Gunnlaugur Bragi, formaður Hinsegin daga og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur fluttu stutt ávörp áður en þeir hófust handa við að mála fyrstu gleðirendurnar á Skólavörðustíg í miðborg Reykjavíkur ásamt ótal sjálfboðaliðum á öllum aldri.
Það er orðin hefð að mála regnboga í Reykjavík á Hinsegin dögum og markar málningarvinnan upphaf hátíðarinnar.
Að þessu sinni var Skólavörðustígur málaður í regnbogalitum, frá Bergstaðastræti niður að Laugavegi/Bankastræti. Gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis eru tengdari baráttu hinsegin fólks en marga grunar eins og kemur fram í setningarræðu formanns Hinsegin daga.
Götumálunin er unnin í samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og er hluti af verkefninu Torg í biðstöðu í miðborg Reykjavíkur. Sjálfboðaliðar sem vildu taka þátt voru hvattir til að mæta með eigin málningaráhöld.