Það getur vafist fyrir unglingum að segja fjölskyldu sinni og vinum að þeir séu samkynhneigðir en í langflestum tilvikum er þó enginn vandi á ferðum. Oft hafa foreldrar og systkini þegar áttað sig á stöðunni svo það er alls ekki víst að fréttin komi á óvart.
Sem betur fer hefur mikil umfjöllun um samkynhneigð í fjölmiðlum stóraukið skilning og víðsýni svo nú er miklu auðveldara en áður að ræða samkynhneigð innan fjölskyldunnar. Nú er líka auðvelt fyrir unglinga og foreldra að leita sér upplýsinga um samkynhneigð á netinu og margir foreldrar þekkja homma og lesbíur. Mjög mikilvægt er að þekkja réttindi sín og halda fram sjálfsögðum rétti sínum.
Unglingsárin eru tími mikils álags og mikillar ánægju, þá skiptast á skin og skúrir. Að átta sig á því að maður sé samkynhneigður og þurfa að gera öðrum grein fyrir því er viðbótarálag. Sumir ráða illa við þetta verkefni og þá er rétta leiðin að leita sér aðstoðar. Þá er hægt er að ræða við skólasálfræðing eða kennara sem maður treystir vel og auðvitað aðra samkynhneigða. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar sem fyrst, ekki bíða með það. Enginn hefur séð eftir því að koma úr skápnum. Það er alltaf til góðs.