Af hverju gleðiganga?

Gleðigöngur homma og lesbía eiga sér langa sögu og voru upphaflega kallaðar "Gay Pride" en hafa nú yfirleitt fengið heiti þeirrar borgar þar sem gangan er haldin að viðbættu orðinu Pride sem þýðir stolt. Þannig heitir Reykjavik Gay Pride núna einfaldlega Reykjavik Pride. Gangan tengist þannig stolti þeirra sem mæta á staðinn, en gangan snýst einnig um sýnileika og síðast en ekki síst um gleði. Þótt um nýtt nafn sé að ræða geta hommar og lesbíur auðvitað áfram talað um Gay Pride með stolti í ljósi sögunnar um hvernig gangan varð til.

Pride göngur voru stofnaðar til að sýna gleði og glimmer. Markmiðið var sýnileikinn og um leið sýnileiki menningar samkynhneigðra þar sem hommamenningin kom sterkt inn, en menning lesbía var einnig áberandi, til dæmis í atriðum þar sem leðurklæddar konur á mótorhjólum leiða gleðigöngu eða þegar línudansandi lesbíur í kúrekafötum marsera í takt. Gangan varð til í framhaldi af átökum en var þó sem slík ekki hugsuð sem kröfuganga. Frekar var um að ræða taumlausa gleði og þá ögrun sem í gleðinni felst. 

Átökin á bak við gleðina voru við lögregluyfirvöld í New York þann 27. júní 1969 og í nokkra daga þar á eftir. Fyrr um daginn hafði leikkonan Judy Garland verið borin til grafar í borginni og var stemningin því frekar dauf á Stonewall Inn á Cristopher stræti í Greenwich Village borgarhlutanum því Judy Garland hafði verið fjölmörgum hommum og mörgum lesbíum mjög kær. Til dæmis tengdi margt samkynhneigt fólk við myndina Galdrakarlinn í Oz frá árinu 1939 þar sem fyrirheit voru um litríkan stað fjarri grámyglu þeirrar tilveru sem fólk bjó við. Einnig tengdu margir við líf Garland sjálfrar þar sem hún virtist hlý og almennileg, söngelsk og fyndin en um leið brothætt og oft varnarlaus.

Lögregluþjónar komu inn á barinn þetta kvöld á sama hátt og hafði gerst mörgum sinnum áður. Þeir ætluðu að smala liðinu á lögreglustöðina því svona fólk átti ekkert betra skilið. En í þetta skipti fór fólk ekki hljóðlega með heldur veitti mótspyrnu og hóf átök við lögreglumennina. Atburðurinn spurðist út í hverfinu og víðar í borginni og næstu daga var mjög eldfimt ástand, sérstaklega við Stonewall barinn.

Aðstæður samkynhneigðra voru á þessum tíma býsna misskiptar. Á börunum voru kvenlegu strákarnir sem gátu ekki falið sig. Þeir klæddu sig stundum í kjól til að ögra sem mest þeir gátu, eða voru jafnvel kannski einhverjir í raun trans. Sýnilegu hommarnir voru kvenlegir á meðan karlmannlegir hommar voru oftar í felum og komu á barina í skjóli nætur til að hitta kvenlegu gaurana og sofa hjá þeim. Hjá lesbíum var það sama upp á teningnum, karlmannlegar "trukka" lesbíur gátu ekki falið sig og þurftu því að þola áreitni frá hinu gagnkynhneigða samfélagi. Mikilvægt er einnig að nefna að þátt transfólks í Stonewall uppreisninni í þessu samhengi því sá þáttur hefur oft gleymst. Marsha P. Johnson og Sylvia Rivera voru virkar í baráttunni og hefur verið fjallað um þeirra þátt á ýmsum vefsíðum t.d hér og hér.

Upphaflega voru það því karlmannlegar lesbíur, kvenlegir hommar og transfólk sem tók slaginn við lögregluna. Hópurinn var blandaður; ýmsir kynþættir og fólk frá ólíkri menningu eða með efnalítinn bakgrunn. Fólkið sem þurfti yfirleitt að berjast fyrir sínu. Þessi átök breyttu miklu fyrir samfélag samkynhneigðra í New York og víðar. Og í framhaldi af þessum atburði og til að halda upp á hann,  var farið í göngur þar sem gleði og partý voru alls ráðandi. Fólk kom í gönguna til að gleðjast saman; vera sýnileg og njóta. Oft og þá sérstaklega í byrjun voru göngurnar haldnar 27. júní ár hvert.

Sumt gagnkynhneigt fólk gagnrýnir gleðigönguna og vill gjarnan halda sína eigin göngu eða kvartar allavega yfir því að ekki sé til ganga fyrir þau sérstaklega. Svarið er auðvitað það að alla hina 364 daga ársins fer fram gleðiganga gagnkynhneigðra. Hún fer fram í bíómyndum, í daglegri orðræðu fólks og á hún fer fram á nánast öllum vinnustöðum. Aðrir gagnrýna gönguna af því að hún er of mikill glamúr. Fólk fær ofbirtu í augun af öllu glimmerinu. Það vill dramatískari göngu þar sem minnt er á alvarlega hluti og réttinda krafist. Um leið og ekkert er að því að krefjast bættra réttinda fyrir flest fólk þá er slík ganga ekki endilega í anda þess sem lagt var af stað með þegar fyrsta gleðigangan í heiminum var farin. Því þegar á reynir þá ögrar gleðin öllum þeim sem eru fúlir og forpokaðir og sem telja að jákvætt viðhorf og gleði í hjarta sé á einhvern hátt ómerkilegri en alvarleg dramatík og drungi. Rök má færa fyrir því að gleðiganga hafi skilað meiri árangri í réttindabaráttu samkynhneigðra en áratuga dramatík og þunglamalegar áherslur. Alltaf er hægt að lauma smá skilaboðum inn með gleðinni en í raun tala gleðin og sýnileikinn fullkomlega sínu máli.