Góðan daginn, faggi!

Góðan daginn, faggi!

Nú eru að hefjast aftur sýningar á Góðan daginn, faggi í Þjóðleikhúskjallaranum og verður sýningin 20. mars táknmálstúlkuð. „Góðan daginn, faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasamann leiðangur um innra líf sitt og fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra. Hlátur, grátur og glæný söngleikjatónlist sem lætur enga ósnortna“ eins og segir í kynningartexta.

Bjarni Snæbjörnsson flutti hugvekju fyrir alþingismenn fyrir þingsetningu 2022 á athöfn Siðmenntar og blandaði inn í hugvekjuna söngatriðum úr sýningu sinni "Góðan daginn faggi" svo að úr varð frábær skemmtun með mikilvægum boðskap sem á erindi við alla, ekki síst kjörna þingfulltrúa þjóðarinnar.

Sjá upptöku fyrir ofan og hluta af erindinu hér fyrir neðan:

En þarf eitthvað að tala um hinsegin málefni á Íslandi? Við erum komin svo langt! Ég meina umhverfisráðherra í síðustu ríkisstjórn er hommi. Að vera trans er ekki lengur skilgreint sem geðsjúkdómur. Gleðigangan á hinsegin dögum eru fjölsóttasti viðburður Íslands. Og núna á föstudaginn síðasta skartaði Harpa alþjóðlega trans fánanum í tilefni af minningardegi trans einstaklinga..

Og ég tala nú ekki um þegar við berum okkur saman við önnur ríki. Á þessu ári hafa t.d. morð á kynsegin fólki aldrei verið fleiri í Bandaríkjunum frá 2013 (en þá var fyrst byrjað að halda utan um slíkar tölur). Í Bretlandi á sér stað mikil pólarísering þegar kemur að réttindum transfólks og hatursáróðurinn sem vellur þar upp á yfirborðið er ótrúlegur. Í Póllandi, Rússlandi og Ungverjalandi hefur orðið mikið bakslag í hinsegin réttindum síðustu árin þar sem öfgahægriflokkar hafa náð nokkurri fótfestu.

Í stuttu máli er mikil afturför er að eiga sér stað víða um heim þar sem hatursglæpum fer fjölgandi og fasísk öfl sem eru á móti fjölbreytileikanum ná völdum. Fólk sem rígheldur í aldagamlar hefðir og rótgrónar hugmyndir um kynjatvíhyggju. Hinsegin fólk er látið líta út fyrir að vera ekki mennskt. Að vera ekki manneskjur með tilfinningar, vonir og þrár. Og við þekkjum of mörg dæmi úr sögunni til að vita hvert það getur leitt að fólk er gert ómennskt: Þegar búið er að grafa undan mennskunni með hatursfullri orðræðu, þá er næsta skref líkamlegt ofbeldi.

En hvað er ég nú að væla um þetta allt saman? Þetta er ekki hluti af mínum veruleika sem hommi á Íslandi! Ég er sannarlega 43 ára forréttindapési sem hef öll lagaleg réttindi á við gagnkynhneigðan bróður minn. Ég má gifta mig, eins og bróðir minn. og ég má skilja eins og hann, Ég má ættleiða barn... ef ég vil. Ég gat keypt mér íbúð ásamt kærastanum mínum og ég við gátum samskattað okkur. Í stórfjölskyldunni minni er ég samþykktur nákvæmlega eins og ég er og í vinnunni minni sem leikari í Þjóðleikhúsinu er mér og mínum hinseginleika fagnað. Í raun er mér svo mikið fagnað að ég fékk þann heiður að búa til söngleik upp úr sögu minni og setja hann á svið í Þjóðleikhúskjallaranum ásamt öðru hinsegin listafólki. Þar voru með mér Axel Ingi Árnason tónskáld tónskáld og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri.

Upprunaleg hugmynd með þessum einleik sem ber nafnið “Góðan daginn faggi” var að búa til tussugott show þar sem ég sting á kýlum og er rosa fyndinn og syng nýja, fyndna söngleikjatónlist eftir Axel Inga... Ég hef alltaf skrifað dagbækur um mig og lífið mitt og þær áttu að vera okkar helsta heimild til að skoða fyndinn ungling og fjalla um hvað það er stundum fáránlegt, flókið og fyndið að vera manneskja. Og við ætluðum bara að hafa soldið gaman!

Þannig að eðlilega kom það mér töluvert á óvart þegar ég fékk taugaáfall í miðju sköpunarferlinu.

Því við að að lesa allar dagbækurnar og bréf sem ég hafði skrifað til ættingja og vina, þá blasti við mér ungur maður sem var mjög týndur og leitandi. Inní honum bjó stórt svöðusár sem ég hafði einfaldlega afneitað og gleymt.

Ekki það að eitthvað hafi komið fyrir mig. Síður en svo, ég er alinn upp í fallegum firði á Vestfjörðum sem heitir Tálknafjörður og fékk kærleiksríkt og dýnamískt uppeldi. Æskan mín var full af vinum, íþróttum, leik og ævintýrum í náttúrunni og fjallasal. Skemmtileg ferðalög með fjölskyldunni til útlanda. Sundmót út um allt land á vegum UMFÍ og svo fór ég í söng- og leiklistarnám hér í borginni og hef unnið við að skapa list í 15 ár núna og það gengur bara rosalega vel. Ég meina ég er búinn að vera leikari við Þjóðleikhúsið í næstum fjögur ár!

Á yfirborðinu lítur sagan svona út, en raunverulega sagan mín fjallar frekar um hvernig samfélagið innrætti hjá mér, frekar venjulegum íþróttastrák úr fiskiþorpi á Vestfjörðum, mikla skömm sjálfshatur af því að ég er hommi. Skömm, hatur og fordómar sem nánast buguðu mig og brutu að það hefur enn mikil áhrif á mig í dag, þó ég sé búinn að vera út úr skápnum í um 25 ár.

Eftir mikla rannsóknarvinnu og óteljandi tíma hjá sálfræðingum, þerapistum og með alls konar sjálfsheilandi aðferðum uppgötvaði ég að stærsta tráma lífs míns var einfaldlega það að mér fannst ég aldrei tilheyra samfélaginu mínu, fjölskyldu minni eða landinu mínu. Það var enginn eins og ég þegar ég var að alast upp, ég var skrítinn kynvillingur og mér leið eins og ég væri “villa”. Og ég tengdi ekkert við einu fyrirmyndirnar sem mér voru boðnar upp á í sjónvarpi og listum. Þar voru bara gagnkynhneigð pör og það eina sem maður heyrði eða las um homma og lesbíur var perraskapur, útskúfun, togstreita, sjúkdómar, eyðni og erfiðleikar. Eða, að að þeim væri gert óviðeigandi grín og á milli alls þessa ríkti bara alger þögn. Ég var niðurlægður með orðum eins og stelpustrákur og hommi og ég margoft minntur á að það sem ég var, væri í raun skammarlegt.

Og ég lærði að öll mín sár í dag eru afleiðing af þessu linnulausa öráreiti sem ég hafði upplifað nánast alla mína æsku og unglingsár. Það er best hægt að líkja upplifun af öráreiti við mýflugubit. Eitt bit er ekkert vont, kannski bara örlítið óþægilegt í einn eða tvo daga. En þegar öll bitin safnast saman þá verður þetta að heljarstóru sári. Þúsundir mýflugnabita í einu. Og þetta er sár sem situr eftir í taugakerfinu okkar og það er mjög erfitt, tímafrekt og dýrt að heila það. Og börn og ungmenni eru sérstaklega móttækileg á viðkvæmum mótunarárum fyrir þessu.

En mér er að takast að heila það. Enda í mikilli forréttindastöðu að hafa aðgang að fjármagni og úrræðum og eiga magnaða stuðningsríka fjölskyldu, skilningsríkan kærasta og einstaka vini sem eru alltaf til staðar. Og forréttindi mín enda ekki þar, heldur fæ ég líka tíma á sviði í Þjóðleikhúsi okkar Íslendinga til að búa til leikverk úr þessari reynslu minni sem hinsegin einstaklingur. Og það hefur verið rosalega gefandi. Ekki síst hefur það verið gefandi að taka á móti mörgum skólahópum af hinsegin unglingum sem þrá að spegla hinseginleikann sinn í listinni: Að sjá “sig” á sviði. Og einnig hefur það verið gefandi að finna hvernig öll hin sem ekki eru hinsegin skilja hinseginleikann á nýjan hátt.

Á sama tíma hefur þetta verið eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Að hitta þennan stóra hóp af hinsegin ungmennum, hvort sem þau eru samkynhneigð, tvíkynhneigð, kynsegin, trans, intersex eða hvað sem er. Að hitta þau og horfa framan í þau með umræðum eftir sýningu. Þau eru vongóð, opin, þakklát og upp með sér að fá speglun þar sem þau hlæja að sjálfum sér. En það sem er erfiðast er að uppgötva að þau þekkja enn þessa sömu togstreitu og ég gerði: Að berjast móti straumnum í miðju fljóti eitraðrar karlmennsku og allra þeirra óskráðu reglna sem fylgir þessari óræða og útópíska normi og kynjatvíhyggju.

 

 

Umsagnir og umfjöllun

Söngleikurinn sló gegn í Þjóðleikhúskjallaranum og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Fleiri hljóðbrot úr söngleiknum má heyra í Sönglekjum samtímans á RÚV.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Bjarna Snæbjörnsson í Lestinni á Rás 1.
„Ég er faggi“ „Um nafngiftina segir Bjarni: „Ég er faggi. Þetta er orðagrín sem við vinkona mín sem er hinsegin, og ég sem er hommi, byrjuðum að grínast með fyrir mörgum árum síðan. Við köllum okkur #faggarnir og leikum okkur að því.“ Orðið segir hann að sé enn notað í neikvæðri merkingu, til dæmis á meðal barna, og það sé orðið hommi einnig. „Við erum að ná orðinu til okkar og endurforrita í hugum okkar tenginguna við þetta orð, og vonandi í huga annarra líka.“

Rætt var við Bjarna Snæbjörnsson og Axel Inga Árnason í Morgunútvarpinu á Rás 2
Semur alltaf stóra og dramatíska tónlist“  „Þeim fannst upplagt að vera með söngleikjatónlist við þessa dramatísku gamansögu. „Sem Axel Ingi gerir svo listilega vel,“ segir Bjarni. Axel skrifar tónlistina fyrir mismunandi tímabil og tilfinningar sem komu upp við ferlið.  Axel er menntað tónskáld og þrátt fyrir að hafa aldrei skrifað tónlist fyrir söngleik áður hefur hann oft fengið þá gagnrýni að verk hans séu svolítið leikræn. „Ég held að öll tónlist sem ég hef skrifað hafi verið að einhverju leyti söngleikjatónlist. Það er allt svo dramatískt og stórt og mikið,“ segir hann.  Bjarni og Axel höfðu aldrei unnið saman en þekktust í gegnum Listaháskólann og sameiginlega vinkonu sína, Grétu Kristínu. „En svo vissi ég að hann væri líka smá söngleikjahommi,“ segir Bjarni. “

„Góðan daginn faggi er ekki innantómt grín, heldur vel heppnað persónulegt heimildaleikhús sem skilur margt eftir hjá áhorfandanum.“ skrifar Snæbjörn Brynjarsson í leikhúsgagnrýni á RÚV.

 

Bjarni fékk líka viðurkenningu fyrir karlmennsku ársins fyrir að sýna mikilvægt fordæmi um jákvæða karlmennsku með því að opna á sára reynslu sína af rótgrónum heterósexisma og fordómum og veita innblástur með sjálfsævisögulegum heimildasöngleik frá Karlmennskan.is Bjarni var líka í spjalli í podcasti Karlmennskunar þar sem spjallað var um Heterosexisma

 

Myndir af Facebook síðu Þjóðleikhússins og „Bjarni Snæbjörnsson actor

Tengdar greinar

Nýlegar greinar