Burðardýr | Stöð 2

Burðardýr | Stöð 2

Burðardýr er heiti nýrrar þáttaráðar á Stöð 2. Á meðal þeirra sem segja sögu sína í þáttunum er Ragnar Erling Hermannsson sem í maí árið 2009, þá 24 ára gamall, var tekinn með tæplega sex kíló af kókaíni í farangri sínum á alþjóðaflugvellinum í Recife í Brasilíu.

Daníel Bjarnason leikstjóri heimildaþáttaraðarinnar segir að hann hafi fengið hugmyndina eftir að hann gerði heimildaþættina Málið fyrir nokkrum árum.

Daníel Bjarnason

„Þeir tóku fyrir margvísleg mál í íslensku þjóðfélagi. Eitt af þeim var undirheimar og þar með burðardýr. Við fundum mjög margar sögur við vinnslu þeirra þátta og þess vegna datt mér í hug að það væri vel hægt að gera heila þáttaröð þar sem eingöngu yrði fjallað um burðardýr. Þess utan finnst mér fólk oft vera of dómhart í daglegu tali og þess vegna langaði mig að setja andlit á þessar fyrirsagnir, það er alltaf ástæða fyrir því að fólk fer þessa leið, að smygla fíkniefnum, ekki eingöngu til að borga skuldir heldur geta ástæðurnar verið margskonar. Þú þarft ekki meira en að taka eina vitlausa beygju, sem næstum hver sem er getur lent í, og þá ertu kominn í aðstæður sem er mjög erfitt að koma sér út úr.“

Daníel vonar að þessir þættir hjálpi við að dýpka skilning fólks á einstaklingum sem lenda í þessum aðstæðum.

„Þættirnir fjalla um fólk úr íslenskum veruleika sem hefur flækst inn í heim alþjóðlegs fíkniefnasmygls. Þetta er fólkið á bak við fyrirsagnirnar sem við höfum svo of oft séð, fólkið sem við köllum burðardýr. Þau segja okkur sögur sínar og draga ekkert undan,“ segir Daníel sem vonar að þessir þættir hjálpi við að dýpka skilning fólks á einstaklingum sem lenda í þessum aðstæðum.

„Það sem var erfiðast var að reyna að setja sig í þessi spor. Að ímynda sér líðan þessara einstaklinga. Að hlusta á þessar sögur og skilja þennan heim sem er svo langt frá því sem maður þekkir. Það er svo auðvelt að loka augunum og láta eins og þetta sé ekki til, ekki á Íslandi. En það er bara ekki raunin.“  Vonar hann einnig að þættirnir virki sem forvörn að einhverju leyti.

 

Ragnar Erling Hermannsson - Hinsegin dagar

Þakklátur fyrir að vera á lífi

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ragnar segir sína sögu af einlægni. Í viðtali í Fréttablaðinu 2014 sagðist hann þakklátur fyrir að vera á lífi og í Tímariti Hinsegin daga 2015 fjallaði hann meðal annars um það hvernig hann lætur erfiðleikana styrkja sig.

Frá þrettán ára aldri var hann meira og minna í neyslu. Hann átti sín góðu tímabil en þau stóðu yfirleitt stutt. „Ég náði samt sjaldnast að halda mér lengi á beinu brautinni. Sem barn og unglingur þá var ég aldrei sáttur við sjálfan mig. Mér leið alltaf eins og ég væri einskis virði. Þegar ég kynntist áfengi og eiturlyfjum þá fann ég frelsi. Síðan varð ég eldri og neyslan ágerðist. Henni fylgdi líka mikill óheiðarleiki en kannski fyrst og fremst flótti frá raunveruleikanum.“

Á unglingsárum kom hann einnig út úr skápnum. „Eftir það kynntist ég líka dálítið nýjum heimi. Ég fór inn í ákveðinn glansheim þar sem allt snerist um að vera sem flottastur og djammið var mikið.“ Hann segist sífellt hafa verið að reyna að vera annar en hann var en í raun og veru aldrei liðið vel, kannski komist næst því þegar hann var undir áhrifum. Um tvítugt jókst djammið og neyslan sem svo endaði með því að hann ákvað vegna skulda sem hann hafði safnað að taka að sér að smygla eiturlyfjum frá Danmörku til Íslands. Þegar á hólminn var komið guggnaði hann og tapaði efnunum.

Þegar hann kom aftur til Íslands eftir misheppnaða smyglferð var hann því kominn í skuld við þá sem áttu efnin og var gert að borga hana með því að fara til Brasilíu. „Á þessum tíma var ég stjórnlaus í neyslu. Þegar komið var til mín og mér sagt að ég ætti að fara þarna út þá hugsaði ég með mér að ég hefði ekkert val. Það var annaðhvort að axla ábyrgðina svona eða að eiga á hættu að mér yrði gert eitthvað eða fjölskyldu minni. Þessi gegndarlausa neysla hafði slökkt á öllum tengslum við sjálfan mig og mér var alveg sama hvað ég gerði.“

Fyrst fór hann til Amsterdam þar sem hann var í um þrjár vikur áður en hann fór til Brasilíu þar sem hann var í aðrar þrjár vikur áður en hann var sendur í smyglferðina. Þegar hann lenti á flugvellinum í Recife þótti tollvörðum hann grunsamlegur. Hann var beðinn um að koma afsíðis þar sem tæplega sex kíló af kókaíni fundust vandlega falin í tösku hans. „Það er svo skrýtið að þegar ég hugsa til baka þá finnst mér að vissu leyti eins og ég hafi ekki verið þarna. Ég var bara dofinn. Búinn á því andlega og líkamlega. Mig langaði bara að leggjast niður því ég var gjörsamlega að niðurlotum kominn.“

Því næst var hann leiddur burt í járnum. „Ég var leiddur niðurlægður í gegnum allan flugvöllinn fyrir framan myndatökuvélar og aðra ferðamenn, guði sé lof að það voru ekki fleiri á ferð,“ segir Ragnar og hryllir sig við tilhugsunina.

  

Sendur heim af mannúðarástæðum

Í ágúst 2013 veiktist Ragnar alvarlega og var lagður inn á spítala nær dauða en lífi. „Ég var þar í rúma tvo mánuði. Mér leið hræðilega og var nokkuð viss um að þarna myndi ég deyja,“ segir hann. „Ég var fárveikur og var vart hugað líf. Fjölskylda mín fór þá á fullt að finna lögfræðinga fyrir mig til þess að fá mig heim. Ég er henni ótrúlega þakklátur fyrir það. Vegna þess hversu veikur ég var þá fékk ég að koma heim af mannúðarástæðum. Þeir í raun sendu mig heim til að leyfa mér að deyja hér.“ 

„Ég grét þegar ég komst um borð í vélina og var á leið til Íslands. Ég trúði þessu ekki.“

 

Veikur af alnæmi

Ragnar fékk þó heilsuna aftur og fjallaði um veikindin í Tímariti Hinsegin daga 2015.

Ég var alltaf rosalega hræddur við HIV og ef ég fékk blett á húðina hugsaði ég alltaf fyrst um það. Ég vissi samt í rauninni ekki mikið, til dæmis þekkti ég ekki muninn á HIV og alnæmi. Ég vissi bara að fólk dó. Ég smitaðist sjálfur erlendis og varð rosalega veikur. Ég hafði oft farið í test en á meðan ég var úti þorði ég það ekki. Það var ekki fyrr en ég var orðinn fárveikur að ég var settur í test. Ég var á spítala í tvo mánuði af því að ég var í rauninni kominn með alnæmi.

Varstu þá búinn að vera lengi með HIV-veiruna?

Já. Læknirinn talaði um fimm ár en það var nú ekki svo langt því ég fór í test þremur árum áður og það var neikvætt. En ég hafði verið í mikilli neyslu og það ýfir upp sjúkdóminn. Ég hafði farið til læknis þrisvar eða fjórum sinnum, úrvinda af veikindum, en þeir létu mig bara fá sýklalyfjasprautu í rassinn og vökva í æð og sendu mig svo heim. Það var ekki fyrr en mér var ýtt inn á spítalann í hjólastól að ég var settur í test. Ég var kominn með bletti á húðina og allan pakkann. Ég hef aldrei verið svona veikur, þetta var hræðilegt. Ég var orðinn 70 kíló en mín meðalþyngd er 90 kíló, ég var ekkert nema skinn og bein. Ég var bara að deyja.

 

Veirulaus og fílhraustur

Læknarnir úti björguðu mér. Þegar ég kom heim fór ég svo beint í meðferð á A3 á Landspítalanum í Fossvogi. Ég fór á Atripla lyfið en í dag er ég á þremur tegundum af lyfjum af því að ég er með aðra týpu af veirunni sem finnst ekki hér heima af því að ég smitaðist úti. Meðferðin hefur gengið ofboðslega vel og ég svaraði lyfjagjöfinni strax mjög vel. Ég var orðinn nokkuð góður 3-4 mánuðum eftir að ég kom heim og veirulaus eftir aðra 3-4 mánuði. Læknirinn minn, Sigurður Guðmundsson, segist sjaldan hafa séð nokkurn taka svona vel á móti meðferð. Ég finn ekki í dag að ég sé með neinn sjúkdóm. Ég er fílhraustur og spriklandi í ræktinni og finn ekki fyrir neinu!

 

„Meðan ég var á spítalanum úti mælti vinkona mín með því að ég færi í meðferð á Krýsuvík. Ég ákvað að gera það. Ég komst þar inn í janúar og þá hófst bati minn,“ segir Ragnar.

 „Ég var þar í meðferð í sex mánuði og þar hófst í fyrsta skipti eitthvað sem hægt er að kalla bata. Ég horfðist í augu við sjálfan mig, hvernig hlutirnir voru og á hvaða stað ég var. Afneitun fíkilsins fór að rjátlast af mér. Ég fékk loksins þann verkfærakassa lífsins sem ég hef alltaf þurft á að halda,“ segir Ragnar.

„Ég jarðtengdist og sá hvernig ég hafði lifað síðustu ár. Þarna var ég við það að deyja og ég fékk annað tækifæri og ætla mér að nýta það vel. Mig langar að helga líf mitt því að hjálpa öðrum enda er ég virkilega þakklátur fyrir hvern dag,“ segir hann.

 

Áður en þættirnir um burðardýrin fóru í loftið mætti hann í Ísland í dag og má sjá það viðtal hér: Ætlar að segja sögu sína til að hjálpa öðrum: „Af hverju geri ég mér þetta?“

„Ég náði að aðlaga mig því hugafari til að nýta þetta til að styrkja mig og hjálpa öðrum að læra af því. Við getum stjórnað hugafari okkar á þann hátt. Við getum annað hvort séð þetta sem sorglegan hlut og vorkennt okkur. Eða bara hugsað þetta sem reynslu sem hægt sé að nýta sér.“

Ragnar segir að það sem hafi erfið erfiðast úti í Brasilíu hafi verið hausinn á honum.

„Það var erfiðast að díla við hausinn á mér. Að díla við þær hugsanir að ég væri svo mikið fórnalamb aðstæðna. Maður gerir allt svo miklu verra þegar hausinn á manni fer á fullt. Ég heafði svo mikinn tíma þarna úti í Brasilíu og hugsaði oft hluti eins og af hverju geri ég mér þetta?“

 

Hér er kynningarstikla um þættina.

 

Lesið viðtölin í heild sinni:

Vísir.is: Segir sögur íslenskra burðardýra: Erfitt að reyna að setja sig í þessi spor

Vísir.is: Þakklátur fyrir að vera á lífi

Hinsegindagar.is: Lætur erfiðleikana styrkja sig