Að koma út úr skápnum

Að koma út úr skápnum er þekkt hugtak sem tengt er við það að segja frá kynhneigð sinni ef hún er önnur en gagnkynhneigð. Þannig hefur samkynhneigt fólk og tvíkynhneigt í æ ríkari mæli komið út úr skápnum á undanförnum áratugum.

Á tímabili þótti mikilvægt að sem flest samkynhneigt fólk kæmi út úr skápnum til að auka á sýnileika homma og lesbía. Hugtakið fékk pólitíska merkingu og þá kom það fyrir að fólki var ýtt út úr skápnum í pólitískum tilgangi. Til dæmis voru leiðindapésar sem töluðu gegn réttindum samkynhneigðra berskjaldaðir ef það átti við (þ.e. sagt var frá kynhneigð þeirra og athöfnum sem oft voru býsna skrautlegar).

Ágætis röksemdafærsla er til fyrir því að koma út úr skápnum og snýst hún um það að ef fólk kemur ekki út þá gera allir ráð fyrir að þau séu gagnkynhneigð. Þannig getur umræðan á vinnustaðnum snúist um atferli og líf gagnkynhneigðra, maka þeirra og aðstæður án þess að nokkur geri ráð fyrir að í hópnum sé hommi eða lesbía. Slíkt getur verið þreytandi fyrir fólk sem er samkynhneigt og vill hafa frelsi til þess að geta einnig talað um sitt líf. Sífellt auðveldara er að koma út úr skápnum á Íslandi og er það ekki síst að þakka breyttri löggjöf, aukinni umræðu og GayPride hátíðinni sem var haldin um árabil í byrjun ágúst.

Ávinningur af því að sýnileiki hefur aukist er til dæmis sá að margt samkynhneigt fólk hefur í ríkari mæli samlagast borgaralegum aðstæðum gagnkynhneigðra og vill helst lifa lífi sem speglar hinn gagnkynhneigða veruleika, t.d. með því að ættleiða börn, ganga í hjónaband og jafvel að eiga heimili í úthverfi fjarri miðborgardjamminu. Fólk hefur s.s. valið að verða borgaralegt og að falla inn í ríkjandi norm. Samkynhneigð er þannig fyrir margt fólk orðin norm eða sjálfsagður hlutur.

Rök gegn því að koma út úr skápnum hafa verið þau að það sé val hvers og eins hvort fólk vill upplýsa aðra um sína kynhneigð. Sumu samkynhneigðu fólki finnst einkalíf sitt ekki koma öðrum við. Það er réttur hverrar manneskju að upplýsa það sem hann eða hún vill um sína hagi. Þannig þarf fólk ekki að segja frá því í vinnunni að það sé samkynhneigt, ekki frekar en fólk þarf að ræða það úti í búð, í sundi eða í fjallgöngu með ferðafélaginu. Eini vandinn sem er þá til staðar er að ef fólk gefur ekki til kynna aðra kynhneigð en gagnkynhneigð þá er gert ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir. Sem þarf svosem ekki að vera vandamál fyrir einstaklinga. Hópurinn hefur þó ótvírætt gagn af því að sem flestir séu sýnilegir. Sýnileikinn hefur breytt hugarfari almennings.

Fólk sem hefur komið út úr skápnum þarf stundum að gera það aftur í nýjum aðstæðum. Þannig getur einstaklingur byrjað á því að koma út úr skápnum gagnvart foreldrum, ættingjum og félögum og vinum. Síðar á lífsleiðinni þarf viðkomandi mögulega að koma út úr skápnum á nýjum vinnustað, í foreldrafélagi barnanna til að útskýra að börnin eigi tvo foreldra af sama kyni og á fleiri stöðum.

Flestir sem hafa komið út úr skápnum með samkynhneigð eða tvíkynhneigð hafa fundið fyrir miklum létti og gleði yfir því að hafa stigið þetta skref.