Að eilífu ástin | Fríða Bonnie Andersen

Að eilífu ástin | Fríða Bonnie Andersen

Að eilífu ástin er ný skáldsaga eftir Fríðu Bonnie Andersen sem fjallar um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Elín ein af aðalpersónum sögunnar fer reyndar til náms bæði til Kaupmannahafnar og Parísar áður en hún kemur aftur heim til Íslands og kynnist Þórhöllu, ljósmóðurnema, sem enn á eftir að uppgötva hvers vegna hún verður aldrei skotin í strákum. Sagan teygir sig inn í nútímann þegar Þórhalla er orðin gömul kona á hjúkrunarheimili. Þar vinnur Sigga, sem er transkona og má segja að þær glími við hvor aðra enda Þórhalla enn ekki komin út út skápnum.

Fríða Bonnie er sjúkraþjálfari og hefur skrifað leikrit og örsögur, þar af eina sem varð að örmynd fyrir RUV. Árið 2014 kom út barnabókin Meistari Tumi. Kona hennar er Sjöfn Kristjánsdóttir læknir.

Fríða var í viðtali í Morgunblaðinu 17/11 2018 og nefndi þar þá þöggun sem er gegnumgangandi í sögunni:

„Ég man að þegar ég var að koma út, ætli það hafi ekki verið 1987 eða ’88, þá hafði ég engar fyrirmyndir og hvernig gat maður þá vitað hvernig þetta var? Þau örfáu sem ég þorði að nefna þetta við í hálfum hljóðum svöruðu: já, en það er svo mikil óhamingja í kringum þetta.“

– Þöggunin er gegnumgangandi í sögunni og hvernig það að þurfa að þegja um það hver þú ert eitrar lífið, sem sést einna best í örlögum Elínar og hvernig það eitrar allt líf Þórhöllu.

„Maður veltir því stundum fyrir sér af hverju fólk er svo biturt og það getur legið alls konar á bak við að. Ég umgengst mjög mikið gamalt fólk í minni vinnu og þekki það að það er svo margt sem mátti ekki tala um. Þetta var eitt af því. Það sem hjálpaði mér, þegar ég var að koma út úr skápnum, var að hugsa um að sannleikurinn myndi frelsa mig, eins og ég læt Siggu hugsa. Um leið og ég segi minn sannleika er ég hætt að ljúga og það er svo mikil frelsun; að geta hætt að ljúga að sjálfum sér og öðrum. Það er ótrúlega mikill léttir að geta hætt þessum feluleik.

Kjarninn í bókinni er að ef maður hefur ekki kjarkinn þá bíður manns bara biturleikinn.“

 

Fríða Bonnie Andersen

Fríða Bonnie Andersen var líka í viðtali í Kiljunni á RÚV og spjallaði þar við Egil Helgason 21/11 2018 um bókina. Viðtal við Fríðu Bonnie Andersen um Að eilífu ástin.