FAB partýið snýr aftur í hátíðarskapi

FAB partýið snýr aftur í hátíðarskapi

Strákaballið FAB partý snýr aftur  og nú með jólaþema. Þetta vinsæla partý verður haldið 15. desember í Ægisgarði og er opið öllum karlmönnum. Tónlistina sjá DJ Bistro Boy og DJ Dramatik um og fram koma dragdrottningar frá Drag-Súg og Páll Óskar - gay icon Íslands.

Frosti Jónsson, einnig þekktur sem Bistro Boy, er einn skipuleggjenda FAB partíanna, partí sem eru opinn öllum körlum sem fíla karla. Næsta ball verður haldið í Ægisgarði föstudaginn 15. desember.
Frosti Jónsson, einnig þekktur sem Bistro Boy, er einn skipuleggjenda FAB partíanna, partí sem eru opinn öllum körlum sem fíla karla. Næsta ball verður haldið í Ægisgarði föstudaginn 15. desember.

Gayiceland.is talaði við einn skipuleggjendanna Frosta Jónsson, einnig þekktur sem Bistro Boy, um viðburðinn og þróunina undanfarið á partýsenu homma í Reykjavík. Fyrsta spurningin var: Hverju mega partýgestir eiga von á í þetta sinn?

„Markmiðið hjá okkur er ofur einfalt og það er að búa til skemmtilegt partý fyrir gay, bi og trans stráka. Það eru í raun engir skemmtistaðir þar sem þessi hópur getur komið saman og skemmt sér saman og FAB partýin eru tilraun til að bæta að einhverju leiti úr því.“


Þið eruð búnir að fjölga þessum viðburðum og halda tvö strákaböll síðastliðið ár, auk Bears on Ice. Hverju þakkið þið góðu viðtökurnar?

„Við erum bara að prófa okkur áfram og erum himinlifandi með viðtökurnar og hversu margir strákar eru að mæta á þessa viðburði. Þetta er annað FAB partýið á þessu ári, hið fyrra var haldið í vor og mætingin á það fór fram úr væntingum. Það virðist vera eftirspurn eftir svona viðburðum og meðan fólk mætir þá erum við tilbúnir að halda áfram.“

Hafa gestirnir að mestu leyti verið íbúar á Íslandi eða hafa ferðamenn tekið þátt í fagnaðinum?

„FAB partýin eru fyrst og fremst tilraun til að krydda íslensku senuna og við erum að reyna að höfða til þeirra sem búa á Íslandi. En þar sem það eru alltaf slæðingur af ferðamönnum á landinu allt árið um kring þá er alltaf einhver hópur af útlendingum að mæta sem er bara skemmtilegt.“

Páll Óskar hefur talað um hvað hann hafi saknað “men-only” viðburða áður en þessi varð til. Hvað veldur því að þá hefur vantað þar til nú?

„BEARS ON ICE er búið að vera í gangi síðan 2005 og það er viðleitni til að halda viðburði fyrir karlmenn. Hinsvegar má segja að men-only senan hafi farið dáldið halloka eftir að MSC Leðurklúbburinn sálugi lagði upp laupanna 2011 og því hefur verið í fá hús að venda fyrir stráka sem vilja kíkja út á lífið og skemmta sér með öðrum strákum á sínum forsendum. En Páll Óskar hélt einmitt frábært strákaball á sama stað fyrir ári og kviknaði hugmyndin að því í samtali þegar hann horfði yfir hópinn af karlmönnunum sem voru mættir á opnunarkvöld Bears on Ice í fyrra.“

Kemur til greina að fjölga partýjunum yfir árið?

„Það er allt opið í þeim efnum. Við erum samt mjög ánægðir með þá viðburði sem eru í boði yfir árið eins og Reykjavík Pride, Pink Party Rainbow Reykjavik og BEARS ON ICE með þrjú mismunandi men only partý. Allt eru þetta skemmtilegir viðburðir en hver öðrum ólíkur. Og það er bæði mikilvægt og gott.“

Þú hefur staðið fyrir mörgum viðburðum gegnum árin. Hver er lykillinn að því að halda gott partý?

„Tja, góð spurning. Meðan það er áhugi á að mæta og taka þátt, þá gerast hlutirnir einhvernvegin af sjálfu sér. Ef fólk er staðráðið í að skemmta sér þá verður gaman. Svo hjálpar auðvitað að hafa gott skipulag á hlutunum, leggja dáldið í umgjörðina og jafnvel brydda uppá einhverjum skemmtiatriðum.“

Munu gestir komast í jólaskap?

„Alveg örugglega! Við fáum til okkar skemmtilega gesti sem ætla að hjálpa okkur að koma öllum í gott jólaskap og svo verður stórskemmtilegt FAB-drætti með skemmtilegum vinningum sem vafalítið eiga eftir að gleðja. Allir sem kaupa miðana í forsölu eiga möguleika á að lenda í lukkupottinum auk þess að fá ódýrari miða. En umfram allt verður klúbbastemning og stuð.“

 

Steindór Grétar Jónsson

Greinin birtist upphaflega á gayiceland.is og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi: THE FAB PARTY RETURNS IN FESTIVE MOOD

Steindór Grétar Jónsson - gayiceland.is