Lifrarbólga B

Hvað er lifrarbólga B?

Lifrarbólga B (hepatitis B) þýðir að það sé bólga í lifrinni sem lifrarbólguveira B veldur, en hún er ein af mörgum veirum sem getur orsakað lifrarbólgu. Fyrstu einkenni sýkingarinnar eru vegna bráðrar lifrarbólgu B, sem gengur yfir, en ekki fá allir einkenni. Hluti smitaðra fær viðvarandi lifrarbólgu, einkum ef smitið verður á barnsaldri.

 

Hvernig smitast lifrarbólga B?

Veiran finnst í líkamsvessum eins og blóði, sæði og leggangavökva/slími. Við samfarir smitast veiran með þessum líkamsvessum á kynfæri, í munn og endaþarm.

 

Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?

Rétt notkun smokksins getur komið í veg fyrir smit. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.

 

Er lifrarbólga B hættuleg?

Bráð lifrarbólga getur í einstaka tilfellum leitt til dauða. Þegar lifrarbólga B er viðvarandi getur hún verið alvarleg og lífshættuleg. Þá getur hún þróast yfir í skorpulifur og lifrarkrabbamein.

 

Hver eru einkenni lifrarbólgu B?

Bráð lifrarbólga veldur oft kviðverkjum og gulri húð (gulu). Ógleði, hiti og slappleiki eru líka einkennandi ásamt rauðbrúnum lit á þvaginu og ljósum hægðum. Sumir fá einnig liðverki. Lifrarbólga getur líka verið alveg einkennalaus.

 

Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?

Einkenni bráðrar lifrarbólgu koma oftast í ljós tveimur til þremur mánuðum eftir smit.

 

Hvernig er hægt að greina lifrarbólgu B?

Sjúkdómurinn er greindur með blóðprufu sem hægt er að taka hjá öllum læknum og liggja niðurstöðurnar fyrir innan nokkurra daga.

 

Er hægt að fá meðferð við lifrarbólgu B?

Meðferð er til við bráðri lifrarbólgu B en er aðeins beitt í alvarlegri tilvikum. Þeir sem smitast á fullorðinsaldri fá reyndar einungis bráða lifrarbólgu í eitt skipti og batnar síðan. Ef lifrarbólgan þróast yfir í viðvarandi lifrarbólgu er í vissum tilfellum hægt að gefa meðferð gegn henni. Hægt er að fá fyrirbyggjandi meðferð með bólusetningu og getur fólk, sem gæti verið í smit- hættu en er ekki smitað, látið bólusetja sig.

Kynsjúkdómar. Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir. 2017

Úr upplýsingabækling Landlæknis um kynsjúkdóma, smitleiðir þeirra, einkenni, meðferð og forvarnir 2017.

PDF bæklingur