Einn merkasti tónlistarmaður landsins Tómas Magnús Tómasson er fallinn frá. Tómas var ákaflega vinsæll og vel virtur. Hann var 63 ára þegar hann andaðist en það var krabbamein sem lagði hann af velli. Hann lést á líknardeild Landspítalans í 23. janúar 2018. Eiginmaður Tomma var Magnús Gísli Arnarson. Vísir.is birti ítarlega samantekt á ferli Tómasar og viðbrögðum fjölda vina sem má lesa hér: Bassaleikari Íslands kveður
Í minningu Tómasar M. Tómassonar er kjörið að rifja hér upp viðtal við hann þar sem hann ræddi við Sigmund Erni um einstakan feril sinn og óvenjulega lífsleið í viðtalsþættinum Mannamál sem Hringbraut endirsýnir nú og birti líka á Facebook síðu sinni.
Þátturinn var tekinn upp um miðjan apríl á síðasta ári, litlu áður en Tómas greindist með þann erfiða sjúkdóm sem ríflega hálfu ári síðar dró hann til dauða. Í viðtalinu er Tommi í essinu sínu, enda orðlagður sögumaður á sinni tíð - og skreytir samtal þeirra Sigmundar Ernis með kostulegum bransasögum eins og honum einum var lagið. Viðtalið er einlægt, hlýtt og hispurslaust.
Aldrei fundað út af kynhneigð minni
Aldrei fundað út af kynhneigð minni var yfirskrift kynningartexta fyrir viðtalið og er þar vísað til þess að það var ekkert að trufla aðra tónlistarmenn þó það væri hommi í hópnum.
Tommi hefur spilað inn á vel yfir 300 hljómplötur með allra handa tónlistarmönnum, en ferillinn byrjaði með Friðriki Þór Friðrikssyni og fleiri góðum strákum í Fónum í Vogaskólanum, en tók svo auðvitað kipp þegar Rifsberja varð til, grúppunni sem síðar leiddi saman þá Tomma og Kobba Magg. Meik-árin í Lundunum voru all nokkur og skrautleg, svo sem með enskri sveit sem var við það að slá í gegn, svo og íslensku ofurgrúppunni Change sem fatahönnuður Bay City Rollers hannaði forláta þrönga diskó-galla á, eitthvað sem strákunum fannst ansi óþægilegt að klæðast.
Það er unun að hlusta á Tomma lýsa Stuðmanna- og Þursaflokksárunum og öllum ævintýrunum sem fylgdu spileríi heima og erlendis, til dæmis þegar óargaflokkurinn hélt þeim í gíslingu uppi á sviði, en ekki er síður áheyrilegt að heyra hann segja frá samkynhneigð sinni og hvernig hann kom sér smám saman út úr skápnum á þrítugsaldri þótt hann vissi reyndar upp á hár allt frá unglingsaldri hvort kynið höfðaði meira til hans; hljómsveitarfélagar hans hafi raunar aldrei pælt í þessu, eða eins og Tommi orðar það sjálfur; það þurfti aldrei að halda fund út af kynhneigð minni í bandinu.
Hann segist vera afskaplega þakklátur fyrir feril sinn allan, enda forréttindi að fá að vinna með öllu því gáfaða og frjóa fólki sem spilað hafi með honum á löngum tónlistarferli, en þar skipti hljómagreindin miklu máli, sjálft guðslán hans í lífinu sem geri það að verkum að hann þurfi ekki að heyra lag nema einu sinni til að kunna gang þess og línu.
Smellið hér ef viðtalið birtist ekki fyrir ofan: Facebook