Fjaðrafok | Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Fjaðrafok | Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Í nær tvo áratugi hefur Gleðigangan hríslast síðsumars um miðborgina með látum sínum og litum. Forsagan spannar tæpa tvo áratugi þar samkynhneigðir börðust fyrir réttindum sínum með ýmsum aðferðum meðal annars með því að auka sýnileika homma og lesbía og síðar transfólks á götum úti. Fyrstu gleðisporin voru tekin frá Hlemmi árið 2000, nú tuttugu árum síðar er við hæfi að líta um öxl. Fjaðrafok fjallar um sýnileikann, saumsporin, skipulagninguna, þróun og þroska Gleðigöngunnar - Hinsegin daga og áhrifin sem hún hafði á okkur öll. Dagskrárgerð: Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Framleitt af: Krumma films ehf.

 

Fjaðrafok from Krumma films.

 

Fyrstu gleðisporin

Hrafnhildur Gunnarsdóttir ræddi við Veru Illugadóttur á Morgunvakt Rásar 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér: Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000.

 

 

„Þessir strákar dóu ekki til einskis“

Páll Óskar rifjar þar upp fyrstu gleðigönguna þegar hann sigldi niður Laugaveginn í trukki með félögum sínum í Leðurklúbbnum, ákveðinn í að gleðjast og vera stoltur þó það yrði líklega fámennt í bænum. „Ég mun aldrei gleyma þessari göngu,“ segir hann. „Mér var skítsama þótt það væru tvö þúsund manns, bara nokkur sandkorn að fylgjast með. Ég vildi hreinlega þakka fyrir mig, þakka fyrir að við værum allavega komin þetta langt.“

Þegar gangan er að fara af stað verður Páli og öðrum þó ljóst að það eru ekki nokkur sandkorn á Laugaveginum. Við göngufólkinu blasti nefnilega fjöldi áhorfenda, um tólf þúsund manns, og bros úr hverju andliti. Þau sem gengu trúðu fæst sínum eigin augum. „Eftir allt sem á undan var gengið,“ segir Páll Óskar sem á þeirri stundu hugsaði sterkt til þeirra vina sinna sem látist höfðu í alnæmisfaraldrinum sem geisaði árin 1983-1995 á Íslandi og þá þöggun sem ríkti um sjúkdóminn og kynhneigðina á þeim tíma. Þeirri sorgarsögu eru gerð ítarleg skil í þættinum Plágan sem var hluti af Svona fólk-seríunni eftir Hrafnhildi.

„Mér varð hugsað til þeirra sem höfðu dáið og voru ekki á svæðinu. Það er akkúrat þá sem ég dreg djúpt andann og fann: Þessir strákar dóu ekki til einskis,“ segir Páll.

ruv.is

Tengdar greinar

Nýlegar greinar