Af hverju þarf samkynhneigt fólk alltaf að vera að auðkenna sig? Er einhver ástæða til að nota alla þessa merkimiða?
Merkimiðar eru vissulega betri á dósir en fólk. Engu að síður þjónar flokkun í hópa, t.d. lesbíur og homma, hlutverki sem félagsleg styrking. Lesbíur og hommar eru og hafa í gegn um tíðina verið til hliðar í samfélögum sem gera fyrst og fremst ráð fyrir gagnkynhneigð. Barist hefur verið við trúarbrögð og samfélagsleg viðmið auk skilnings fólks á því hvað það telur að sé ætlun náttúrunnar með því að "hanna" manneskjur á tiltekinn máta. Normið gagnvart mörgu fólki hefur verið það að fólk sé hannað af guði eða náttúrunni til að fjölga sér hvert með öðru (s.s. konur með körlum) og að tilgangur lífsins sé í raun einungis að eignast börn (og lofsama guð). Reyndin er þó auðvitað sú að náttúran hefur enga sérstaka skoðun eða vilja enda er hún ekki vitsmunavera heldur heiti yfir lífkerfi og þróun innan þess. Hvað guð varðar þá er alls óvíst hvað henni finnst um þetta mál sem og önnur enda hafa karlmenn yfirleitt gert henni upp skoðanir.
Þegar fólk hefur komið fram með aðra sýn og annan veruleika en normið þá hefur auðkenning þjónað tilgangi til að gefa sýnileikanum heiti og til að ná félagslegri samstöðu. Fólk hefur séð tilgang í því að gefa sjálfu sér tegundarheiti, alveg eins og það þjónar tilgangi fyrir sumt fólk að kalla sig norðlendinga eða bílskúrseigendur. Heiti yfir hóp gagnast þeim sem tala um hópinn en einnig fyrir hópinn sjálfan til að þjappa sér saman og til að stefna að sameiginlegum markmiðum. Slíkum merkimiðum hefur fjölgað all verulega í seinni tíð enda gefur það ýmsu fólki tilgang að auðkenna sig á einhvern hátt. Til dæmis hefur kynhneigðum fjölgað all verulega og sumt fólk vill auðkenna kyn sitt á annan hátt en með tveggja kynja flokkunarkerfinu.
Öll sjálfsskilgreining er góð ef hún gagnast fólki. Það er þó ekki endilega gagnlegt ef skilgreiningar verða of óljósar því þá geta þær farið gegn upphaflegum tilgangi. Sé hugtak gagnslaust eða ef það vinnur gegn hagsmunum fólks þá er gott að sleppa því og að finna hugtak eða heiti sem gagnast betur.
Sumt fólk vill ekki nota merkimiða af neinu tagi og er það einnig hið besta mál. Þannig geta til dæmis tvær konur í sambúð og jafnvel í hjónabandi ekki viljað kalla sig lesbíur af því að þeim finnst það heiti ekki lýsa sér. Einnig geta menn sem einungis vilja sofa hjá öðrum mönnum samt ekki viljað kalla sig homma af því að þeir tengja ákveðinn lífsstíl við það að vera hommi. Það er ágætt að fólk finni þá leið sem hentar þeim best.
Eftir sem áður mun margt fólk halda áfram að kalla sig lesbíur eða homma af því að þeim finnst það gagnast sér til að útskýra hluti fyrir öðru fólki á skjótan hátt og eins til að hafa samstöðu með öðrum af sama tagi.