík. Þar átti metnaðarfull þjónusta við ferðamenn sína miðstöð og þar gisti flest það fólk sem kom til Reykjavíkur með farþegaskipum og flugvélum, enda hafði öll flugumferð frá Íslandi til meginlands Evrópu áður fyrr aðsetur sitt á Reykjavíkurflugvelli. Þegar bandarískt herlið tók land á Keflavíkurflugvelli árið 1951 samkvæmt varnarsamningi ríkjanna fóru hermenn í bæjarleyfi brátt að venja komur sínar á Borgina. Þeir Reykvíkingar sem sóttu út á lífið í leit að kynnum við ferðalanga og óvænt ævintýri rötuðu þangað líka, og að sjálfsögðu létu hommar bæjarins sig ekki vanta á staðinn. Þar áttu þeir friðland árum saman, einkum þó á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar, og gátu gengið að því vísu að finna þar sína líka á föstudags- og laugardagskvöldum.
Alþjóðlegur samkomustaður
Inn af Gyllta sal á neðstu hæð staðarins var dæmigerður hótelbar, lengi sá eini í bænum þar til aðrir slíkir barir tóku að veita honum samkeppni upp úr 1960. Þess vegna hafði hann þá sérstöðu að vera einn af fáum stöðum í Reykjavík sem minntu erlenda gesti á næturlíf heimsborganna. Veturliði Guðnason kom fyrst á barinn á Borginni þegar hann var að vinna í Reykjavík sumarið 1965, þá 19 ára menntaskólanemi vestan af Ísafirði:
„Það merkilegasta við Borgina var heimsborgarabragurinn á öllu, ferðafólk úr öllum heimshornum, hermenn af Vellinum í borgaralegum fötum, listamenn og listaspírur, ungt, miðaldra og gamalt fólk, öllu ægði saman á einhvern heillandi hátt. Allir karlmenn að sjálfsögðu í jakkafötum og með bindi og þjónarnir í einkennisbúningum. Þetta var líkast því að vera staddur á hótelbar í útlöndum. Barinn á Borginni var alþjóðlegur samkomustaður eins og þeir gerast bestir þrátt fyrir málverkið sem setti sinn svip á staðinn.“
Skálað við sjófuglana
Málverkið sem hér um ræðir var gríðarstórt og fellt inn í vegginn inn af barborðinu, Esjan í mildum litum við sólsetur. Undir henni lónaði fiskiskip og fremst á myndinni sátu skarfar, mávar og lundar í flæðarmáli og biðu næsta dags. Þessi sundurleita fjölskylda myndaði eins konar þrívídd því hún var máluð á sérstakan flöt sem elti útlínur fuglanna og stóð framan við Esjuna og Sundin. Undir sjófuglunum sat fólk svo í samlyndi kvöldsins og drakk – og hér drukku margir stíft. Á barnum voru bara sterkir drykkir á borðum, bjór var hvergi að hafa á íslenskum veitingahúsum fyrr en árið 1989 og létt vín þóttu ekki við hæfi á þessum tíma kvölds. Allir voru með long drinks í höndum enda sveif hratt á mannskapinn og nóttin á barnum talsvert styttri en nú tíðkast því klukkan hálftólf var útidyrum lokað og engum hleypt inn eftir það. Svo stóð gleðskapurinn til klukkan eitt um nóttina, en klukkutíma lengur um helgar þegar dansað var í Gyllta sal. Þaðan bárust kunnuglegar raddir inn á barinn því þar léku ýmsar vinsælustu hljómsveitir landsins fyrir dansi gegnum tíðina og margir af bestu dægurlagasöngvurum okkar komu við sögu í salnum. Seint á kvöldi fór hljómsveitin í sína samningsbundnu pásu og þegar aftur var tekið til við músíkina voru flekarnir sem skildu að bar og sal yfirleitt dregnir frá. En inni á barnum héldu fastagestir sínu striki.
Hvernig var umhorfs þar árið 1965? „Auðvitað sá maður strax,“ segir Veturliði, „að þarna var talsvert um karla í leit að körlum en samt var sterkur hjónasvipur yfir staðnum og margt um roskið fólk, á fimmtugs- og sextugsaldri, að minnsta kosti fannst manni það þegar maður var nítján. Nú sér maður varla fólk yfir fertugu á börum. Okkur strákunum utan af landi fannst þetta ógurlega skrýtið allt saman. Ég man að einu sinni horfði ég í augun á konu með rauða augnskugga og fjólubláar varir og hugsaði í sakleysi mínu: Ætli konan sé litblind? Aðra konu man ég litríka, nýkomna frá Bandaríkjunum til að leita upprunans. Hún talaði jöfnum höndum íslensku og ensku og kynnti sig sem skáld og leikkonu: „I’m an actress on radio and stage.“ Svona nokkuð fannst manni ægilega fyndið. Þegar ég fluttist heim til Íslands eftir nám í útlöndum árið 1974 og kom aftur á Borgina var hjónafílingurinn að mestu horfinn og yngra fólk fyllti staðinn, nýir leikarar á vettvangi en sviðsmyndin sú sama.“
Worth visiting
Það var haustið 1971 að Jón Þorsteinsson rataði í fyrsta sinn á barinn á Borginni, rétt að verða tvítugur, nýfluttur til Reykjavíkur norðan úr landi og orðinn starfsmaður á sjúkrahúsi: „Þá þegar átti ég mér dálitla reynslu með öðrum karlmönnum, hafði líka verið skiptinemi í Bandaríkjunum það sögulega ár 1969 og vissi alveg hvað ég vildi. Þegar í bæinn kom fór ég strax að leita að mínum líkum og fann þá í Klúbbnum við Borgartún og á Óðali við Austurvöll, en betra var að finna sér stráka í Glaumbæ við Fríkirkjuna því staðurinn var stór og meiri friður til að nálgast sína líka. Oftast fór ég þó á Borgina um helgar og þar fann ég mitt tengslanet og kynntist mörgum. Sumir urðu góðir kunningjar, aðrir vinir til lífstíðar en ég man líka eftir mörgum sem ég kynntist aldrei. Oft var margt um manninn og hommarnir stundum allt að helmingur gestanna sem töldu 100–150 á kvöldi. Langflestir þessara manna lifðu mjög aktífu kynlífi og þeir urðu á sinn hátt bjargvættir mínir í lífinu. Með þeim lærði ég að þekkja sjálfan mig.“
Jón minnist ekki bara Íslendinga á barnum, heldur líka homma í hópi útlendinga, enda ekki fyrir tilviljun að þeir rötuðu þangað. Í Spartacus International Gay Guide, ferðabiblíu homma, voru tveir staðir í Reykjavík sagðir „worth visiting“ á áttunda áratug aldarinnar, Sundlaug Vesturbæjar og Hótel Borg, „the rear bar“. Brátt var Jón orðinn fastagestur á Borginni en þurfti stundum að gera ráðstafanir til að komast inn. „Ég vann oft vaktavinnu til miðnættis og þá hringdi maður niður eftir og sagðist ekki koma fyrr en eftir lokun. Því var tekið af skilningi og mér hleypt inn um bakdyrnar refjalaust. Yfirleitt var það fyrir orð kvennanna í fatahenginu því að þær reyndust okkur hommunum vel að ógleymdri henni Hjördísi á barnum. Allar urðu þær vinkonur okkar. Ég man eina í fatahenginu sem alltaf gekk með hárkollu, dálítið spes, og ég man aðra þar sem hafði eignast dóttur með Ameríkana og var enn að bíða eftir unnustanum. Aldrei kom hann.“
Þar var gerður mannamunur
Hvernig komu svo gestirnir þeim nýkomna fyrir sjónir? „Hommarnir voru úr ýmsum áttum,“ segir Jón, „ungir piltar og miðaldra karlar, menntaðir menn og fáfróðir unglingar, virðulegir borgarar og alþýðustrákar. Ég man líka vel eftir togarasjómönnum sem sóttu sitt þangað. Þeir voru góðir elskhugar. Aldrei kynntist ég að ráði amerísku hermönnunum sem sóttu staðinn, en þetta voru fínir strákar sem áttu stundum bágt því þeir gátu ekki sofið í sumarbirtunni. Sumir af yngri strákunum í hópi íslensku fastagestanna komu stöku sinnum með stúlkur á staðinn og kynntu þær sem kærustur sínar. Við létum kyrrt liggja það kvöldið og um næstu helgi voru kærusturnar úr sögunni. Ekkert man ég samt eftir gömlu klíkunni sem hafði setið á Laugavegi 11 nokkrum árum áður, en aðrir minnast hennar þarna. Því er heldur ekki að leyna að þarna var gerður mannamunur þótt fínt væri í það farið. Það þótti til dæmis afskaplega merkilegt að vinna í banka og þeir voru einir fjórir sem höfðu þann status í hópnum.“
Þeir sem ekki státuðu af starfi í banka leituðu annarra leiða til að finna sína fjöl á staðnum. Við barinn sögðu menn sögur af sjálfum sér, sumpart til að skemmta næsta manni, sumpart til að lyfta sér yfir hversdagsleikann. „Þarna man ég ágætan mann utan af landi,“ segir Jón, „sem stundað hafði staðinn í átta ár þegar við hittumst fyrst. Ekki var nú allt satt sem hann sagði, til dæmis það að hann ætti barn heima í plássinu sínu. Hann hafði sína þörf fyrir að krydda fortíðina og það hafði ég svo sem líka. Það mátti heyra ýmsar skáldsögur við barinn.“
Af vörum meistaranna
Íslensk sagnamenning blómstraði með öðrum orðum á Borginni. Veturliði Guðnason rifjar upp kvöld eitt laust fyrir miðjan áttunda áratuginn þegar þeir „Gulli rakari og Ragnar Michelsen sátu á bekk undir sjófuglunum, tveir hugrakkir sem hvorki gátu né vildu fela hverjir þeir voru. Allt í einu birtist ungur og sætur strákur á barnum, Guðmundur Grímsson, síðar læknir í New York. Hann hafði nokkrum árum áður unnið til vetrarvistar í bandarískum high school í ritgerðasamkeppni Reader’s Digest og kynnst gay lífinu fyrir vestan. Nú var hann kominn á Borgina í fyrsta sinn. Hann skiptist á orðum við þá Gulla og Ragnar sem færðust báðir í aukana við þessa fallegu sjón. Krýpur þá Guðmundur ekki allt í einu á gólfið fyrir framan meistarana eins og til að drekka hvert orð af vörum þeirra. Gagntekinn af því að hafa loksins fundið sín öfugu ættmenni á Íslandi, hafði satt að segja ekki grunað að þá væri hér að finna.“
Hvernig var svo andrúmsloftið á barnum um helgar? „Það vefst fyrir mér að lýsa því,“ segir Jón Þorsteinsson, „því maður var svo upptekinn af sjálfum sér, eigin kynhvöt og eigin draumum. Ég kom alltaf allsgáður á staðinn, oftast á eigin bíl og fannst erfitt að mæta þessari stífu drykkju þarna. Drykkjuskapurinn var ógæfa okkar og þarna man ég marga sem þá áttu skammt eftir ólifað af þeim sökum. En lífið var hart, fæstir höfðu gert hreint fyrir sínum dyrum við nánustu ættingja og við vorum reglulega minntir á stöðu okkar í lífinu. Blöðin voru iðin við að senda okkur útsmognar svívirðingar og aldrei var neinn til andsvara.
Ég reyndi að velja mér viðmælendur á staðnum, forðaðist þá sem drukku stífast og óttaðist lætin í þeim sumum. Ef ærslin gengu úr hófi fram komu dyraverðirnir og fjarlægðu menn kurteislega. Það þurfti ekki til kossa og kelerí, þeim nægðu bara óhljóð og kerlingarlæti. Ekki var þó drykkjunni alltaf um að kenna, minn góði vinur rakarinn gat verið alveg ferlegur þegar sá gállinn var á honum. Fyrir þetta vorum við svo látnir gjalda næstu helgi, þá mætti maður á staðinn, sá að fátt var um kunnugleg andlit á barnum og lét sig hverfa. Hommarnir höfðu þá ekki fengið inngöngu vegna einhvers sem farið hafði úr böndunum helgina áður.“
Okkar leið til að vera manneskjur
Og Jón heldur áfram: „Allt þetta fjör var auðvitað tilraun til að breiða yfir aðrar tilfinningar, óttinn var alltaf til staðar og þegar ég rifja þetta upp sé ég hann svífa þarna yfir barnum. En einmitt þess vegna var kynlífið svo mikilvægt, það var okkar leið til að létta á spennunni, kvíðanum, og komast undan vondum tilfinningum. Okkar leið til að fá að vera manneskjur. Menn mega kalla það kjötmarkað, en barinn á Borginni var „the liberation place of my sexuality“ eins og þar stendur og fyrir það er ég þakklátur.
Svo má ekki gleyma því að það var þarna við barborðið sem mér opnaðist leið út úr þeim lokaða heimi sem Ísland var á þessum árum. Ég hitti þar einu sinni mann sem bauð mér að búa hjá sér og konu sinni í Ósló á meðan ég leitaði mér að vinnu á sjúkrahúsi þar í borginni. Þangað var ég svo kominn árið 1973 og skömmu síðar í söngnám. Ekki löngu seinna var ég farinn að taka þátt í skemmtanalífi og félagsstarfi homma og lesbía í Ósló. Fyrirmynd okkar og leiðtogi þar var einstök kona, Kim Friele, og af henni lærði ég þá afstöðu til lífsins sem lengi hefur dugað mér: „Homofili er en verdig livsstil!““
Upprennandi stjarna
Árin liðu og mannlífið skipti um svip, líka á Hótel Borg. Nú áttu unglingar á Vesturlöndum sína sérstöku menningu og hennar sá sannarlega stað á Borginni. Gömlu danshljómsveitirnar hurfu smám saman af vettvangi og við tók diskótek unga fólksins. Nú varð staðurinn líka mikilvægur vettvangur upprennandi hljómsveita og í miðri viku hljómaði íslenskt rokk og pönk um sali. Skömmu fyrir 1980 var öll jarðhæðin opin á diskóteki helgarinnar og undirlögð ungu fólki úr öllum áttum. Athvarf hommanna innst í húsinu var þá orðið svipur hjá sjón en samt voru þeir þarna, talvert yngri en áður og skemmtu sér með öðrum gestum. Um svipað leyti urðu svo ungu lesbíurnar sýnilegar í sölunum.
Bubbi Morthens var í hópi gestanna á Borginni og var farinn að troða þar upp öðru hvoru, upprennandi stjarna sem sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu, Ísbjarnarblús, árið 1980: „Ég átti fína kunningja meðal hommanna og tók vel eftir því sem var að gerast. Þetta voru stundum vondir tímar, sérstaklega eftir að strákarnir tóku að svara fyrir sig. Ef hvolft var úr glasi yfir homma var hann dreginn á dyr, ekki sá sem skvetti úr glasinu. Þetta sá ég. Svo komu dagar og vikur þegar þeir gátu skemmt sér óáreittir og voru meira að segja farnir að dansa saman. Aftur komu þeir tímar þegar dyraverðir höfðu þá á hornum sér, neituðu að hleypa þeim inn, „allt fullt inni“, og strákarnir ekki í náðinni það kvöldið. Enn snerist vindáttin, aftur komu góðir tímar og mannúðlegri, nýir dyraverðir í gættinni og allir skemmtu sér vandræðalaust.“
Bubbi minnist sérstaklega tveggja slíkra liðsmanna: „Upp úr 1980 tóku Jón Páll Sigmarsson og Hjalti „Úrsus“ Árnason við dyravörslunni einn veturinn og höfðu allt annað viðhorf og nútímalegra til samkynhneigðu gestanna en maður átti að venjast. Ég þekkti einn ungan homma sem stundaði Borgina, ætli hann hafi ekki verið 17 ára þegar hann birtist fyrst, kjaftfor ef að honum var sótt, einn af þeim sem létu engan eiga neitt hjá sér. Ég var orðinn handgenginn starfsfólkinu um þetta leyti svo ég bað þá Jón Pál og Hjalta að hafa auga með stráknum, gæta hans svo hann kæmi sér ekki í óþarfa klandur og yrði fyrir barsmíðum. Og það gerðu þeir eins og góðir feður.“
Og þá varð til lag
Hvað sem þessum sviptingum leið hafði Borgin sérstöðu meðal skemmtistaða á níunda áratugnum. Dyraverðirnir sýndu aldrei það ofbeldi sem þekktist á öðrum stöðum og gerði skemmtanalíf homma um tíma að hreinu helvíti. Það þótti ekkert grín að lenda í dyravörðunum á vinsælum stöðum eins og Óðali og Casablanca við Skúlagötu þegar þeir gengu í skrokk á mönnum og misþyrmdu þeim fyrir það eitt að stíga þar inn um dyr. Þeim fáu kærum sem bárust lögreglu var stungið ofan í skúffu. „Og það var einhvers staðar mitt í öllu þessu ofbeldi,“ segir Bubbi, „sem ég samdi sönginn um strákana á Borginni. Sumt í textanum átti þó reyndar frekar við hörkuna á hinum stöðunum en Borgina þekkti ég best og þá varð til lag, inspírerað af kabarettmúsík millistríðsáranna í Berlín.“
Lagið hefur lifað, minning um líf sem einu sinni var. „Strákarnir á Borginni“ reyndist þó eftir á að hyggja kveðjusöngur til fortíðarinnar því nú voru að renna upp nýir tímar. Barinn inn af Gyllta sal var ekki lengur sá vettvangur ættarmótsins og verið hafði. Samkynhneigðir fóru víða á næstu árum og laust fyrir 1990 lá leið þeirra flestra á Laugaveg 22. Þar var orðinn til staður sem bauð lesbíur og homma velkomin á þeirra á eigin forsendum, feluleikir á undanhaldi og auðmýkingar ekki lengur einkamál þeirra sem fyrir þeim urðu.
Leyndur kraftur
Barinn á Borginni er nú horfinn í sinni gömlu mynd og sjófuglarnir flognir, en ennþá lifa minningar um fortíð, bæði sæta og súra. Þótt menn ættu forðum daga oft undir högg að sækja þá kunna þeir líka að segja frá leyndum krafti sem kann að koma flatt upp á þá sem trúa því að heimurinn stefni stöðugt í eina og sömu átt – til framfara. Jón Þorsteinsson á síðasta orðið:
„Auðvitað var lífið litað af feluleik þessara ára og það tók okkur ár og daga að finna útleiðina, það voru þeir tímar. En þegar ég hugsa til baka þá man ég líka mikla fegurð í nautninni sem fylgdi ástarlífinu og þessi fegurð nærðist, svo undarlegt sem það er, á öllu því sem við urðum að fela fyrir heiminum. Núna má hamingjan sjást utan á manni daginn eftir ástarnótt, ef hún er þá til staðar, en þarna var maður alltaf dauðhræddur við að hamingjan sæist á manni, að maður kæmi upp um hana. Og þá gerðist það furðulega, við það að fela hamingjuna þá óx hún innra með manni.“
Bubbi Morthens, Jón Þorsteinsson, Veturliði Guðnason og Þórir Björnsson eru helstu heimildamenn þessarar greinar. Höfundur þakkar þeim framlag þeirra.
Birtist áður í tímariti Hinsegin daga 2016