Eftir Einar Þór Jónsson: „Yfirskrift alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember í ár er „Know your status“ sem felur í sér hvatningu til allra að fara í HIV-próf.“
Við fögnum 30 ára afmæli HIV Ísland samtakanna þessa dagana. Jafnframt eru 100 ár liðin frá því að spænska veikin náði hámarki hér í Reykjavík með miklu mannfalli og sorg, en þessi hörmungaratburður dró einnig fram það góða í fólki, samhjálp og ást. Hugsunin um hvernig HIV verður minnst á 100 ára tímamótunum er blendin. HIV-jákvæðir hafa búið við ótta, mismunun, fordóma og útskúfun í gegnum árin. Gæti það verið vegna þess hve dugleg við vorum og erum að skilgreina og flokka HIV-jákvæða í áhættuhópa og eftir áhættuhegðun; hommana, sprautufíklana, innflytjendurna og vændisfólkið? Það er tími til kominn að afglæpavæða HIV-sjúkdóminn um víða veröld og skila skömm HIV-smitaðra.
Sprenging hefur orðið meðal HIV-nýgreindra hérlendis síðustu þrjú árin. Metið var slegið á síðasta ári með 28 greinda og verður aftur nú en um 35 hafa greinst það sem af er ári. Við hjá HIV-samtökunum erum mjög slegin yfir þessu.
Margir telja að það skekki myndina að þeir sem koma að utan og eru með svonefnd eldri smit flokkist til nýgreindra á Íslandi. Um 20 HIV nýskráðra í ár eru með „þekkt eldra smit“. Gagnrýnt hefur verið hvernig tölur og greiningar eru birtar almenningi í fjölmiðlum og að það geti alið á fordómum gegn ákveðnum hópum.
Yfirskrift alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember í ár er „Know your status“ sem felur í sér hvatningu til allra að fara í HIV-próf. Nauðsynlegt er að geta komist í hraðgreiningarpróf á óháðum stað í borginni og megi það verða sem fyrst. Þá komst dásamlegt baráttumál í höfn í sumar þegar yfirvöld hófu að greiða að fullu fyrir samheitalyf Truvada til að fyrirbyggja ný HIV-smit meðal karla sem stunda kynlíf sín á milli. Um 90 karlar hafa nú fengið forvarnalyfið.
Á 30 ára afmæli HIV Ísland horfum við með bjartsýnisaugum fram á veginn, enda er hér hugað að mannréttindum og lífsskilyrðin með besta móti. Við erum þakklát fyrir allan stuðninginn og minnumst fallinna félaga með virðingu. Við gleðjumst yfir því að veruleiki og framtíðarhorfur HIV-jákvæðra eru allt aðrar og betri í dag en fyrir þremur áratugum.
Eftir Einar Þór Jónsson
Höfundur er framkvæmdastjóri HIV Ísland.
Birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2018.