Queer Eye | Netflix

Queer Eye | Netflix Queer Eye | Netflix
Watch the video

Queer Eye | Netflix

Sjónvarpsþátturinn Queer eye for the straight guy sló í gegn árið 2003 og hafði víðtæk áhrif á sínum tíma í því að auka umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum. Nú hefur efnisveitan Netflix sett í loftið nýja þætti sem byggja á sama formi þar sem fimm samkynhneigðir sérfræðingar taka að sér að fríska upp á útlitið hjá oftast gagnkynhneigðum manni, kenna honum að snyrta sig, elda hollt og gott, taka heimilið í gegn og efla með honum sjálftraustið. Oftast já því nýju þættirnir bera styttra nafn og í einum þættinum er ungum samkynhneigðum manni hjálpað.

Nýja útgáfan hefur vakið mikla athygli og greinilegt er að það er enn mikill áhugi á þáttum sem þessum þótt samfélagið hafi breyst mikið síðan 2003.

Nína Richter kvikmyndagagnrýnandi mætti í síðdegisútvarpið á Rás 2 15. febrúar og fjallaði um sjónvarpsþættina Queer eye og sparaði ekki lofið: "ótrúlega flott sjónvarp ... gleðisprauta ... gefur manni hlýtt knús ... mér líður alltaf betur eftir að hafa horft á Queer Eye". Hlusta má á viðtalið hér ef hoppað er 28 mínútur inn í þáttinn.

Dóri DNA sagði á Twitter  „Queer Eye For the Straight Guy lætur mér líða mjög vel.“ við góðar undirtektir. Atli Fannar svaraði „Svo gott að gráta yfir fyrsta þættinum“

 

Fréttablaðið birti samantekt á ýmsum umsögnum um þættina og ekki aðeins eru þær jákvæðar heldur segir greinarhöfundur Guardian, Hadley Freeman, að Queer Eye sé einn mikilvægasti nýi sjónvarpsþátturinn í langan tíma.

Hún segir að það sem geri þessa þætti mikilvæga sé að þeir taki á erfiðum félagslegum vandamálum og fjalli um leið um vandamálin sem fylgja gamaldags hugmyndum um karlmennsku á sérlega gagnlegan hátt, en það sé eitt mikilvægasta umræðuefnið í heiminum í dag. Henni finnst þátturinn eiga rosalega vel við árið 2018.

Á vefsíðunni Rotten Tomatoes er tekin saman gagnrýni frá 19 ólíkum gagnrýnendum og allir gefa þættinum jákvæða dóma. Almenn niðurstaða þar er að nýja útgáfan aðlagist nýjum tíma án þess að tapa stíl, sjarma eða skemmtanagildi, sem sanni að formúlan á bak við þáttinn sé jafn ánægjulega ávanabindandi og áður, þrátt fyrir nýja staðsetningu og stjórnendur. Margir hafa líka talað um að hann sé hið fullkomna mótefni gegn skaðlegum gamaldags hugmyndum um karlmennsku

Á vefmiðlinum Polygon er líka að finna mikla lofræðu um Queer Eye og áhrif hans á gamaldags hugmyndir um ímynd karlmennsku. Greinarhöfundurinn, Ben Kuchera, segir að þessi þáttur sé hið fullkomna svar við röddum ótalmargra ungra karlmanna, sem finnst þeir sniðgengnir í samfélagsbreytingum síðari ári. Margir ungir menn, sérstaklega hvítir menn í Bandaríkjunum, eru þeirrar skoðunar að í samfélagsþróun síðustu ára hafi þeir setið eftir og finnst þeir eiga á brattann að sækja.

Kuchera segir að þessir menn séu á villigötum þegar þeir spyrja „hvað með okkur?“. Það sé ekki samfélagið sem eigi að bjarga þeim, heldur verði hver og einn að bera ábyrgð á sér, stjórna sínu lífi og bjarga sér sjálfur. Hann segir að það séu skilaboðin sem Queer Eye sendir.

Kuchera segir að gamaldags hugmyndir um karlmennsku dragi karlmenn frá því að eyða tíma í sjálfa sig og sambönd sín við annað fólk. En Queer Eye sýni að með því að taka sér tíma til að sjá um sjálfan sig og bæta samskipti sín við annað fólk geti fólk sjálft breytt stöðu sinni til hins betra, verið ánægðara með sig og notið betra sambands við aðra. Lykillinn að því að fá aðra til að vilja eyða tíma með sér sé að eyða sjálfur tíma í sig. Kuchera segir að það sé erfitt að ofmeta áhrifin sem þátturinn gæti haft á þá karlmenn sem séu tilbúnir til að hlusta og vilji líða betur með sjálfa sig.

 

Samkynhneigðir þurfa að sjást

Snyrtisérfræðingur þáttarins, Jonathan Van Ness, hefur líka talað um mikilvægi þess að þáttur eins og Queer Eye sé í sýningu á meðan Repúblikanaflokkurinn sé við völd í Bandaríkjunum. Honum finnst málefni hinsegin fólks ekki hafa þróast í rétta átt eftir valdaskiptin. Hann minnist þess líka hvað gamli þátturinn skipti hann miklu máli á sínum tíma, því hann ólst upp í smábæ í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna, þar sem hann skorti fyrirmyndir sem hann tengdi við. Hann segir að það sé mikilvægt að samkynhneigðar fyrirmyndir sjáist í sjónvarpinu.

 

Nýja gengið hittir upphaflega Fab 5 gengið

Hér er stutt stikla þar sem upphaflega Fab Five gengið hittir nýja Fab Five gengið og ræðir þættina.

Nýlegar greinar