Hvernig ráðgjöf er hægt að fá um það að koma út úr skápnum sem sam- eða tvíkynhneigð(ur)?
Fólk getur þurft ráðgjöf og upplýsingar þegar það kemur út úr skápnum. Sumt fólk býr við þannig fjölskylduaðstæður að því reynist erfitt að koma út og að það mun mæta fordómum. Í öðrum tilfellum finnst fólki samkynhneigð eða tvíkynhneigð svo framandi að viðkomandi vill fá betri upplýsingar áður en skrefið er stigið. Það fyrsta sem samkynhneigt og tvíkynhneigt fólk uppgötvar yfirleitt er hrifning af einstaklingi af sama kyni. Sú hrifning vekur upp spurningar sem leiða til þess að fólk fer að velta fyrir sér eigin kynhneigð. Fólk getur haft ýmsar myndir af því hvað það er að vera lesbía, hommi eða tvíkynhneigður einstaklingur. Til dæmis getur fólk haft hugmyndir eða spurningar um hvernig kynlífi samkynhneigt fólk lifir eða hvernig á að hitta annað samkynhneigt eða tvíkynhneigt fólk. Einnig geta verið uppi spurningar um svokallaðan lífsstíl samkynhneigðra, þ.e. þá sýnilegu menningu sem oft er tengd við samkynhneigt fólk. Þar má nefna tónlist, skemmtanir og framkomu. Ekki er allt samkynhneigt eða tvíkynhneigt fólk eins; enda eru margar hugmyndir gagnkynhneigðs fólks um samkynhneigð byggðar á staðalmyndum sem segja ekki alla söguna.
Hvar er hægt að fá ráðgjöf vegna kynhneigðar eða aðstoð vegna vanlíðunar?
Í gegn um tíðina hafa Samtökin ‘78 veitt fræðslu og ráðgjöf um samkynhneigð og eru ráðgjafarnir þar býsna færir í að aðstoða fólk með spurningar varðandi kynhneigð. Mikilvægt er þó að leita til viðurkenndra fagaðila ef tilfinningavandi fylgir slíkum spurningum. Þannig getur fólk upplifað einkenni þunglyndis eða kvíða sem einnig þarf að bregðast við. Hægt er að fá meðferð hjá starfandi sálfræðingum víðsvegar um landið. Sálfræðingar veita ekki endilega allir sérstakar leiðbeiningar um hvernig á að koma út úr skápnum en sálfræðingar aðstoða vegna tilfinningavanda eða annarra hamlandi andlegra einkenna. Til viðbótar meðferð geta skjólstæðingur og sálfræðingur aflað sér upplýsinga um samkynhneigð (meðal annars á þessum vef eða hjá ráðgjöfum Samtakanna '78) og rætt málin í kjölfarið.
Sálfræðingar tilheyra hópi heilbrigðisstarfsfólks sem landlæknir veitir heimild til að starfa sjálfstætt. Ráðgjöf Samtakanna '78 er ekki með slíka heimild frá landlækni. Einstaka starfsfólk ráðgjafarinnar getur verið með heimild hvert fyrir sig, en þó líklega ekki til að veita heilbrigðisþjónustu (meðferð) í húsnæði Samtakanna. Sálfræðingar eru bundnir trúnaði og þurfa að lúta margvíslegum skilmálum samkvæmt siðareglum sálfræðinga og samkvæmt lögum eins og aðrir hópar heilbrigðisstarfsmanna. Ákveðið öryggi getur falist í því að leita til fagfólks sem heyrir undir eftirlit og leyfisveitingar frá landlæknisembættinu þegar um meðferð er að ræða.
Til eru sálfræðingar sem hafa staðgóða þekkingu á samkynhneigð út frá eigin reynslu. Sérþekking af því tagi er meðal annars til staðar hjá sálfræðingum á Lynghálsi, hjá Sálfræðiráðgjöfinni og á Sálstofunni (þar sem áhersla er á börn og unglinga).