Skammarþríhyrningurinn | Borgarleikhúsið

Skammarþríhyrningurinn | Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið sýnir núna verkið Skammarþríhyrningurinn sem gerist í fjarlægri framtíð. Menningarstríðinu er lokið: kynrænt sjálfræði, hinsegin mannréttindi og kvenfrelsi heyra sögunni til. Bakslagið hefur náð endatakmarki sínu.

Í þessum ímyndaða hliðarveruleika við daufari enda regnbogans stendur hópur sérfræðinga fyrir glæstri opnun á sögusafni um hina myrku tíma pólitíska rétttrúnaðarins sem við nú lifum, En verkefni þeirra er afar flókið því bækurnar hafa allar verið brenndar, heimildirnar eru horfnar og mannlegur fjölbreytileiki utan strangrar tvíhyggju hefur verið bannaður og ritskoðaður úr sögunni.

Við fylgjumst með þessum hópi fólks reyna að púsla saman mynd af mannréttindaparadísinni sem eitt sinn var á Íslandi og svara aðkallandi spurningum. Hvað í ósköpunum var Pride? Hvernig bjargaði J.K Rowling kvennaklósettinu frá alþjóðlegum nauðgarasamtökum? Hverskonar te drukku svokallaðar dragdrottningar? Hvar fór innræting barna fram? Hver var þessi Hán?

Framleiðendurnir vara sérstaklega við viðkvæmu innihaldi og áreiti sem áhorfendur geta upplifað og að auki er beint á að sýningin inniheldur trans hugmyndafræði, karl í kjól, pólitískan réttrúnað, hinsegin fræðslu, tölfræði, kommúnisma, kapítalisma, lesbíur, guðlast, listamannalaun, Ríkissjóð, hatursorðræðu- og glæpi, inngildingu, líffræði, rangkynjun, gremjufræði, innflutta orðræðu, fötlunarfordóma, kynjafræði, rasisma, veganisma, fornöfn, nekt, blótsyrði, kynferðislega áreitni, forréttindi, hvít börn, gender gremlensku, hinsegin fordóma, stríð, innrætingu, kyngerð börn, hryðjuverk, nauðgunarmenningu, Bandaríkin, #metoo, nýyrði, regnbogavarning, bleikþvott, dyggðaskreytingar, pólitíska skautun, CPTSD, dýraníð, þungunarrof, kynusla, kynrænt sjálfræði, spítalasögur, falsfréttir, gervifallus, drengjaorðræðu, tvíhyggju, hommavæðingu, samkynja samneyti, TERF, jaðarmenningu, jaðarsetningu, hlutgervingu kvenna, slaufun, ritskoðun, tjáningarfrelsi, kyntjáningarfrelsi, enskuslettur, dönskuslettur, eitraða karlmennska, eitraða kvenlægni og lagið Umvafin englum.

Leikhópurinn Stertabenda var stofnaður 2016 og hefur þróað sérstætt sviðstungumál Camp aðferða og hinsegin fagurfræði þar sem húmor og gáski ráða för í vægðarlausri krufningu á samtímanum. Fyrri verk hópsins eru Stertabenda (2016), Insomnia (2018) og Góðan daginn, faggi (2021).

Verkefnið er styrkt af Sviðlistasjóði og Listamannalaunum.

Framleitt af Stertabendu í samstarfi við MurMur Productions og Borgarleikhúsið.

 

Nánari upplýsingar um sýninguna og miða á sýninguna eru á vef Borgarleikhússins:  Skammarþríhyrningurinn 

 

Umræður um sýninguna á Rauða borðinu

Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og leikararnir Bjarni Snæbjörnsson, Árni Pétur Guðjónsson og Kristrún Kolbrúnardóttir segja Gunnari Smára frá Skamm­ar­þrí­hyrn­ing­num kómískum pólitískum leik um vók og anti-vók sem þau hafa samið ásamt öðrum og sýndur er í Borgarleikhúsinu.

 

Innslag á Sýn / Vísi

Á Sýn var innslag fyrir frumsýninguna í Borgarleikhúsinu 4. október 2025.

 

Gagnrýni

Heimildin fjallaði um sýninguna og gaf henni fjórar stjörnur af fimm. 
Niðurstaða: „Stuðandi, sönn og sár sýning sem skilur eftir fjölmargar spurningar."

Sjá nánar hér: https://heimildin.is/grein/25327/ef-thu-serd-eitthvad-segdu-eitthvad/

 

Vísir.is fjallaði einnig um sýninguna og gaf henni þrjár stjörnur af fimm.

Niðurstaða: „Skammarþríhyrningurinn er sýning þar sem leikhópurinn stígur út fyrir þægindarammann. Eflaust valdeflandi fyrir hina ýmsa minnihlutahópa en líður fyrir það hversu flókin hún er og langdregin."

Sjá nánar hér: https://www.visir.is/g/20252785606d/skomminni-skilad

Tengdar greinar