Heimsreisumömmur leggja af stað og börnin með

Heimsreisumömmur leggja af stað og börnin með

Ég heiti Eva Dögg Jafetsdóttir  og konan mín heitir Álfheiður Björk Sæberg Heimisdóttir og saman eigum við tvö börn, Sindra Sæberg Evuson sem er 4ra ára og Söru Sæberg Evudóttir sem verður tveggja ára í sumar. Við búum í Seljahverfinu og störfum báðar sem þroskaþjálfar. Í október á síðasta ári tókum við þá ákvörðun að skella okkur á heimsreisu. Við ákváðum að segja upp vinnunum og nýta seinasta árið hans Sindra Sæberg áður en hann fer í skóla. Við erum mjög duglegar að ferðast og njótum þess að vera saman sem fjölskylda. Árið 2011 fórum við til dæmis í brúðkaupsferð til Tælands og gjörsamlega elskuðum landið, bæði menningu, fólkið og matinn og því fannst okkur tilvalið að byrja þar.

Eva Dögg Jafetsdóttir  og Álfheiður Björk Sæberg Heimisdóttir
Eva Dögg Jafetsdóttir og Álfheiður Björk Sæberg Heimisdóttir

Það er mikil vinna að skipuleggja svona reisu, hvert skal fara og hvað er hægt að gera og umfram allt hvað við viljum fá út úr þessu ævintýri. Þetta verður ekki bara margra mánaða sólarlandaferð. Við ætlum að leggja upp með fjórar megin áherslur sem við ætlum að hafa til hliðsjónar í ferðinni, en þær eru; menning, lærdómur, skemmtun og samvera.

Að skipuleggja svona stóra reisu krefst mikils af manni og aðalmálið er að fá ekki bakþanka yfir öllu í skipulagsferlinu. Þegar kom að því að velja áfangastaðina skoðuðum við mikið og lásum um hin og þessi lönd því það er ýmislegt sem við þurfum að hafa í huga.

worldtravelmoms
worldtravelmoms

Verandi tvær konur með börn eða svokölluð hinsegin fjölskylda þurfum við að skoða vel og vandlega hvernig hvert land tekur okkur og þær hættur sem kunna að skapast einungis út frá þessari staðreynd. Öryggi okkar og sérstaklega barnanna okkar eru að sjálfsögðu i forgangi. Að ferðast með tvö ung börn á eftir að vera erfitt og mikil áskorun en við hlökkum til að takast á við þetta. Kostnaðarlega verður þetta að sjálfsögðu erfitt en það er bara önnur skemmtileg áskorun.

worldtravelmoms
worldtravelmoms

Þann 26. júní munum við leggja land undir fót og halda af stað til London þar sem við gistum eina nótt. Næsta dag tökum við svo næturflug til Bangkok og ætlum að vera í Tælandi í mánuð og ferðast meðal annars um norður Tæland. Í framhaldi förum við svo til Víetnam, Japan, Filippseyja, Cambódíu, aftur til Tælands, Singapore og svo er planið að vera á Balí um jól og áramót. Lengra höfum við ekki skipulagt og ekki heldur nákvæmlega hvað við gerum í hverju landi enda skemmtilegast að vera sveiganlegar og opnar fyrir tækifærunum í lífinu.

Lífið er stutt og við ætlum að njóta þess saman. Hægt er að fylgjast með ævintýrinu okkar og undirbúningi á snapchat og instagram undir nafninu worldtravelmoms. 

worldtravelmoms búnar að pakka
worldtravelmoms búnar að pakka og komnar af stað

Nýlegar greinar