Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Íslands, gerir upp fyrstu sextíu ár ævi sinnar í bókinni Berskjaldaður – Barátta Einars Þórs fyrir lífi og ást. „Já, lífið snýst um ástina,“ segir Einar og hlær. Ástin í lífi Einars hefur þó verið þyrnum stráð eins og hjá svo mörgum sem smituðust af HIV veirunni áður en lyf við henni komu á markað og þróuðust í þau sem nú fást.
Þótt ævi Einars sé í forgrunni segir frá ævi svo margra sem börðust upp á líf og dauða vegna veirunnar. Eins og segir í bókinni: „Ungir menn alls staðar af landinu deyja, Ísafirði, Hólmavík, Blönduósi, Skagaströnd, Höfn, Vestmannaeyjum, Grindavík.
Í bókinni er sögð saga glímunnar við HIV á níunda og tíunda áratugnum. Dreypt á ævi Trixie, Donna, Árna Friðriks, Védísar, Laufeyjar, Sævars, Reynis og nafna hans Reynis Más, Gulla, Mumma og Bubba. Sögð saga ungra manna sem lifðu eða féllu fyrir veirunni. Sagt er frá því hvernig samkennd, einelti, talsmátinn og óttinn lék hann.
„Dauðahræðsla leikur um hópinn. Hann stendur í styrjöld. Er í miðjum bardaga. Óttinn er mikill. Margir munu deyja. Margir koma laskaðir úr stríðinu. Margir sem há þetta erfiða stríð ná sér ekki þótt lyfin komi, þótt þeir lifi af. Þeir hafa ekki aðeins háð stríð við sjúkdóminn, við dauðann, heldur einnig innri baráttu. Stríð við samfélagið og einvígi við hvern annan, hvert annað,“ segir í kafla sem fjallar um það þegar unnið var að hópefli innan HIV hópsins.
Bókina ritaði Gunnhildur Arna Gunnarsdóttur.
Sjá nánar grein sem birtist í Rauða borðanum, árlegu tímariti HIV-Ísland. „Saga okkar sem börðumst við alnæmi“
Einar og Gunnhildur ræddu bókina og lásu úr henni á kynngu hjá Samtökunum '78 sem var streymt beint á Facebook.
Berskjaldaður með Einari Þór Jónssyni og Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur: Berskjaldaður
„Hver myndi ráða homma?“
Einar var einnig í viðtali í Morgunblaðinu: „Hver myndi ráða homma?“
„Talandi um líf og dauða þá var kveðinn upp „dauðadómur“ yfir Einari Þór sjálfum eitt föstudagssíðdegi árið 1987. Hann var þá vestur í Bolungarvík að leysa af í verslun föður síns þegar síminn hringdi. Það var Kristján Erlendsson smitsjúkdómalæknir. „Um fátt var meira rætt en HIV og alnæmi á þessum tíma og þótt ég þekkti engan smitaðan, sem ég vissi af, þá ákvað ég að fara í próf. Það tók um tvær vikur að fá niðurstöðu og ég var ekkert að velta þessu fyrir mér þegar Kristján hringdi. Hann sagði mér ekki beint út að ég væri HIV-jákvæður, heldur að hann vildi fá mig strax suður í annað próf og að ég mætti alls ekki stunda kynlíf í millitíðinni. Ekki var hægt að misskilja hvað það þýddi. Ég vissi að ég væri með HIV. Eftir að hafa fengið þennan dauðadóm gekk ég eins og í leiðslu fram í búðina, sem var full af fólki, og sagði hátt og snjallt: Næsti!““
Neituðu að kryfja lík alnæmissjúklinga
„Neituðu að kryfja lík alnæmissjúklinga“ var yfirskrift umfjöllunar um bókina á Kjarnanum:
„Ástandið var svo óhuggulegt í fyrstu. Lokaðar kistur, lík í plastpoka, engin kistulagning.“
Þannig lýsir hjúkrunarfræðingur stöðunni á smitsjúkdómadeild Borgarspítalans á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda eftir að HIV-faraldurinn braust út. Lítið var í fyrstu vitað um sjúkdóminn sem HIV-veiran olli. Það var mikil hræðsla og það voru miklir fordómar. Og sjúklingarnir upplifðu skömm.
Lesið umfjöllunina hér: kjarninn.is