Afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu í Ástralíu um það hvort lögleiða eigi hjónaband samkynhneigðra liggur nú fyrir. 61,6% kusu JÁ. Ljóst þykir að þessar ótvíræðu niðurstöður séu sögulegar í landinu og var kosningabaráttan heldur hrottafengin á köflum. Forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi að fólkið hefði gefið ótvíræð skilaboð og að þingið verði nú að verða við óskum þess og fylgja lögunum eftir.
“Þeir sögðu já við sanngirni, já við skuldbindingu, já við ást. Og nú er komið að okkur á þinginu að halda áfram með starfið sem ástralska fólkið bað okkur um að sinna og ljúka þessu,“ sagði Turnbull og áréttaði að lögin verði komin í gildi fyrir jólin. Þetta segir í frétt The Guardian.
Kjarninn náði tali af ástralska uppistandaranum Jonathan Duffy og ræddi þessa sögulegu útkomu.
Niðurstöðurnar skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélag samkynhneigðra í Ástralíu og segir Jono að þær séu skýr skilaboð um óskir fólks varðandi hjónabönd samkynhneigðra. Stjórnmálamenn hafi hér áður fyrr notað vilja almennings sem afsökun fyrir því að gera engar breytingar þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi sagt aðra sögu. Hann bendir á að þó ástralska þjóðin sé ekki trúhneigð þá hafi trú verið dregin inn í umræðuna.
„Það sem er mikilvægt fyrir samkynhneigða í Ástralíu nú um mundir er að fordómar munu líklegast minnka til muna. Þegar ríki mismunar hópi fólks þá er ekki við öðru að búast en að borgarar þess geri það líka,“ segir hann og bætir við að í nánast öllum þeim löndum sem hjónabönd samkynhneigðra hafi verið lögleidd hafi fordómar minnkað.
„Vegna jafnréttis til hjónabands munu heilu kynslóðirnar vaxa úr grasi vitandi það að samkynhneigðir séu venjulegt fólk. Eftir smá tíma verður þetta ekki einu sinni eitthvað sem fólk pælir í, heldur bara hluti af lífinu,“ segir hann.
Lesið umfjöllun Kjarnans hér: Ástralir segja já við hjónaböndum samkynhneigðra
Mynd frá kröfugöngu fyrir kosningarnar. japantimes.co.jp