„Við eigum ennþá langt í land með að uppræta fordóma“

„Við eigum ennþá langt í land með að uppræta fordóma“

„Við eigum ennþá langt í land með að uppræta fordóma“ segir Úlfar Viktor Björnsson í pistli á Facebook í kjölfar þess að ráðist var á hann í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Svona lýsir Úlfar atvikinu:

 

Fékk krepptan hnefa í andlitið

Jæja - það kom þá að því að ég fékk fyrsta hnefann í andlitið fyrir það að vera ekki eins og almúginn er flestur. Ég hef verið smá skeptískur að birta einhver svona skrif en þetta hefur afskaplega lengi blundað í mér og núna finnst mér ég hreinlega skyldugur til þess að láta heyra í mér. Ég hef alltaf verið meðvitaður um að það fylgi ákveðin áhætta fyrir mig að fara í miðbæ Reykjavíkur eftir miðnætti.

Í gærkvöldi var ég á leið heim á göngubrautinni við Lækjartorg og Laugarveg þegar að einstaklingur æðir að mér og spyr mig hvort ég sé hommi, ég að sjálfsögðu jánka því og fékk í kjölfarið krepptan hnefa í andlitið með öllu tilheyrandi. Ég þekki þennan einstakling ekkert og ég hef aldrei séð hann áður. Ég veit ekkert hvað gerðist fyrir hann fyrr um kvöldið eða hversu illa hann hafi verið á sig kominn. Og ég er í raun ekki reiður út í hann per se.

En ég hinsvegar alveg ógeðslega sár og svekktur. Og þetta svekkelsi er ekki í garð þessa tiltekna eina einstaklings sem að veittist að mér. Heldur miklu frekar út í samfélagið okkar. Því við erum að leyfa þessum hatri að grasserast. Hvers vegna? Því við höldum að svona geti ekki ennþá verið að eiga sér stað árið 2018, og það á Íslandi. Við lítum framhjá þessu og umræðan er orðin hálfpartinn stöðnuð. Það sem er sorglegast af öllu er að ég hef alltaf átt von á þessu - og ég hef alltaf vitað að það hlaut að koma fljótlega að fyrsta högginu. Og einmitt þessi hátterni finnst mér endurspegla þjóðfélagið okkar talsvert. Við höfum staðnað gífurlega. Við teljum okkur trú að hér ríkja engir fordómar því við erum jú ein af fremstu ríkjum heims í jafnréttisbaráttunni. Hér á allt að vera með felldu.

En blákalda staðreyndin er sú að við eigum ennþá langt í land með að uppræta fordóma. Við erum heldur betur ennþá að lenda í allskyns áreiti af fólki sem að verður á vegi okkar. Ég gæti skrifað bók út frá öllum þeim niðrandi ummælum sem sagðar hafa verið við mig og um mig. Svo er ég ennþá að fá spurninguna hvers vegna í ósköpunum við séum ennþá að halda þessa blessuðu hinsegin daga. Þetta gaf mér endanlega staðfestingu á mikilvægi þeirrar baráttuhátíðar.

En ég vil halda í trúnna. Ég vil geta trúað því að við getum gert betur. Ég vil trúa að ég geti einn daginn labbað um miðbæ Reykjavíkur án þess að eiga í hættu á því að vera áreittur eða laminn fyrir það að vera eins og ég er. Ég vil halda sterkt í þá trú að umræðan fái að haldast á lofti eins lengi og þess gerist þörf og að við grípum inn í ef við verðum vitni af níðslu í garð minnihlutahópa.

Við erum ennþá að berjast fyrir okkar réttindum og við þurfum ykkur öll til þess að halda umræðunni á lofti og vera meðvituð. Við þurfum ykkur til þess að taka þátt í að uppræta þessa fordóma sem að er ekki einungis eitthvað sem tilheyrir fortíðinni, heldur á sér stað á hverjum einasta degi hér á litla „saklausa" Íslandi.

ps: endilega deilið

 

„Komum fram við hvort annað af virðingu“

Fjöldi manns tóku hann á orðinu og deildu færslunni á Facebook og sendu honum hugreistandi kveðjur í athugasemdum. Um það bil sólarhring seinna höfðu 2.750 manns deilt færslunni og 743 sent honun kveðjur. Viktor þakkaði fyrir sig í annarri færslu:

 

Ég á varla til orð yfir stuðningnum sem mér hefur verið veittur undanfarinn sólarhring. Ég er ákaflega meyr og þakklæti er mér efst í huga. Takk innilega fyrir öll hlýju skilaboðin, það er mér orðið mjög skýrt að við ætlum aldrei að leyfa hatrinu að sigra. Við þurfum bara að vanda okkur, fræða og kenna umburðarlyndi á milli kynslóða. Stöndum saman og komum fram við hvort annað af virðingu. Enn og aftur, takk fyrir öll fallegu orðin - þau eru mér ómetanleg.

 

Steinar Ingi, útsendari Nútímans, hitti Úlfar líka og spjallaði við hann um málið. Myndbandið má sjá á vef Nútímans: 

Úlfar upplifir reglulega fordóma fyrir samkynhneigð í Reykjavík og sérstaklega á djamminu

Myndir af Facebook vegg Úlfars

 

Tengdar greinar

Nýlegar greinar