Strákar úr skuggunum eftir Böðvar Björnsson

Strákar úr skuggunum eftir Böðvar Björnsson

Birtandi bókaforlag hefur göngu sína með bókinni Strákar úr skuggunum eftir Böðvar Björnsson þar sem saga gay hreyfingarinnar á Íslandi í fjörutíu ár er rakin í samhengi, á einfaldan hátt og á mannamáli.

Slík saga hafði hvergi verið skráð og full þörf var á að bæta úr því. Einnig er von til þess að bókin auki skilning á baráttu samkynhneigðra í gegnum tíðina og stuðli að því að menn nái áttum og fótfestu í umræðu, sem mörgum þykir vera á villigötum.  

Höfundur sækir efnivið í aðgengilegar heimildir og minningar þeirra sem lifðu þessa tíma — og tóku virkan þátt í baráttunni. Í bókinni er gerð grein fyrir félagslegri þróun og hugmyndum sem vöktu menn til vitundar. Greint er frá upphafi baráttunnar, hvar og hvernig menn kynntust, hvernig fjölgaði í hópnum og þegar hugmyndin um félag samkynhneigðra varð til. Síðan er rakin viðburðarík og spennandi saga sigra og áfalla á langri leið samkynhneigðra til að öðlast sjálfsmynd, sjálfstraust og tilverurétt. Mikil áhersla er lögð á þátt fjöldans og samhengið í sögu gay hreyfingarinnar. Afl gay hreyfingarinnar var fjöldinn, ekki einstakir menn. Nöfn einstaklinga, sem koma við sögu, eru því tilgreind í viðauka.

Bókin Strákar úr skuggunum fæst í öllum helstu bókabúðum og hér á vefsíðu útgáfanda birtandi.is.

 

 

Viðburðarík saga gay hreyfingarinnar á Íslandi er rakin í samhengi allt frá grasrótarstarfi til fjöldahreyfingar. Efniviður er sóttur í aðgengilegar heimildir og minningar þeirra sem lifðu þessa tíma og tóku þátt í baráttunni. Sjónum er fyrst og fremst beint að fólkinu sjálfu sem vaknaði til vitundar og skapaði hreyfinguna.

 

Sýnishorn úr bókinni
 

Til lesandans

Saga gay hreyfingarinnar á Íslandi allt frá þögn og þjakandi aðstæðum til frelsis og sjálfstæðis er ævintýri líkust.

Frá fyrstu félagasamtökum til sigurs fjöldahreyfingar liðu fjörutíu ár, næstum hálf öld. Hér er atburðarásin rakin í stórum dráttum í samhengi, einkum frá sjónarhorni homma, sem höfundur þekkir best, og áhersla er lögð á það hvernig barátta gay fólks fór fram í daglega lífinu. Sagt er frá ýmsu í þessari löngu sögu sem hefur ekki komið fram áður og hvernig hreyfingin óx og dafnaði með samstöðu og samheldni þrátt fyrir skelfilegar hremmingar. Að lokum er því lýst hvernig önnur hreyfing yfirtók félag gay hreyfingarinnar, breytti félagslegri hreyfingu gay fólks í félag pólitískra fræða og innrætingar og gjörbreytti tilgangi félagsins.

Frásögnin er byggð á minningum manna sem lifðu þessa tíma og aðgengilegum heimildum. Sérstakar þakkir fær Veturliði Guðnason. Aðstoð hans var ómetanlegt framlag til bókarinnar.

 

Nýir menningarstraumar upp úr 1970

Á áttunda áratug síðustu aldar var almenn umræða um samfélagsmál með allt öðru sniði en nú á dögum. Íslensk tunga átti fá orð í félagsvísindum og orð eins og samkynhneigð, gagnkynhneigð og sjálfsmynd voru ekki til. Þá voru aðeins til skammaryrði og ónefni um homma og sjálft orðið hommi var harðbannað og fékkst hvergi birt í blöðum eða útvarpi. Opinberlega voru engir hommar til á Íslandi og almenn umræða um málefni þeirra var útilokuð.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð höfðu samtök samkynhneigðra verið stofnuð næstum þrjátíu árum fyrr og rót þeirra allra var í skemmtanalífinu. Þegar nasistar hernámu Danmörku í seinna stríði lokuðu þeir öllum hommabörum en þeir spruttu upp aftur strax eftir stríð. Þar náðu frumherjar í réttindabaráttunni sambandi við aðra homma og þangað sóttu þeir félaga í fyrstu samtök samkynhneigðra á Norðurlöndum sem voru ein þau fyrstu í heiminum. Fyrstu samtökin urðu til í Kaupmannahöfn 1948 og félagar í dönsku samtökunum stofnuðu síðan deildir í Osló og Stokkhólmi.

 

Ferðir í ævintýraleit

Á níunda áratugnum varð smám saman auðveldara að komast til útlanda og menn sóttu sem fyrr til landa sem voru komin lengra í frelsisátt.

Í Danmörku og Hollandi hafði gay baráttan náð mestum árangri og vestanhafs heilluðu stórborgirnar New York og San Francisco.

Sumir fluttust alfarið úr landi, fundu sér lífsförunaut og vegnaði vel. Aðrir fóru utan í ævintýraleit og kynntust alvöru gay lífi af eigin raun. Þá kom sér vel að fá leiðsögn og gistingu hjá löndum sem bjuggu á staðnum og þekktu til. Gestrisin heimili í New York og Kaupmannahöfn urðu þannig eins konar gay sendiráð. Strákarnir frá Íslandi kynntust gay félagslífi í mörgum myndum. Það gat verið á gay kaffihúsum á daginn eða á gay börum og klúbbum á kvöldin og jafnvel í almenningsgörðum þegar leið á nóttina.

Hvernig karlmaður reynir við karlmann vafðist fyrir mörgum en með reynslunni varð það eðlilegt og sjálfsagt mál. Slík ferðalög og kynni við gay líf í útlöndum urðu mörgum mikil reynsla og óhætt að segja að menn færu utan í svarthvítu og kæmu heim í lit.

 

Frelsisbaráttan gleymd

Félagarnir sem hófu baráttuna mundu vel þá tíma þegar hommar voru álitnir níðingar og úrhrök. Alnæmi ógnaði þeim í fimmtán ár og lagði marga að velli.

Enginn hristir slíka lífsreynslu auðveldlega af sér. Nú voru þeir komnir á efri ár og raðir þeirra farnar að þynnast. Þeir höfðu enn baráttuviljann en þurftu að sinna eigin málum og höfðu ekki lengur krafta aflögu fyrir gay hreyfinguna. Hommar og lesbíur sem höfðu helgað gay hreyfingunni krafta sína í þrjátíu ár þóttust skila góðu búi og treystu yngra fólki fullkomlega til að taka við Samtökunum.

Um og eftir 2010 komu félagar í Samtökin sem þekktu bara full réttindi, virðingu og velgengni samkynhneigðra á nýrri öld og voru móttækilegir fyrir róttækri orðræðu eftir efnahagshrun og búsáhaldabyltingu. Nýju félagarnir þekktu ekki sögu frelsisbaráttunnar, áttuðu sig ekki á hvernig gay hreyfingin varð til og litu á Samtökin sem opinbera stofnun sem væri hluti af kerfinu. Þetta fólk kom að dúkuðu borði og skorti skilning á mikilvægi skemmtanalífs, félagslífs og menningarstarfs til að standa vörð um réttindi og menningu gay fólks.

Tengdar greinar