Magnus Hirschfeld – frumkvöðull í mannréttindabaráttu hinsegin fólks

Guðjón Ragnar Jónasson
Magnus Hirschfeld – frumkvöðull í mannréttindabaráttu hinsegin fólks

Bókaútgáfan Sæmundur hefur gefið út ritið Magnus Hirschfeld – frumkvöðull í mannréttindabaráttu hinsegin fólks eftir þýska fræðimanninn Ralf Dose. Rit þetta er leiðarsteinn í baráttu samkynhneigðra um heim allan og varpar fróðlegu ljósi á þá sögu fyrr og nú.

Bókin er yfirlit yfir ævi, störf og ritverk Magnusar Hirschfeld og jafnframt er hér rifjuð upp saga ýmissa hópa og samtaka sem börðust fyrir réttindum hinsegin fólks í Þýskalandi og víðar á meginlandi Evrópu á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Einnig er hér að finna margvíslegan fróðleik sem tengist upphafi kynfræða sem fræðigreinar, læknavísindum þessa tímabils og samfélagi evrópskra gyðinga.

Bókin er nokkurs konar gluggi inn í veröld sem var, veröld sem fáir þekkja til í dag. Það kann að vekja furðu hversu langt Þýskaland Weimarlýðveldisins var komið í mörgu er laut að orðræðu hinsegin fólks því margir halda að réttindabarátta hinsegin fólks hafi hafist í Bandaríkjunum. En í Evrópu kraumuðu einnig margs konar straumar og stefnur þegar um aldamótin 1900. Frækorn þeirra svifu vestur um haf og báru þar ávöxt þegar komið var fram yfir miðja síðustu öld.

Guðjón Ragnar Jónasson er íslenskufræðingur og kennari við Menntaskólann í Reykjavík. Hann þýddi bókina Mennirnir með bleika þríhyrninginn sem kom út árið 2013 og hefur auk þess skrifað barna- og námsbækur. Guðjón sat lengi í stjórn Samtakanna78 og Hinsegin daga.

 

Umfjöllun

Lestin á Rás 2 fjallaði um bókina og ræddi við Guðjón 8. október 2018.
Þýski læknirinn og kynfræðingurinn Magnus Hirschfeld var einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir mannréttindum samkynhneigðra á fyrri hluta 20. aldarinnar. Hann rannsakaði fjölbreytileika kynferðisins og reyndi að skýra hann læknisfræðilega með kenningu sinni um kynferðislegt millistig. Guðjón Ragnar Jónasson, framhaldsskólakennari, hefur nú þýtt litla bók sem segir frá ævi og kenningum Hirschfeld. Guðjón tekur sér far með Lestinni í dag og segir frá þessum merka baráttumanni.
Viðtalið hefst 33 mínútur inn í upptökunni: Lestin