Loki: nýr félagsskapur hinsegin karla og kvára

Loki: nýr félagsskapur hinsegin karla og kvára

Loki er nýr félagsskapur hinsegin karla og kvára sem er ætlaður þeim sem vilja kynnast fólki innan samfélagsins okkar, hitta fólk og bara almennt hafa gaman. Eftir nokkura ára faraldursblús langar þeim að skapa skemmtilegan og aðgengilegan vettvang fyrir samfélag hinsegin karla og kvára til að koma saman. Loki mun standa fyrir viðburðum af ýmsu tagi, svo sem barsvari, bjórsmökkun, göngum og ýmis konar skemmtikvöldum.

Fyrsti viðburður Loka verður Bálhýrt Pub-Quiz þann 10. mars á Miami bar, Hverfisgötu. Hýrlingarnir og fjölmiðlamennirnir Felix Bergsson and Siggi Gunnars munu stýra bálhýru barsvari.

Eins og nafnið gefur til kynna verða spurningarnar í hýrari endanum og vinningarnir líka. Spurningarnar á þessu kvöldi verða á íslensku en í framhaldinu er stefnt að viðburðum sem henta fleirum.

Húsið opnar kl. 19.00. Barsvar hefst kl. 20:00. Frítt inn.

Við höfðum samband við Loka og spjölluðum við Guðmund og Unnstein um aðdragandann. 

„Já, þetta æxlaðist nú bara þannig að Guðmundur sendi inn könnun á Hommaspjallið og Hinseginspjallið þar sem hann var að spyrja um hvort það væri rými fyrir fleiri hinseginvæna skemmtistað eða slíku. Ég hafði verið að hugsa um og velta fyrir mér af hverju við hinsegin strákarnir og kynsegin fólk værum ekki búin að henda í viðburði eins og Hinsegin ladies nights (núna Vera - hinseginfélag kvenna og kvára).“

„Nema hvað ég setti mig í samband við Gumma og eftir smá aðdraganda hittumst við og fórum að skoða hvort við gætum ekki sett af stað slíkan félagsskap. Svo komu eiginmennirnir okkar inní þetta og Villi Vill, Ásgeir Helgi og Garðar og þannig varð hópurinn til.“

„Við viljum bjóða upp á svipaðan vettvang og Vera hefur verið að bjóða upp á. Viljum gjarnan sjá fólk hittast fyrir utan djammið, þar sem hugsanlega er hægt að hittast, spjalla, kynnast nýju fólki og hugsanlega búa til meira hinsegin samfélag.“

„Við erum búnir að plana þennan viðburð 10. mars og ætlum svo að stefna að því að halda næsta viðburð seinni partinn í apríl. Við viljum gjarnan reyna að bjóða uppá viðburði a.m.k. á tveggja mánaða fresti. En þetta er líka undir því komið að fólk mæti og komi með okkur í þetta ferðalag.“

Sp.:  Þannig að þetta er svona óformlegur grasrótarfélagsskapur ennþá?

„Já absalútt. Þess vegna  köllum við þetta félagsskap, þar sem þetta er bara mjög óformlegt og viðburða miðað frekar en félag með stjórn og slíku. Svo vitum við ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Við viljum fara af stað með þetta og sjá hvernig viðbrögðin verða. Vonandi er mikil stemning fyrir því að nýta svona vettvang. Það er svo mikilvægt í okkar huga að fólk hafi tækifæri til að kynnast og tilheyra hinsegin fólki og samfélaginu. Það er náttúrulega dásamlegt að hittast á Hinsegin dögum og á djamminu, en við höfum það á tilfinningunni að það sé rými fyrir fleiri tækifæri til að vera hinsegin saman.“

Sp.: Er eitthvað samstarf við aðra gay hópa eins og Humpday Social eða Reykjavik Bears, eða svona verið að stilla saman strengi?

„Við erum klárlega mjög opnir fyrir því og viljum auðvitað hafa samspilið gott á milli þeirra hópa og viðburða sem eru í gangi nú þegar. Það er einmitt svo mikilvægt að fólk geti fundið eitthvað sem hver og einn einstaklingur tengir við. Við ríðum á vaðið núna með þessum viðburði og tökum svo skrefin áfram eftir hann. Það er klárlega rými fyrir allskonar fyrir öll og eftir tveggja ára samkomum takmarkanir teljum við að fólki þyrsti í að geta tekið upp þráðinn, hitt annað fólk og átt góðar kvöldstundir saman.“

Fylgist með starfsemi Loka á Facebook síðunni: LOKI- félagsskapur hinsegin karla og kvára og nánari upplýsingar um viðburðinn eru á Facebook viðburðinum Bálhýrt Pub-Quiz

Myndir aðsendar.

 

 

 

Nýlegar greinar