Tók sjálfan sig í sátt og fann hamingjuna

Tók sjálfan sig í sátt og fann hamingjuna

Flugþjónninn Vilhjálmur Þór sagði hvetjandi sögu sína í mjög opinskáu viðtali í janúar tölublaði MAN.

Þegar Vilhjálmur Þór var tvítugur, í yfirþyngd og verulega þunglyndur tók hann þá ákvörðun að svipta sig lífi. Hann skrifaði kveðjubréf til fjölskyldunnar og var við það að smeygja snörunni um hálsinn þegar örlögin gripu inn í það kvöld og hann varð að hætta við.

„Ég var virkilega reiður og gat ekki hugsað mér að þurfa að vakna aftur. Svo var eins og einhver hefði hrist í mig skynsemi yfir nóttina því ég vaknaði með heila aðgerðaáætlun í höfðinu.“

Vilhjálmur stefndi á að missa 40 kíló, koma út úr skápnum, eignast kærasta og verða hamingjusamur. Núna tíu árum eftir þennan örlagaríka dag er Vilhjálmur hamingjusamur, vinmargur og í góðu starfi.

„Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti breyst svona mikið, að lífið gæti orðið svona gott,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur varð fyrir aðkasti og einelti í skóla frá 14 ára aldri vegna samkynhneigðar.

„Ég dró mig í hlé, borðaði tilfinningarnar mínar, eins og sagt er, og fór að fitna mjög mikið.“

Vanlíðanin jókst mjög og ástandið varð enn verra þegar Vilhjálmur flutti á heimavistina í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

„Þegar ég kom svo heim í sumarfrí, tvítugur að aldri, var ég kominn með algjörlega nóg af þessu öllu saman. Ég var orðinn 130 kg og fannst ég vera fyrir öllum. Þá tók ég þá ákvörðun að svifta mig lífi enda upplifði ég sjálfan mig gífurlega byrgði á fólkinu í kringum mig. Ég gat ekki komið úr skápnum og sá fyrir mér að vera kastað á dyr. Ég hafði engar samkynhneigðar fyrirmyndir á Ólafsfirði og sá eini sem ég gat horft upp til var Páll Óskar sem ég þekkti eingöngu í gegnum fjölmiðla. Mér fannst ég algjörlega einn í heiminum og fann hvergi pláss fyrir mig. Ég var handviss um að það væri mun auðveldara að vera samkynhneigður í Reykjavík og vildi ekki vera fyrstur til að koma út úr skápnum í þessu litla samfélagi. Þetta lá þungt á mér en ég skammast mín fyrir að hafa ekki búist við meiru af fjölskyldu og vinum.“

 „Ég hefði aldrei komið út úr skápnum ef ég hefði ekki grennst. Sjálfstraustið jókst með hverju kílóinu sem fór og að lokum var mér orðið alveg sama um álit annarra. Fyrst ég hafði samþykkt sjálfan mig gat enginn annar verðfellt það hver ég væri.“

„Þegar ég byrjaði hljóp ég milli vegstika, móður og másandi. Smám saman efldist þolið og ég gat hlaupið milli sveitabæja án þess að missa andann. Loks fékk ég mér einkaþjálfara og lagði allt mitt í þetta verkefni. Aldrei hvarflaði að mér vantrú á eigin getu eða uppgjöf.“ 

Einu og hálfu ári síðar og þrjátíu kílóum léttari kom Vilhjálmur út úr skápnum og í dag nýtur Vilhjálmur lífsins, ferðast mikið og hreyfir sig.

Úrdrátt úr viðtalinu í Man má lesa á mlb.is: Ætlaði að svipta sig lífi en ...

Einnig rekur hann sögu sína í bloggfærlsu sem má lesa hér: Fögnum fjölbreytileikanum

 

Ókeypis aðstoð er í boði

Við viljum benda á að ef þú tekst á við svipaðar tilfinningar þá er ókeypis aðstoð í boði allan sólarhringinn í hjálparsímanum 1717 og netspjall Rauða Krossins.

Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara þeim símtölum og spjöllum sem 1717 berast og sem dæmi um það sem fólk hefur samband vegna, bæði fyrir sig og aðstandendur, má nefna:

  • kynferðismál, kynhneigð, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma
  • einmanaleika, þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaða
  • kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi, einelti og stríðni
  • átraskanir, geðraskanir, sorgir og áföll
  • fjármál, námsörðuleika, húsnæðisvandamál, atvinnuleysi
  • rifrildi og samskipti, ástarmál, fordóma
  • barnaverndarmál
  • heilbrigðisvandamál, neyslu, fíkn

Þessi listi er á engan hátt tæmandi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi.

Nánari upplýsingar: Hjálparsíminn 1717 og netspjallið

 

Tengdar greinar

Nýlegar greinar