Hvernig er að vera hommi á Íslandi í dag?

Margir hommar hafa það býsna gott á Íslandi í dag enda eru viðhorf breytt og aukin réttindi til staðar. Ungir hommar undir tvítugu eiga þó stundum erfitt með að finna aðra homma á sínum aldri. Þeir geta vissulega notað stefnumótaöpp til að finna aðra stráka en þau öpp eru yfirleitt fyrir kynlíf frekar en félagsleg samskipti án kynlífs. Margir ungir hommar sækja því félagsskap til æskuvina sinna enda er það auðveldara en áður var. Sumir lenda þó í vandræðum því félagarnir eru kannski fáir eða eru ekki jákvæðir gagnvart samkyhneigðum. Einnig hafa ungir hommar á einhverfurófi lent í vanda við að finna sér félagsskap og að fóta sig í nýjum veruleika.

Ungir hommar yfir tvítugt eiga auðveldara með að finna félagsskap enda hafa þeir meiri möguleika á samskiptum við fólk. Sumir þeirra eru í vinnu, aðrir í skóla en margir hafa fundið kærasta og eru að prófa sig áfram með samband og sambúð með öðrum homma eða tvíkynhneigðum náunga. Sambönd halda mis vel eins og gengur en þó virðast sambönd ungra homma halda betur en þau gerðu áður en sýnileiki jókst. Sumir náungar eru í lokuðu sambandi, aðrir í opnu sambandi og prófa sig áfram í kynlífi með öðrum en kærastanum. Opin sambönd eru algeng hjá hommum og hafa reynst þeim vel. Þeir eru þá í vináttu- og ástarsambandi með kærastanum en eiga í kynferðissambandi við aðra. Mörgum hommum hefur reynst auðvelt að aðskilja tilfinningar og kynlíf að því leiti sem þarf. Hættan á þessu aldursstigi er óvarkárni í kynlífi (riðið án smokks) og eins möguleiki á að verða einmana af því að þeir finna ekki rétta kærastann.

Hommar á þrítugsaldri virðast eiga nokkuð gott líf. Þeir eru búnir að finna sér sinn hóp félaga sem oftar en ekki eru aðrir hommar. Þeir eru margir duglegir að skemmta sér með sínum kjarnahópi sem helst frekar stöðugur. Hommar á þessum aldri hafa litla félagslega þörf aðra en sinn nánasta vinahóp. Þeir eru komnir yfir óöryggið sem var til staðar þegar þeir komu út úr skápnum og hafa prófað ýmislegt. Þeir ferðast talsvert og njóta hommasamfélagsins í erlendum stórborgum. Hætta er á að þessir náungar prófi hluti sem geta verið varasamir, t.d. að stunda kynlíf án smokks eða að stunda kynlíf undir áhrifum efna (chemsex). Til dæmis hefur það færst í vöxt að hommar sprauti sig með efnum til að halda lengur út og að njóta kynlífsins betur. Þeir geta orðið háðir þeim áhrifum og þá verður kynlíf leiðinlegt án efna.

Hommar upp úr fertugu fara að reka sig á að æskublóminn fölnar og að djammið er ekki eins skemmtilegt og auðvelt og áður var. Líkaminn lætur á sjá og meira þarf til að halda sér gangandi. Útlits- og aldurskröfur sumra hópa innan hommasamfélagsins geta verið erfiðar og óþægilegar fyrir þennan aldurshóp. Sumir leita í hópa eins og bangsahópinn og finna þar félagsskap sem dæmir ekki homma. Aðrir hommar fara að einangrast á þessum aldri.

Hommar, fimmtugir og yfir eru ýmist orðnir frekar einangraðir eða eiga farsælt samband og / eða traustan vinahóp. Þeir eru því ýmist býsna hamingjusamir og lausir við óöryggi æskuáranna eða að glíma við depurðareinkenni.

Fréttir eru af því að aldraðir hommar hafi einangrast á öldrunarheimilum og jafnvel að þeir hafi farið aftur inn í skápinn.