Kúgun og kossaflens: Frá fordómum til frelsis

Kúgun og kossaflens: Frá fordómum til frelsis

Allir eru velkomnir – nema hommar og lesbíur. Þannig hljómaði auglýsing vinsælasta diskóteksins í Reykjavík fyrir þrjátíu árum. Fáeinir þrjóskir hommar reyndu eins og oft áður að komast inn en voru dregnir út úr röðinni af dyravörðunum sem gengu í skrokk á þeim. Í dag njóta samkynhneigðir fullra lagalegra réttinda til jafns við gagnkynhneigða og óvíða í heiminum er eins gott að vera lesbía og hommi og á Íslandi. Hvernig átti þessi róttæka breyting sér stað? Hvernig var mögulegt að breyta einu hómófóbískasta samfélagi heims í eitt það frjálslyndasta?

Frelsisbarátta samkynhneigðra víðs vegar í heiminum virðist fylgja sama mynstri, frá útilokun til viðurkenningar. Samfélög dvelja þó mislengi á hverju stigi um sig þar sem mismörg ljón standa í veginum fyrir réttlátara samfélagi. Nú stendur hinsegin fólk til dæmis frammi fyrir lagasetningu stjórnvalda í Rússlandi og Úganda þar sem mannréttindi þess eru takmörkuð og vaxandi ofsóknir mæta því. Þá vaknar sú spurning hvort læra megi eitthvað af þróun frelsisbaráttunnar hér á landi. Hvernig má það vera að aukinn sýnileiki og meiri réttindi samkynhneigðum til handa leiði til aukins ofbeldis? Á hvaða augnabliki fer samfélag að viðurkenna tilvist lesbía og homma? Hvað má læra af okkar sögu í því samhengi?

Hér á eftir er sett fram sú tilgáta að frelsisbaráttu samkynhneigðra hér á landi hafi gengið í gegnum sex þróunarstig.

 

Stig 1: Kúgun þagnarinnar

Fyrst var þögn, þrúgandi þögn. Kúgunin birtist í því að allt samfélagið lét eins og samkynhneigð væri ekki til. Þannig var staðan allt fram á miðjan áttunda áratug liðinnar aldar. Lesbíur og hommar voru nær ósýnileg í íslensku samfélagi. Þau fáu sem gengust við samkynhneigð sinni flýðu land. Þau neyddust til að gerast flóttamenn í borgum heimsins á borð við Kaupmannahöfn, London og New York. Fæst þeirra sneru aftur.

Veggur þagnarinnar verður ekki brotinn niður nema með orðum. Fyrst í stað verður hann einungis brotinn niður af samkynhneigðum sjálfum – lesbíum og hommum sem gangast við kynhneigð sinni, tala um hana við sína nánustu og eru tilbúin að leyfa samfélaginu að gægjast inn í einkalíf sitt. Þekktir einstaklingar sem eru samkynhneigðir gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að brjóta niður múra og oft hafa listamenn verið í þessu hlutverki. Í samfélögum þar sem enn ríkir þögn um samkynhneigð er mikilvægt að fá þekkta einstaklinga til þess að rjúfa hana.

 

Stig 2: Sýnilegir leiðtogar og mikilvægi fjölmiðla

Á öðru stigi verður samfélag samkynhneigðra sýnilegt – tekið er af skarið í frelsisbaráttunni. Tvö atriði skipta sköpum á þessu stigi: Leiðtogar og fjölmiðlar. Samfélagið verður að hafa hæfa leiðtoga og talsmenn sem höfða bæði til eigin hóps og þjóðfélagsins alls. Leiðtoga sem eru trúverðugir og ná eyrum fólks. Aðgangur að fjölmiðlum er lykilatriði í þessu samhengi. Leiðtogarnir verða að koma upp tengslaneti við blaðamenn og tryggja þannig fjölmiðlaumfjöllun – þannig skilar málflutningurinn sér til almennings. Samfélag samkynhneigðra verður almenningi einungis sýnilegt í gegnum fjölmiðla. Tryggja verður sýnileika hópsins í gegnum hefðbundna fjölmiðla og það bæði í íhaldssömum og frjálslyndum miðlum með það fyrir augum að ná til sem flestra.

 

Stig 3: Aukið ofbeldi

Þriðja stig einkennist oft af auknum ofsóknum í garð samkynhneigðra. Aukinn sýnileiki leiðir til viðbragða íhaldssamra afla. Fordómafullir einstaklingar stíga fram – koma út úr skápnum með eigin fordóma. Á þessu stigi er samfélagið oft á tíðum mjög fjandsamlegt. Samkynhneigðir sæta líkamlegu og andlegu ofbeldi sem birtist bæði í ræðu og riti. Hér er skiptir miklu máli að leiðtogar hópsins gefist einfaldlega ekki upp enda á brattann að sækja og ekkert lát á fjandskap andstæðinganna. Vinir okkar Færeyingar gengu nýlega í gegnum þetta stig. Rússland og Úganda virðast vera á þessu stigi í dag.

Þegar öll sund virtust lokuð hér á landi á 9. áratugnum tókst Samtökunum ’78 hægt og bítandi að yfirvinna þessar hindranir með því að beina athyglinni að grasrótinni, almenningi, og beita aðferðinni maður á mann. Ómögulegt var að fá ráðamenn til að hlusta á óskir um aukin mannréttindi og erfitt var að stuðla að heiðarlegri umfjöllun fjölmiðla þótt það tækist að lokum. Þá var bara eitt ráð eftir, þ.e. að gera frelsisbaráttuna persónulega. Samtökin gerðu út skelegga talsmenn sem héldu opna fundi og fóru í framhaldsskóla um allt land. Fundir voru haldnir alls staðar þar sem kostur var og mikið orð fór af vinsældum þessara funda. Ungt samkynhneigt fólk var fengið til að tala við jafnaldra sína um samkynhneigð. Þessi aðferð sló í gegn og smám saman dró úr ofsóknum í garð samkynhneigðra.

 

Stig 4: Áræðni og styrkur

Fjórða stigið einkennist af auknum styrk, áræðni frelsisbaráttunnar og aðlögun samfélagsins. Birtingarmynd aukins áræðis getur til dæmis verið opnir viðburðir þar sem samkynhneigðir gegna lykilhlutverki eins og á Hinsegin dögum í Reykjavík – Reykjavík Pride.

Athyglisvert er að fyrstu tvær göngur hinsegin fólks á Íslandi á 10. áratugnum voru fyrst og fremst skipulagðar sem mótmælagöngur og hlutu engan hljómgrunn meðal almennings þótt þær gerðu göngufólkinu gott. Nokkrum árum síðar var breytt um taktík og efnt til fyrstu Gay Pride hátíðarinnar þar sem lögð var áhersla á að allir væru velkomnir, gagnkynhneigðir jafnt sem hinsegin fólk. Sjálf ganga hátíðarinnar hlaut strax sitt séríslenska heiti, Gleðigangan, og þar var sérstaklega hvatt til þátttöku vina og ættingja þeirra sem hlut áttu að máli. Nú er svo komið að Gleðigangan er orðinn einn vinsælasti viðburður landsins og um fjórðungur landsmanna tekur þátt í henni. Hún er í raun einstök í heiminum þar sem gagnkynhneigðir taka þátt í henni til jafns við samkynhneigða.

Eitt hið merkilegasta sem ég hef upplifað í Gleðigöngunni var það þegar gagnkynhneigðir félagar okkar í hinu samkynhneigða fótboltaliði Styrmis gengu með okkur og skeyttu engu þótt allur áhorfendaskarinn teldi þá vera homma. Þessum tvítugu gagnkynhneigðu strákum var nefnilega alveg sama. Það hafði orðið bylting í viðhorfum – það skipti ekki máli fyrir þessa stráka hvort þeir töldust samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir.

Spyrja má hvort Gleðigangan íslenska geti orðið öðrum frelsishreyfingum hinsegin fólks í heiminum að fyrirmynd. Er hugsanlegt að skipuleggja viðburði á forsendum samkynhneigðra og annars hinsegin fólks þar sem gagnkynhneigðum finnst þeir velkomnir og taka fullan þátt?

Það er á þessu stigi sem nýjar hreyfingar hinsegin fólks eru teknar að birtast og byrja að blómstra, til dæmis hreyfingar stúdenta, foreldra, íþróttafólks og kórsöngvara svo nokkur dæmi af mörgum séu nefnd. Þessir hópar hafa skipt miklu máli hérlendis og rutt brautina fyrir þá sem á eftir komu. Hið sama gildir um hreyfingar transfólks og mikilvægt er að styðja við bakið á öllum þessum hópum. Aðstandendur samkynhneigðra hafa einnig látið til sín taka hér á landi. Fjölskyldur okkur eru oftast mikilvægasti bakhjarlinn þegar á reynir og hér gildir hið sama um okkur Íslendinga og aðrar þjóðir – við getum gert miklu meira af því að virkja fjölskyldur okkar í frelsisbaráttunni. Þar liggja víða ónýtt sóknarfæri sem ber að nýta.

 

Stig 5: Bætt staða

Fimmta stig frelsisbaráttunnar kemur til sögunnar þegar samkynhneigðir fá aukin lagaleg og félagsleg réttindi. Í því samhengi er rétt að skoða fjóra þætti.

Í fyrsta lagi er það lykilatriði á þessu stigi að taka réttindabaráttuna í skrefum. Full réttindi nást ekki á einni nóttu og því er mikilvægt að gera einhvers konar „smáskrefaáætlun“ í átt til aukinna réttinda. Nauðsynlegt er að gera málamiðlanir og láta af ítrustu kröfum til að tryggja fyrstu lögum um réttindi samkynhneigðra brautargengi á þjóðþingum.

Það tók okkur Íslendinga nærri þrjátíu ár að öðlast full lagaleg réttindi til handa samkynhneigðu fólki frá því að fyrsta þingsályktunin um aukin réttindi var lögð fyrir Alþingi. Það getur verið erfitt að sættast á takmörkuð réttindi og í augum flestra þeirra sem hlut eiga að máli algjörlega óþolandi. Samt getur það verið nauðsynlegt til að þoka lagalegum réttindum áfram. Lögin um staðfesta samvist frá árinu 1996 og heimild til handa samkynhneigðum að stjúpættleiða frá árinu 200O eru dæmi um þetta. Í nokkra mánuði unnum við í Félagi samkynhneigðra stúdenta (FSS) dag og nótt að því að fá lögum um ættleiðingar breytt á Alþingi. Að lokum tókst að ná stjúpættleiðingum í gegn þrátt fyrir mikla andstöðu. Okkur hafði með naumindum tekist að fá meirihluta allsherjarnefndar alþingsins til liðs við okkur og það þrátt fyrir mikla andstöðu dómsmálaráðherra. Það var ekki nokkur möguleiki á að fá full réttindi til ættleiðinga samþykkt á þeim tíma – svo mikil var andstaðan.

Ég gleymi því ekki hvað það var stór biti að kyngja þegar við Rannveig Traustadóttir prófessor, sem stutt hafði þessa baráttu með fræðilegri röksemdafærslu, og Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna ’78, þurftum að sættast á þessa málamiðlun rétt fyrir miðnætti í reykmettuðu bakherbergi í þinghúsinu. Í málamiðluninni fólst að þingheimur samþykkti stjúpættleiðingar og að engin andstaða yrði við þá ráðstöfun ef við héldum ekki þeirri kröfu til streitu að samkynhneigðir fengju full réttindi til ættleiðinga. Ef tillaga um réttindi til ættleiðinga kæmi til atkvæðagreiðslu í þinginu yrði hún felld. Það hefði þýtt mikið bakslag fyrir mannréttindabaráttuna. Við sættumst á þennan gjörning með óbragð í munni. Sama togstreita hófst svo sex árum síðar þegar lokabaráttan hófst fyrir fullum ættleiðingarrétti og sigur vannst.

Í öðru lagi er mikilvægt að reyna að ná árangri með friðsamlegum hætti. Hreyfingar hinsegin fólks hér á landi hafa alla tíð lagt áherslu á friðsamlega baráttu og reynt að vinna með stjórnmálamönnum og opinberum aðilum þó að viðmót þeirra hafi ekki verið ýkja vinsamlegt í fyrstu. Telja má á fingrum annarrar handar hversu oft Samtökin ’78 hafa boðað til opinberra mótmælafunda. Samtökin hafa einnig forðast að lenda í opinberum átökum við stjórnmálamenn og opinberar stofnanir. Þau hafa einnig lagt áherslu á að hrósa opinberlega stjórnmálamönnum og öðrum áberandi aðilum í samfélaginu sem styðja málstaðinn. Það hefur oft skilað miklum árangri að opinbera ekki ágreininginn en leysa hann þess í stað með friðsamlegu málþófi á bak við tjöldin.

Þær aðstæður geta þó skapast að nauðsynlegt sé að gagnrýna ákvarðanir eða aðgerðarleysi stjórnvalda harðlega og sú stefna birtist hvað skýrast í átökum hreyfingarinnar við heilbrigðisyfirvöld á þeim árum þegar alnæmi geysaði. En þegar það er gert verður að tryggja að slagurinn vinnist og að málstaðurinn standi sterkar að vígi þegar upp er staðið.

Í þriðja lagi er mikilvægt að tengja mannréttindabaráttuna við aðra mannréttindahópa, til dæmis baráttuhreyfingar kvenna. Það var gert hér á landi með góðum árangri. Auk þess tókst vel að tengja réttindabaráttuna við háskólasamfélagið og rannsóknir fræðimanna við háskóla landsins. Það stuðlaði til dæmis að upplýstari umræðu um hæfni samkynhneigðra foreldra til að ala upp börn sem var lykilatriði þegar kom að því að sannfæra alþingismenn um að lesbíur og hommar væru ekki vondir foreldrar og sköðuðu ekki börn!

Háskólaumhverfið er oftast jákvætt í garð réttindabaráttu hinsegin fólks og líklega er hægt að vinna miklu betur að því að tengja baráttuna við rannsóknir sem þar eru unnar. Það stuðlar að auknum réttindum og bættri félagslegri stöðu.

Í fjórða lagi var mikilvægt fyrir Ísland að fylgja eftir frjálslyndari samfélögum á hinum Norðurlöndunum. Norræn samvinna gerði frjálslyndum stjórnmálamönnum á Norðurlöndum kleift að spyrja kollega sína á Íslandi gagnrýninna spurninga um slæma stöðu samkynhneigða hér á landi á 9. áratugnum og til Norðurlanda hefur hreyfing hinsegin fólks sótt margar sínar bestu fyrirmyndir í baráttunni. Borgarstjórinn í Reykjavík gerði nýlega það sama í Færeyjum með góðum árangri og það er aðdáunarvert að sjá hvernig Evrópusambandið krefst þess í dag að lönd sem vilja gerast aðildar að sambandinu virði grundvallarréttindi samkynhneigðra.

 

Stig 6: Lagaleg réttindi og áframhaldandi barátta

Sjötta og síðasta stigið verður að veruleika þegar samkynhneigðu fólki hafa verið tryggð sömu lagaleg réttindi og gagnkynhneigðum samborgurum þess. Þó að þeim mikilvæga árangri hafi verið náð verður að halda áfram að berjast gegn fyrirlitningu og fjandskap í garð hinsegin fólks á sama hátt og konur verða að halda áfram að berjast fyrir jafnri samfélagsstöðu á við karla. Á þessu stigi, sem og öllum fyrri stigum, verður að tryggja að talað sé um réttindi hinsegin fólks sem mannréttindi. Þar skal aldrei gefa neinn afslátt enda eru slík réttindi hluti af þeim mannréttindum sem öllum mönnum ber að njóta.

 

Tindar og jafnslétta

Það langa ferli að tryggja samkynhneigðu fólki full lagaleg réttindi hér á landi má líkja við það að klífa háan tind sem lengst af sýndist ókleifur. Baráttan hefur verið hörð. Hún hefur oftar en ekki farið fram bak við luktar dyr en sú aðferð að feta sig áfram í mörgum smáum skrefum skilaði samkynhneigðum í fyllingu tímans á tindinn þó að stundum yrðu menn að taka styttri skref en hugurinn bauð.

Við höfum notið þess að móta samfélag okkar eftir frjálslyndari samfélögum nágrannaríkjanna. Vonandi getur saga okkar til sigurs orðið öðrum þjóðfélögum að fyrirmynd eða að minnsta kosti hvatning í þá veru að gefast ekki upp þegar öll sund virðast lokuð.

Samkynhneigðir búa ekki lengur við lagalega mismunun hér á landi. Fullum lagalegum sigri hefur verið náð. Það á hins vegar enn eftir að ryðja fordómum úr vegi og styrkja félagslega stöðu samkynhneigðra í samfélaginu, t. d. innan veggja skólakerfisins og í íþróttum. Þar er mikið verk óunnið.

Gleymum því heldur ekki á transfólk stendur í sinni baráttu miðri rétt eins og samkynhneigðir á árum áður. Við þurfum að tryggja að allir komist ofan af fjallinu og niður á grundina grænu, sjálfan vettvang mannlífsins – þar eigum við að tryggja öllum jöfn tækifæri.

Gleðilega hinsegin daga.

—-
Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Greinin er byggð á ræðu sem hann flutti á ráðstefnu í Belgrad um mannréttindi hinsegin fólks í umsóknarríkjum Evrópusambandsins síðastliðið sumar. Höfundur vill þakka Þorvaldi Kristinssyni, mannréttindafrömuði og fyrrum formanni Samtakanna’78, fyrir ómetanlega aðstoð við samningu ræðunnar.

Baldur Þórhallsson.

Birtist áður í Kvennablaðinu 6. ágúst 2014.