Gleðigangan Hýr halarófa á Seyðisfirði

Hýr halarófa á Seyðisfirði
Gleðigangan Hýr halarófa á Seyðisfirði

Pride hátíðir eru haldnar víða um heim en upphaf þeirra má rekja til baráttu homma og lesbía fyrir auknum réttindum í Bandaríkjunum í upphafi 8. áratugarins. Reykjavík Pride, eða Hinsegin dagar, hafa verið haldnir hátíðlegir í miðborg Reykjavíkur frá árinu 1999 og nú er komin hefð á Seyðisfirði líka.

Mynd - Austurfrétt
Mynd - Austurfrétt

Þetta byrjaði allt með því að Snorri Emilsson komst ekki á Gleðigönguna í Reykjavík 2014, en hann hafði tekið þátt í henni þrjú undanfarin ár. Hann hafði heyrt af vinum sem höfðu verið í sömu sporum áður og höfðu þá tekið upp á því að ganga fram og aftur Norðurgötuna til að sýna stuðning við réttindi hinsegin fólks. Honum fannst þetta skemmtileg hugmynd og ákvað að hann mundi prófa þetta líka. Hann fékk að tengja spilara við hátalarkerfi Kaffi Láru og stilla einum hátalara út á götu, með honum gengu 6 manneskjur, sumar sem voru bara staddar á staðnum þegar gengið var. Þegar hann birti myndir af uppátækinu á Facebook spurðu allmargir hvers vegna hann hefði ekki látið vita að hann ætlaði að gera þetta þannig að árið eftir ákvað hann að láta vita fyrirfram á Facebook og viðbrögðin voru langt um fram það sem hann bjóst við. Komu þá nokkrir vinir hans saman og sögðust vilja hjálpa honum með þetta og þar sem allt stefndi í mun stærri hóp en búist var við, var ákveðið með nánast engum fyrirvara að fara hring um bæinn í stað þess að ganga bara fram og aftur Norðurgötu. Sýndu lögregluyfirvöld þessu mikinn skilning og gáfu grænt ljós þrátt fyrir stuttan fyrirvara. Árið 2015 mættu um 70 manns sem vildu sýna stuðning sinn í verki og þegar göngunni lauk 45 mínútum síðar var hópurinn orðinn nærri 120 manns. Þar með var boltinn farinn að rúlla og árið eftir gengu rúmlega 200 manns. Ljóst er að Gleðiganga líka á Seyðisfirði er komin til að vera.

 

Hýr Halarófa

Gangan á Seyðisfirði er opin öllum.  Einum af þeim sem komu að skipulagningunni frá upphafi fannst gangan þurfa að hafa sitt eigið nafn og kastaði þessari hugmynd fram, var hún gripin á lofti og er gangan því nefnd Hýr Halarófa – Gleðiganga líka á Seyðisfirði.

 

Allt unnið af sjálfboðaliðum

Hópurinn sem tekur þátt í undirbúningnum gerir allt í sjálfboðavinnu, engin laun eru greidd og allur kostnaður kemur úr eigin vösum hópsins, þó hafa nokkrir aðilar atvinnulífsins sýnt þessu stuðning svo kostnaður einstaklinga þurfi ekki að vera of mikill.

Norðurgötuhópurinn (hópur verslunareigenda) hefur stutt framtakið dyggilega með því að taka að sér skreytingar og meðal annars staðið fyrir því að regnboginn var málaður á götuna og er Norðurgatan orðin einn allra vinsælasti staðurinn á Seyðisfirði fyrir myndatökur.

Kaupfélag Hinsegin daga hefur stutt við framtakið með ýmsum varningi sem hefur verið lánaður og gefinn, þar sem fram hafa komið óskir frá þátttakendum að fá að kaupa varning er það í skoðun að kaupa meira inn og selja á kostnaðarverði.

Kaffi Lára hefur verið þátttakandi í framkvæmdinni frá upphafi og heldur utan um Gleðiballið.

 

Myndir frá visitseyðisfjordur.is

 

Sjá nánar:

Facebook viðburður: Gleðigangan Hýr halarófa á Seyðisfirði

Grein á www.visitseydisfjordur.com: Hýr Halarófa - Gleðiganga líka á Seyðisfirði

Grein í austurfrétt.is: Gleðiganga gengin í annað sinn á Seyðisfirði