Hatursorðræða dæmd í Hæstarétti

Hatursorðræða dæmd í Hæstarétti

Samningur Hafnarfjarðarbæjar við Samtökin ´78 um hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar 2015 varð tilefni umræðu á sínum tíma, bæði í athugasemdum við fréttir um málið á Visir.is og DV.is og víðar sem og í símatímum á Útvarp Sögu og voru ekki allir sáttir við samninginn, fræðsluna eða samkynhneigð yfir höfuð.

Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður Samtakanna ´78 sagði í frétt Fréttablaðsins um málið hinsegin fólk um allt land, börn þess, fjölskyldu og vini taka umræðunni þungt og að það væri vegna þessarar vanlíðunar sem hatursummælin valda að stjórn Satakanna ´78 hefði ákveðið að kæra ummælin í apríl 2015. Þau kærðu tíu einstaklinga til lögreglu fyrir hatursummæli sem þau töldu refsinæm, þau feli í sér háð, róg og smánun í garð hinsegin fólks vegna kynhneigðar þess og/eða kynvitundar.

Ekki voru allir sáttir við framtakið, sumum fannst tilefnið ekki nægjanlegt og að þær byggðu á veikum grunni. Lagagreinin þótti óljós en stjórnarskrárbundið málfrelsi afar skýrt. Einnig var efast um gagnsemi framtaksins sér í lagi ef kærunum yrði hafnað. Lögregla vísaði kærum Samtakanna 78 upphaflega frá án rannsóknar. Sú ákvörðun var kærð og sendi ríkissaksóknari málið til baka til lögreglu. Þá var málið rannsakað og voru átta ákærur gefnar út í framhaldinu. Um þær var fjallað i Hérðasdómi og niðurstaðan þar var að enginn var sakfelldur í þessum málum.

14. desember 2017 féllu loks þrír dómar í Hæstarétti þar sem til umfjöllunar var hvort þrír einstaklingar hefðu gerst sekir um „hatursorðræðu“ samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningarlaga með nánar tilgreindum ummælum sem þeir létu falla í athugasemdum á vefsíðum. Í öllum málunum mátti rekja tilefni ummælanna til samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á ályktun sem laut að gerð samstarfssamnings við Samtökin ´78 um svokallaða hinseginfræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Hæstiréttur sakfelldi tvo ákærðu og sneri með því við dómum héraðsdóms, en staðfesti sýknudóm héraðsdóms yfir einum ákærða. Einn hæstaréttardómari af þremur skilaði sératkvæði í öllum málunum og vildi staðfesta sýknudóma héraðsdóms í öllum tilvikum.

Dómana í heild sinni má lesa hér, hér og hér.

 

Ummælin sem fjallað var um

Í frétt rúv.is um málið var farið yfir ummælin:

Carl Jóhann Lilliendahl var ákærður fyrir að hafa látið hatursfull ummæli falla í athugasemd við frétt á Vísi um ályktun bæjarstjórnarinnar. Sagði hann meðal annars „ógeðslegt að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu“. Hæstiréttur taldi ummælin alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull. Var hann sakfelldur og dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 100.000 krónur og sakarkostnað.

Sveinbjörn Styrmir Gunnarsson var ákærður fyrir að hafa látið hatursfull ummæli falla í athugasemd við frétt á dv.is um málið. Vísaði hann meðal annars til samkynhneigðar sem „kynvillu“. Orðin voru alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull að mati Hæstaréttar og var Sveinbjörn sakfelldur og dæmdur til að greiða 100.000 krónur í sekt og sakarkostnað.

Þriðji maðurinn, sem ekki er nafngreindur, var hins vegar sýknaður. Var hann ákærður fyrir ummæli sem hann lét falla á vefsíðunni Barnaskjóli. Sagði hann að kynfræðslu ætti ekki að veita í skólum og þá ætti aldrei að „réttlæta ónáttúrulega kynhegðun fyrir saklausum börnum“. Hæstiréttur taldi að ummælin mætti telja sem smánun í garð samkynhneigðra. Þau hafi þó ekki verið nægilega gróf til þess að flokka mætti sem hatursorðræðu. Niðurstaða héraðsdóms var því staðfest.

Einn hæstaréttardómari af þremur, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti í öllum málunum, en hann vildi staðfesta sýknudóma Héraðsdóms í þeim öllum. Ólafur féllst á að ummælin hefðu verið niðrandi, en þau hafi verið hluti af skoðanaskiptum í athugasemdakerfi „þar sem oft er vaðið á súðum og vart til þess fallin að að veita skoðun ákærða brautargengi“. Ummælin hafi frekar verið viðbrögð við ályktun bæjarstjórnar en viðleitni til að ógna, smána, rógbera eða hæðast að tilteknum hóp. Því hafi ekki verið ástæða til annars en að staðfesta dóma Héraðsdóms.

 

Viðbrögð

Ekki var að finna nein viðbrögð við dómunum á heimasíðu, Facebook síðu eða Twitter síðu Samtakanna ´78 þegar þetta er skrifað.

Hér eru hinsvegar athyglisverð viðbrögð frá þingmanni og hæstarréttardómara.

 

Á fólk að hafa rétt til þess að þagga niður í öðrum með því einu að vera móðgað?

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata tjáir sig um málið í bloggfærslu og var ekki sáttur við niðurstöðu Hæstaréttar og túlkun dómara á þeirri lagagrein hegningarlaga sem dæmt er eftir enda sé hún „með óskiljanlegri lagabókstöfum“:

Í fimmta lagi er þessi stórkostlega og fráleita lína í álitum meirihlutans: „Lýsingin í 233. gr. a. almennra hegningarlaga á háttseminni, sem refsing er þar lögð við, er orðuð á auðskiljanlegan hátt.“– Þetta er sennilega það rangasta sem hæstiréttur hefur nokkurn tíma látið frá sér. 233. gr. a er með óskiljanlegri lagabókstöfum og er algjörlega háð gildismati lesandans. Það er fullkomlega ómögulegt fyrir hinn almenna borgara að lesa hana og átta sig á því til hvers sé ætlast af honum. Eins og Ólafur Börkur Þorvaldsson segir réttilega í séráliti sínu: „Til þess er að líta að orðalag framangreinds hegningarlagaákvæðis er einkar opið og veitir litla leiðbeiningu um það hvað löggjafinn telur flokkast undir slíka háttsemi, sem í ákæru er nefnd hatursorðræða, eða hversu langt borgararnir megi ganga í umræðu áður en til greina kemur að ríkisvaldið refsi fyrir hana sem afbrot með þeim áhrifum sem það hefur í för með sér í lýðræðislegu samfélagi.“ <- Hann hittir naglann á höfuðið, enda í algjörri mótsögn við þessa fáránlegu fullyrðingu meirihlutans.

 

En hvernig ætti þetta þá að vera? Vissulega eru takmarkanir á tjáningarfrelsi lögmætar undir einhverjum kringumstæðum. En slíkar skerðingar verða að afmarkast við tiltekinn rétt annarra, til dæmis réttinn til öryggis. Þannig er algjörlega réttmætt að hótanir um ofbeldi eða skemmdarverk séu bannaðar (t.d. ákalli um að brenna kirkjur/moskur/musteri eða þess háttar). Sömuleiðis er réttmætt að það sé bannað að dreifa persónugögnum um aðra, vegna þess að aðrir hafa rétt til friðhelgi einkalífs. En fólk á ekki að hafa einhvern rétt til þess að þagga niður í öðrum með því einu að vera móðgað. Móðganir eru tilfinningaleg viðbrögð sem hver og einn hefur þó nokkuð mikla stjórn yfir og það er þess vegna sem þessi „lína“ tjáningarfrelsisins er svona óskýr. Það er engin lína og á ekki að vera nein lína. Spurningin er hvort að tjáningin brjóti beinlínis á réttindum annars fólks eða ekki. Það geta komið upp vafamál í flestri lagatúlkun, en hún er verst þegar það er miðað við einhverjar óskýrar línur sem fara í meginatriðum eftir tilfinningaástandi og skapgerð ótilgreindra einstaklinga hverju sinni.

 

Getur leitt til þöggunar og sjálfsritskoðunar

Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður tjáði sig um nýfallna hatursorðræðudóma í Hæstarétti í þættinum Harmageddon á X-inu 15. desember 2017

 „Stjórnarskráin er alveg skýr á því að menn mega tjá sig og láta í ljós hugsanir sínar. Síðan er heimilt í sömu stjórnarskrá að takmarka tjáningarfrelsi ef það er sérstök nauðsyn sem knýr til þess. “ „Það sem vekur athygli mína þegar ég les sakfellinguna í Hæstarétti … er ég ekkert sámmála því að skilyrðið um nauðsyn sé uppfyllt. Vegna þess að þegar einhver lætur svona hugsanir í ljós, hvað í ósköpunum er nauðsyn að refsa fyrir það? Eina sem það gerir er það að með svona smekklausu tali bítur hann menn frá sínum málstað“ „Þetta veldur því ekki á nokkurn hátt að Samtökin ´78 eigi á nokkurn hátt eigi eitthvað erfiðara uppdráttar á eftir eða samkynhneigðir. Þeir fá fyrst og fremst bara meiri velvilja ef menn tala svona um þá og samúð þegar svona er talað um þá.“ „Með þessum tilteknu ummælum þá var engum efnislegum hagsmunum ógnað. Það var eingin nauðsyn að refsa fyrir þetta“.

Þáttastjórnandi spyr hvort verið sé að refsa illa upplýstu fólki fyrir fordóma. „Vil skulum fyrst hafa það í huga að það er hvergi í lögum bannað að vera fordómafullur, það er hvergi bannað að hafa rangar skoðanir eða illa ígrundaðar. En þegar kemur að tjáningunni þá er aðalreglan að menn mega tjá þær eins og menn vilja en það eru auðvitað viss takmörk.“

„En það sem ég gagnrýni og mér finns minnihluti útskýra mjög vel, að það er verið að tala um eitthvað sem Hafnarfjarðarbær er að gera. Það er ekki einu sinni verið að tala til samkynhneigðra. Það er ekki einu sinni verið að tala til Samtakanna ´78. Þetta er ekki einu sinni orðræða við samkynhneigðra einu sinni. Það er verið að fjalla um einhverja ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar og svo lætur einhver í ljós viðhorf með mjög ósmekklegum hætti og ég er ekkert að hæla mönnum fyrir það.“ „En að fara að refsa, að ríkið taki sér það hlutverk í samskiptum manna að vera að lemja á puttana á mönnum með þessum hætti, þetta er ekki lýðræðinu til framdráttar.“

Varðandi að áfrýja dómunum til Mannréttindadómstóls Evrópu. „ef menn létu reyna á þetta þar er að það hafi verið takmarkað tjáningarfrelsi í þessu tiltekna máli að ófyrirsynju af því það var engum alvöru hagsmunum mótmælt. Það var engin nauðsyn á að hefta þessa orðræðu við þessar kringumstæður, sem beindust ekki að neinu öðru en Hafnarfjarðarbær var að gera í skólanum.“

Svona mál geta ekki orðið óumdeild. „Svona mál þar sem dómstólar eru að vega saman ólíkar reglur og sjónarmið, friðhelgi einkalífs, æru og tjáningarfrelsi þá verða þeir dómar í eðli sínu alltaf umdeildir því þeir byggjast á mati á hagsmunum. Hvað vegur þyngra, hagsmunum sem eiga að hafa jafnt vægi í lögum.

En skapar þetta hættulegt fordæmi? „Jú þó þú hafir dóm eins og þessa sem eru vel unnir og rökstuddir þannig að þeim er ekki ætlað að hafa mjög víðtæk áhrif. Það er verið að segja bara að eins og stendur á í þessu máli þá er þetta í lagi þá er það þannig að allur almenningur sem er að tjá sig hann veit bara að einhverjir sögðu eitthvað og þeir fengu sekt fyrir það. Þetta getur leitt til þöggunar, sjálfsritskoðunar og ótta sem er ekki samfélaginu til framdráttar. Þess vegna átti Hæstiréttur ekki að fara á þessar brautir því það er mikill munur á því að tjá skoðanir sýnar með ósmekklegum hætti út af einhverju sem Hafnarfjarðarbær er að gera í skólum eða hvort þú tekur svona ummæli og beinir þeim að ákveðnum hópi. Það var ekki gert þarna.“

„Fordómar eru ekki bannaðir í lögum. Það er bara þegar tjáningin er farin að ganga á einkalíf annarra eða meiða aðra með þeim hætti að það verður ekki við unað, stjórnarskráin segir að ef á að grípa inn í með þeim hætti þá veður það að vera nauðsynlegt. Ég sé enga nauðsyn í þessu máli að vera að refsa.“

Harmageddon - Getur leitt til þöggunar og sjálfsritskoðunar