Mér finnst ég heppnasta kona í heimi

Mér finnst ég heppnasta kona í heimi

„Bassaleikari, húsgagnasmiður, félagsráðgjafi og kvikmyndaframleiðandi. Þær eru ekki margar miðaldra konurnar sem hafa átt jafn viðburðaríkan starfsferil og Kristín Þórhalla Þórisdóttir, eða Kidda rokk eins og hún er kölluð.“ Svona byrjar viðtal við Kiddu Rokk sem birtist í helgarútgáfu DV 26. janúar 2018. Þar er farið yfir nokkra þessa þætti og líka þegar hún fann ástina í óvæntu konuboði.

„Ég var sko alls ekki á leiðinni í samband og var ekkert að leita. Hafði verið skilin í fimm ár, átt í einu fjarsambandi í millitíðinni og var einhvern veginn mjög sátt við lífið eins og það var. Ég reiknaði ekkert með því að komast í þetta konu boð en þegar pabbi bauðst allt í einu til að passa þá ákvað ég að skella mér og þarna hitti ég hana Evu mína fyrst þannig að sem betur fer fór ég!“ segir hún og ljómar af gleði, enda yfir sig ástfangin.

„Í kjölfarið fórum við að tala saman á netinu og ég heillaðist upp úr skónum. Tveimur vikum síðar kom hún svo á deit til mín og það má segja að hún hafi ekkert farið heim eftir það, nema bara til að ná í krakkann,“ segir Kidda og skellir upp úr en þegar þær kynntust hafði Eva nýlokið fæðingarorlofi og átti tuttugu mánaða gamla dóttur, Guðrúnu Teódóru, sem nú er þriggja ára.

„Okkur líður báðum eins og við séum komnar heim enda erum við algjörir sálufélagar. Svo gerðist bara allt mjög hratt. Nú höfum við fest kaup á sætu einbýlishúsi saman og þar búum við ásamt börnum okkar í góðu yfirlæti. Það er eins og við Eva höfum alltaf átt að vera saman og það er satt að segja alveg ótrúlega góð tilfinning. Mér finnst ég heppnasta kona í heimi.“

 

Þá rann það endanlega upp fyrir mér að ég væri lesbía

Kidda segist hafa verið í kringum fjórtán ára þegar hún byrjaði smátt og smátt að átta sig á því að hormónatengdu tilfinningarnar sem bærðust innra með henni voru ekki beint eins og hjá hinum unglingsstelpunum. Með öðrum orðum varð Kidda skotin í stelpum en ekki strákum.

„Ég lokaði hressilega á þetta til að byrja með. Fann samt innst inni að ég varð einhvern veginn skotin í sumum vinkonum mínum. Ég gerði mér samt aldrei almennilega grein fyrir því hvað var að gerast og við það myndaðist tómarúm innra með mér sem var erfitt að eiga við. Fram að átján ára aldri setti ég aldrei sjálfa mig í neitt samhengi við ástamál og var þannig ekkert eins og hinir krakkarnir. Jú, ég kyssti reyndar einn góðan vin minn, en ég átti aldrei kærasta eða neina svoleiðis reynslu sem unglingur. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að fara til Reykjavíkur og sækja skemmtistaðinn 22 á Laugavegi að ég skildi þetta betur. Þar hitti ég til dæmis fyrstu stelpuna sem ég svaf hjá og þá rann það endanlega upp fyrir mér að ég væri lesbía,“ segir Kidda sem pakkaði fljótlega saman og flutti alfarið úr foreldrahúsum eftir þetta til að búa í Reykjavík sem í þá daga var ekki beint menningarlega fjölskrúðug borg en þó öllu skrautlegri en Akranes.

„Þegar ég lít um öxl þá sé ég að ég var alltaf einhvern veginn að reyna að finna mína fjöl í lífinu og ég held að þetta rótleysi hafi að mörgu leyti orsakast af því hvað ég var lengi að gangast við kynhneigð minni. Eins og fyrr segir var ég átján ára þegar ég var fyrst með konu. Samt gekkst ég ekki alveg við sjálfri mér og alltaf eitthvað að reyna að eiga kærasta áfram, – sem gekk auðvitað ekki vel. Það var svo ekki fyrr en ég orðin tvítug að við systir mín fórum saman í tímamótaferð upp á Skaga til að ég gæti komið út úr skápnum gagnvart foreldrum okkar,“ segir Kidda en systir hennar var sú allra fyrsta til að fá að vita þetta og ekki leið á löngu þar til fleiri frjálslyndir vinir og félagar bættust í hópinn.

„Ég man hvernig við systurnar sátum ásamt félögum okkar inni á Café au Lait og allir voru allt í einu byrjaðir að peppa mig upp í að fara upp á Skaga og segja frá þessu. Á endanum var ekkert annað í stöðunni en að stökkva upp í Akraborgina og rumpa þessu verkefni af,“ segir hún og lýsir því hvernig hún reyndi að herða sig upp með því að fara yfir orðin í huganum: „Ég ætla bara að segja þér þetta mamma … Ég er lesbía!“

Við Jóhanna gengum inn um dyrnar heima hjá foreldrum okkar og ég var alveg klár í slaginn þegar mamma, sem var að undirbúa eitthvert boð, lítur upp, horfir blíðlega á mig og segir:

„Kristín mín. Ég veit alveg hvað þú ert að fara að segja mér. Þú ert samkynhneigð, en vittu að við pabbi þinn elskum þig bara alveg eins og þú ert.“

Upp frá þessu sýndu þau mér mjög mikinn stuðning. Voru fremst í öllum Gleðigöngum með fánana og bara alveg til fyrirmyndar. Ég á hins vegar marga vini sem áttu því miður ekki eins góða reynslu. Var jafnvel hafnað af foreldrum sínum til lengri eða skemmri tíma,“ segir hún alvarleg í bragði en bætir við að í dag sé þetta allt annar heimur.

„Árið 1997 máttu til dæmis samkynhneigðir fyrst skrá sig í sambúð og síðan höfum við smátt og smátt öðlast sama rétt og aðrir. Lífið í dag er í sjálfu sér ekkert sambærilegt við það sem við þekktum á þessum árum þótt enn votti sums staðar fyrir smá fordómum þá er ekki hægt að bera þetta saman.“

 

 

Hvaðan kemur nafnið Kidda rokk?

Bútur úr viðtali við Kiddu rokk sem var í heild sinni í helgarútgáfu DV 26. janúar 2018.

 

Lesið viðtalið allt á DV.is: Varð ólétt, lagði frá sér hamarinn, lærði félagsráðgjöf og fór að vinna við Game of Thrones

Myndir: Brynja / DV

Tengdar greinar