„Mamma sagði mér að hún væri lesbía“

„Mamma sagði mér að hún væri lesbía“

Lilja Sigurðardóttir var að senda frá sér sína áttundu glæpasögu. Lilja og konan hennar hafa bráðum verið saman í þrjátíu ár. Þær halda hressar hænur að heimili sínu við Elliðavatn.

Hún var nítján ára þegar þær byrjuðu saman en Magga Pála 34 ára. Lilja hafði þó haft augastað á henni mun lengur. „Það er eiginlega smá vandræðalegt að segja frá því hvernig við kynntumst. Ég sá hana nefnilega fyrst í vinnunni hjá mömmu. Þær unnu í sömu byggingu og voru saman í kaffitímum. Ég var að heimsækja mömmu þegar ég sá Möggu Pálu fyrst. Ég var kornung en hún fullorðin kona enda fimmtán árum eldri en ég. Mér fannst hún strax rosalega spennandi, sérstaklega eftir að mamma sagði mér að hún væri lesbía. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem við hittumst á skemmtistað og fórum í framhaldinu að vera saman.“

Vissirðu á þeim tíma sem þú sást hana fyrst að þú værir lesbía?

„Ég vissi að ég var eitthvað öðruvísi. Það tók mig smá tíma að átta mig á þessu. Ég kom samt frekar ung úr felum, ef svo má að orði komast. Þegar við kynntumst fannst henni ég allt of ung fyrir sig og það gekk svolítið erfiðlega fyrir mig að sannfæra hana um að ég væri sú eina rétta. En það hafðist á endanum,“ segir Lilja brosandi.

Hún segir foreldra sína hafa tekið því merkilega vel að hún væri lesbía og byrjuð með sér eldri konu. „Ég held að þau hafi fyrst og fremst haft áhyggjur, og ég skil það eftir á að hyggja. Samfélagsumræðan vann á móti okkur, sem og þetta algjöra réttindaleysi. Ég held að flestir foreldrar á þessum tíma hafi bara haft áhyggjur af því að barnið þeirra gæti ekki orðið hamingjusamt og að lífið yrði ofboðslega erfitt. Auðvitað var það kannski erfiðara en hjá mörgum en líf allra er erfitt á einhvern hátt. Síðan kynntust þau Möggu Pálu, sáu hvað hún er frábær og urðu glöð fyrir mína hönd að eiga hamingjuríkt einkalíf.“

Hér má lesa í heild sinni forsíðuviðtal Erlu Hlynsdóttir við Lilju sem birtist í helgarblaði DV 11. desember.

Myndir/Ernir/dv.is