„Loksins varð ég þó skotinn!“
Um leynda staði í dagbók Ólafs Davíðssonar
Fátt er mönnunum mikilvægara en að þekkja sögu sína og rætur. Sagan er okkur eilífur efniviður til að skilja og túlka lífið á líðandi stund. Stöðugt beitum við sögulegum staðreyndum til þess að réttlæta orð okkar og gerðir, oft án þess að taka eftir því, og söguna lesum við ýmist sem fyrirmynd ellegar víti til varnaðar. Það er til dæmis ekki einleikið hve Sturlunga saga var Íslendingum ofarlega í huga á þeim örlagaríku tímum sem hófust með efnahagshruninu haustið 2008.
Heimildir um sögu þjóðarinnar eru ekki allar jafn sýnilegar. Til skamms tíma sá kvenna varla stað í þeirri Íslandssögu sem kennd er í skólum, rétt eins og þær hefðu aldrei verið til, hvað þá að þær hefðu tekið til hendinni. Sama gilti um fátæka alþýðuna, hún var varla nefnd á nafn á bókum nema þá helst þegar hún komst í kast við konungslög, dæmd til tugthúsvistar eða lífláts.
Svipað er að segja um það fólk sem eitt sinn lagði ást og girndarhug á sitt eigið kyn. Það er helst að glitti í tilveru þess á einstaka máðu skjali þar sem varað er við dauðasyndum og losta. Sú saga hefur verið falin, bæld og strokuð út, og því er vandi þeirra mikill sem leita að samkynhneigðri reynslu forfeðra sinna og formæðra. Samt er þessi saga jafngömul mannkyninu, hún skiptir máli til skilnings á okkar eigin tilveru og tekur á sig fleiri birtingarmyndir en tölu verður á komið.
Þótt Íslandssaga liðinna alda sé snauð af vitnisburðum um samkynhneigðar ástir má þar samt að finna stöku mola sem segja sitthvað um tilfinningar, viðhorf og tíðaranda. Hér skal hugað að nokkrum örstuttum vitnisburðum um tvo skólapilta á 19. öld, frásögn sem virðist einstök í íslenskum texta á 19. öld,[1][i] og horfið 135 ár aftur í tímann. Snemma árs 1882 sat piltur norðan úr Hörgárdal í herbergi við Austurvöll í Reykjavík, skrifaði þar viðburði daganna í litla bók, bundna í rauð spjöld, og trúði henni fyrir tilfinningum sínum. Latínuskólapilturinn Ólafur Davíðsson var orðinn gagntekinn af ungum skólabróður og það á sínum sérstöku nótum:
Skelfing þykir mér vænt um Geir. Hann er líka allra laglegasti piltur og virðist vera vel viti borinn. Hann er unnustan mín. Ég kyssi hann og læt dátt að honum, hreint eins og hann væri ungmey. Hann hefur líka leitt okkur Gísla saman. Hann er líka unnusta Gísla. (Ég þori samt ekki að ábyrgjast það). Við gengum oft með unnustum vorum og með því vér áttum báðir sömu unnustu þá urðum vér að ganga saman. Við það komumst við í kunningsskap og kunningsskap Gísla met ég mikils, Ja, við vorum annars kunningjar áður eins og flestir bekkjarbræður eru en nú erum við, held ég, orðnir vinir.[2]
Pilturinn sem þetta ritaði var nýorðinn tvítugur þegar hér var komið sögu og á sínum síðasta vetri í efsta bekk Reykjavíkur lærða skóla sem síðar hét Menntaskólinn í Reykjavík. Gísli Guðmundsson, sem Ólafur nefnir, var bekkjarbróðir hans, þeir höfðu verið samferða í skólanum undanfarin ár en vinguðust þó ekki fyrr en þennan síðasta vetur þegar bræður tveir frá Hraungerði í Árnessýslu, komu í skólann og settust í 1. bekk. Sá eldri, Ólafur Sæmundsson, var þá 16 ára en bróðir hans Geir kominn á fimmtánda ár. Skömmu eftir að þeir bræður birtust í Reykjavík tókst náin vinátta með þeim og Ólafi Davíðssyni. Mun það einkum hafa stuðlað að skjótri vináttu piltanna að feður þeirra, séra Sæmundur í Hraungerði og séra Davíð á Hofi, voru aldavinir, eitt sinn bekkjarbræður í Lærða skólanum og síðar í Prestaskólanum þaðan sem þeir útskrifuðust vorið 1857.[3] Til marks um það hve kært var með feðrum þeirra pilta má nefna að Assa, annar þeirra hesta, sem Ólafur Davíðsson hafði til reiðar úr heimahögum og í skóla, var þennan síðasta vetur hans í Reykjavík höfð á fóðrum hjá séra Sæmundi í Hraungerði án þess að gjald kæmi fyrir og þótti rausnarbragð.[4] Þeir Hraungerðisbræður bjuggu í leiguherbergi í bænum, utan heimavistar, og sama var að segja um Ólaf sem bjó í húsi Páls og Þóru Melsteð við Austurvöll, en þar deildi hann þar herbergi með frænda Páls, Boga Melsteð. Ferðafrelsi þeirra félaga var því meira en þeirra skólasveina sem bjuggu í heimavist.
Ólafur getur Geirs Sæmundssonar fyrst í dagbók sinni 1. nóvember 1881, skömmu eftir að þeir Hraungerðisbræður koma til Reykjavíkur. Ólafur hefur þá um daginn verið á göngu með frænda sínum og bekkjarbróður, Guðmundi Magnússyni, síðar lækni, og þeir farið að ræða hverjir muni vera fríðastir pilta og hverjar fegurstar meyja í Reykjavík. Fimm piltar eru nefndir til sögunnar og virðast þeir Ólafur og Guðmundur sammála um að telja Geir Sæmundsson þar fyrstan, en aftur á móti greinir þá á um hvaða stúlka skuli hafa vinninginn, Lára Havstein eða María Thorgrímssen.[5]
Nýtt ár rennur upp og þann 23. mars færir Ólafur það til bókar að hann hafi gert sér „glatt kvöld“ með Hraungerðisbræðrum og þeir slegið saman í púkk til að kaupa „sinn hálfan bjórinn hver“ og „kökur fyrir 30 aura“. Það svífur á Ólaf Sæmundsson af því litla sem hann innbyrðir og hann snýr heim, en þeir Ólafur Davíðsson og Geir halda til fjórða vinarins, Gísla Guðmundssonar. Þar sitja þeir um stund en síðan fylgir Ólafur félaga sínum heim. „Það gjöri ég ævinlega þegar við erum á ferð seint um kvöld því Geir er ekki laus við myrkfælni.“[6]
Skömmu síðar eru heimsóknir þeirra vina orðnar svo miklar og tíðar á báða bóga að Ólafur sér ástæðu til að taka eftirfarandi fram í dagbók sinni: „Ég ætla að geta þess hér í eitt skipti fyrir öll að Geir Sæmundsson kemur til mín á hverjum degi og stundum oft. Gefur hann mér bonum [brjóstsykur] eða vindla og ég aftur honum.“[7] Af frásögninni er ljóst að stundum þykir Ólafi nóg um ærsl og ungæðishátt vinar síns. Eitt sinn slysast Geir til að sulla bleki yfir nýútkomnar Afturgöngur Ibsens sem Ólafur hefur verið að lesa og hrifist af en „ég varð þó ekki vondur við hann. Mér er ekki mögulegt að vera vondur við Geir.“[8] Umburðarlyndið á sér meðal annars þá skýringu að unglingurinn hefur ort til vinar síns „einstaklega fallegar vísur. Þær byrja svona: „Ólafur frændi er fjandi sterkur“.“[9] Geir býr líka að gáfu sem fæstum skólapiltum er gefin í sama mæli, hann syngur öðrum betur, bæði tónnæmur og tónelskur. Það kann Ólafur Davíðsson að meta.
Þá upp til Geirs. Hann kenndi mér lagið „Ég veit yðar myndin in mæra“, fagurt lag og friðblítt. Ég kann ekki við orðið „angurblíður“. Geir varð annars styggur við mig stundarkorn því ég uppnefndi hann öllum illum nöfnum en sættir komust samt fljótt á og skaðabæturnar, sem hann fékk, voru góður koss.[10]
Þannig líða dagarnir einn af öðrum. Þeir vinirnir heimsækja hvor annan daglega, stundum oft á dag, yrkja vísur hvor til annars, skiptast á um að færa hvor öðrum brjóstsykur og vindla því nú er Ólafur loksins farinn að geta reykt sér til ánægju eftir að hafa kúgast við þær tilraunir undanfarin ár. Þegar tekur að hlýna um vorið kúra þeir stundum saman í laut í Þingholtunum, góna upp í himininn, hoppa og stökkva sér til hita, reykja og syngja „nokkur blíðleg lög sem stemmdu saman við náttúruna í kringum“ eins og Ólafur kemst að orði. „Elskan mín var hjá mér og við vorum með ágæta vindla.“[11] Á kvöldin leggur Ólafur oftar en ekki leið sína til bræðranna eins og þessi orð hans vitna um:
Eftir átta var ég hjá Hraungerðisbræðrum. Ég lá upp í rúmi hjá þeim og sneri mér að elskunni minni, honum Geir. Mér þykir svo indælt að kyssa hann og faðma hann að mér. Seinast gekk ég aleinn upp á Öskjuhlíð.[12]
Á svipuðum nótum eru fleiri dagbókarfærslur þessar vikur. En snemma fær Ólafur að kenna á þeirri afbrýðisemi sem eltir alla vináttu. Geir sparar nefnilega ekki blíðuhótin við aðra félaga þeirra þegar sá gállinn er á honum. Ólafur sýnir dagbókinni mikinn heiðarleika um tilfinningar sínar en reynir að gera lítið úr þeim og ber þær saman við ástir stúlkna og pilta sem hann hefur þó enga reynslu af sjálfur það best verður séð.
Eftir átta gekk ég með Gísla Guðmundssyni og Geir og seinast fórum við inn til Gísla og sátum þar stundarkorn. Vér kveiktum ekki. Það er annars nógu notalegt að sitja svona í hálfrökkrinu hjá góðum kunningjum og tala út um alla heima og geima. En það er ekki gaman að sjá annan sitja undir kærustunni og sjá hana láta dátt að honum með öllu móti, sjá hana kyssa hann, faðma hann að sér og mæla til hans blíðum orðum; þetta varð ég þó að þola því Gísli sat undir Geir og Geir lét dátt að honum en leit ekki við mér. Ég held að ég hafi sannarlega fundið til afbrýðisemi en hún var fjarskalega væg eins og eðlilegt er því þótt Geir sé kærastan mín þá er hann ekki kærastan mín. Maður hefur víst aldrei jafnheita ást á pilt og meyju.[13]
Elskan mín – kærastan mín – ég ann honum. Ýmsir fræðimenn hafa bent á mikilvægi þess að líta á slíkar yrðingar í ljósi þeirra tíma þegar þær voru sagðar, að það sem kunni að virðast erótísk tjáning á okkar dögum hafi ekki endilega verið það á 19. öld. Um þetta hafa sagnfræðingarnir Sigurður Gylfi Magnússon og Sigrún Sigurðardóttir ritað þar sem þau fjalla um vinasambönd ungra manna á 19. öld, rómantíska vináttu pilta og víkja að dagbók Ólafs Davíðssonar.[14] Ungir menn áttu á þessum tíma næsta lítinn aðgang að hinu kyninu fyrr en við trúlofun og hjúskap, einkum í hinum efri stéttum. Við þær aðstæður er það einn þáttur í þroskaferli unga mannsins að finna heitum tilfinningum stað í vináttu við aðra pilta á líku reki. Innileikinn finnur þar sinn farveg, þar á pilturinn kost á sálufélögum. Mögulega má taka ýmsum orðum Ólafs Davíðssonar um vin sinn Geir með slíkum fyrirvara. En þegar ummæli hans í dagbókinni um aðra félaga eru skoðuð er þar fátt um blíðmæli þótt hann fari um ýmsa góðum orðum, til dæmis Gísla Guðmundsson sem hann virðist meta mest til sálufélags í skóla. Ekki er að sjá að Ólafur eigi slíkt sálufélag við Geir um hugðarefni, áhugamál, gleði og raunir. Hann er einfaldlega of ungur og barnalegur til að gefa félaga sínum kost á slíku. Ólafur er öðrum þræði leiðbeinandi hans, jafnvel uppalandi, til dæmis þegar hann veitir honum áminningu fyrir að sinna illa námi sínu í maþematík og segir „að honum væri skammar nær að lesa hana“.[15] Aðdráttarafl Geirs er bersýnilega af öðrum toga og trúlega er ástæðunnar að leita í þeirri einkunnargjöf sem áður var lýst – fríðastur pilta í bænum.
En sé líkamlegur þokki piltisns það sem dregur Ólaf´Davíðsson að honum þá hefur hann engar forsendur til að staðsetja þær tilfinningar sínar á þann hátt sem mönnum varð eiginlegt á 20. öld. Ólafur þekkir ekki orð nútímamanna um þær ástríður sem karlar kunna að bera til kynbræðra sinna, einu skírskotunina sem hann þekkir í þá veru er að finna í grískum ritum fornaldar um það sem á hans dögum í skóla var nefnt sveinaástir (gr. παιδεραστία, paiderastia). Samkynhneigð sem sjálfstæður eiginleiki var ekki til í almennri vitund vesturlandamanna lengst af 19. öld, að girnast sitt eigið kyn var tilfallandi ástand, synd eða glæpur, allt eftir því hvar drepið er niður í sögu þjóða, laga og réttar. Þar með er ekki sagt að sú ástríða hafi ekki verið til og fundið sína útrás – hún er jafngömul mannkyni eins og elstu rit heims á borð við Gilgamesh-ljóðin sýna.
Í þeim heimi sem ekki þekkir félagslegt inntak þessa andstæðupars, samkynhneigð – gagnkynhneigð, hlýtur Ólafur Davíðsson að stefna að því marki að nálgast stúlkur, læra að girnast þær og elska. Félagslegur veruleiki ástar og losta er alfarið af ætt gagnkynhneigðarinnar. Í því sambandi eru heilabrot unga mannsins um kvenlegan þokka athyglisverð. Hann kann ekki að dansa og harmar að eiga ekki kost á þeirri einu líkamlegu nánd kynjanna sem er félagslega viðurkennd fyrir hjónaband í Reykjavík, að snertast í dansi. Það verður tilefni eftirfarandi hugleiðinga:
Mér finnst annars að kvenfólkið missi mikið af yndisljóma þeim sem á að hvíla yfir því þegar vér lítum á það úr lítilli fjarlægð. Þá hljótum vér að sjá hve fegurð þess er ófullkomin og oss hlýtur að stökkva hæðnisbros er vér rifjum upp fyrir oss hinar ljúffengu lostætu lygaklausur sem skáldin hafa látið og láta rigna ofan yfir það. Ég tala einungis í líkamlegu tilliti. Aftur fer því stórum fram er vér lítum á það úr fjarska eða nánd, er vér skoðum það í huga vorum eða snertum það. Karlmaðurinn, sveinninn, getur víst ekki bundist þess að hafa einhverja óljósa hlýleika tilfinningu fyrir kvenfólkinu og breiða yfir það engilfagra fegurðarblæju í huga sínum en ef hann fer svo að skyggnast eftir blæjunni og færir sig nær kvenfólkinu þá verður hún að engu. Þá sér hann ekki nema tangur og tötur af henni.[16]
Hér verður ekki betur séð en dagbókarritari sé beinlínis að glíma við þá líkamlegu andúð sem þeir þekkja sem einungis leggja girndarhug á eigið kyn þótt ekki verði lesið úr orðum hans að hann geri sér grein fyrir eðli þeirrar glímu. Í lok þessara hugleiðinga um líkamlegan þokka kvenna bætir hann við: „Aftur helst víst tilfinning hans ef hann færir sig nógu nærri því [þ.e. kvenfólkinu], ef hann snertir það.“ Ekkert í textanum bendir þó til þess að Ólafur Davíðsson búi að slíkri reynslu.
Er skýringarinnar á þeirri tilfinningatjáningu, sem tvístígur svo, kannski að leita á stað einum í dagbókinni þar sem svo virðist sem lostinn hafi tekið völdin og sameinast vinarþelinu – kvöld eitt með Geir? Svo sterk eru áhrifin sem fylla hann það kvöld að hann finnur sig knúinn til að réttlæta gerðir sínar og tilfinningar. Hann áttar sig á því að nautnin sem hann uppgötvar stríðir gegn bókstaf biblíunnar en er fullur gagnrýni á þann bókstaf, enda hatast hann við gamlar kreddur og siði og ítrekar stundum þá andúð sína í dagbókinni. En Ólafur er prestssonur og þekkir þá ritningarstaði sem kvalið hafa margan manninn. Í frásögn sem hann færir í letur 29. apríl 1882 finnur hann sig knúinn til að efast um þá skoðun að sannkristið líf hljóti að felast í því að krossfesta holdið og hvatir þess. Þar bergmálar dagbókarritari fleyg orð Páls postula til Galatamanna: „En þeir, sem Krists eru, hafa krossfest hold sitt með þess girndum og tilhneigingum.“[17] Boðorð Páls er skýrt: Enginn fær þjónað Kristi nema hann hemji holdsins fýsnir – krossfesti þær. Þessu andmælir hinn ungi Ólafur og kallar til raunsæi og skynsemi. Hann neitar með öðrum orðum að fyllast sektarkennd fyrir það að kannast við kenndir sínar og njóta þeirra:
Ég tók Geir með mér. Hann sefur hjá mér í nótt. Mér hefur aldrei þótt eins vænt um neinn og Geir. Hvað það var indælt að vefja hann að sér, leggja hann undir vanga sinn og kyssa hann svo. Loksins varð ég þó skotinn. En hvað er það að vera skotinn í karlmanni hjá því sem að vera skotinn í meyju? Ekkert segir náttúruvit mitt mér. Er það annars ekki röng skoðun að krossfesta holdið með girndum þess og tilhneigingum? Er ekki réttara fyrir mig að reyna til að hafa svo mikið af nautnum og unaði upp úr lífinu sem auðið er fyrir góðan og mannlegan mann? Það held ég.[18]
Enn má spyrja: Skyldi það vera tilviljun ein að daginn eftir þessa góðu nótt finnur Ólafur hvöt hjá sér til að ræða „mest um holdlegan munað og sveinaást“ við náinn vin sinn og frænda, Guðmund Magnússon, á gönguferð þeirra um holtin eftir að skóla lýkur?
Lengra nær sú saga ekki og sjaldan er minnst á Geir Sæmundsson það sem eftir er dagbókarinnar ef undan er skilin saklaus sælustund tveggja vina í lautu (9. maí) og stakur sviptivindur afbrýðisemi sem blæs um dagbókarritara (14. maí). Í byrjun sumars varð Ólafur Davíðsson stúdent, kvaddi skólalíf í Reykjavík, reið norður í Hörgárdal til að kveðja foreldra sína og systkini en sigldi síðan til náms í Kaupmannahöfn um miðjan ágúst. Í síðasta sinn sem Ólafur nefnir þá Hraungerðisbræður í dagbók sinni vorið 1882 sitja þeir saman þrír og spjalla þeir um ýmsar „bana-aðferðir“ en taka svo til við að þreifa eftir hjartslætti hver annars. Þá ber svo við að enginn hjartsláttur finnst hjá Ólafi „þótt vér þreifuðum um allt brjóstið og alla hliðina á mér“.[19] Einum kafla lífsins er að ljúka, eins og hjarta hans í Reykjavík sé hætt að slá. Nýtt líf er í vændum í nýju landi.
Um þann kynferðislega undirtón sem iðulega einkennir orð Ólafs Davíðssonar, þegar hann rekur samskipti þeirra Geirs Sæmundssonar, var lengi þagað og þegar dagbækur hans og úrval bréfa voru gefin út árið 1955 hafði nær öllum þeim stöðum verið eytt úr textanum þar sem hann víkur beinum orðum að þrá sinni til Geirs og atlotum þeirra. Þeim mun kostulegra er þetta í ljósi þess að hin útgefna bók bar heitið Ég læt allt fjúka, og er það tilvitnun í orð Ólafs sjálfs.[20] Hann þótti að upplagi óvenju hispurslaus maður og af nokkrum stöðum í dagbókinni má ráða að hann gerði ráð fyrir því að hún yrði varðveitt, honum og öðrum til upplyftingar síðar meir. Það var ekki fyrr en árið 1990 að Þorsteinn Antonsson rithöfundur vakti athygli á þessum stöðum í dagbókinni og birti þær í bók sinni Vaxandi vængir.[21]
Eyðurnar í dagbók Ólafs verðskulda nánari skoðun. Finnur Sigmundsson landsbókavörður bjó dagbókina til útgáfu og lagði bersýnilega alúð í verk sitt. Hann fellir ýmislegt fleira úr henni en það sem kann að vekja grun um hneigðir dagbókarritara til annarra pilta og allt eru það staðir sem ganga nærri mannorði ýmissa samferðamanna Ólafs. Þótt útgefandinn sé ekki ævinlega sjálfum sér samkvæmur í því verki má sjá að hann hefur til dæmis fellt burt tæpitungulausa lýsingu á ástandi drukkins skólafélaga svo og slúður um kvennafar og meintar barneignir elstu skólapilta í Lærða skólanum. Í annan stað lætur útgefandi vera að birta klámvísur sem Ólafur hefur eftir félögum sínum um nafngreinda menn þótt honum þyki þær bæði leiðinlegar og illa kveðnar en skráir samt. Þá hafa verið felldar burt frásagnir af viðskiptum pilts nokkurs við vændiskonur í Kaupmannahöfn, slúður um meint getuleysi prests eins í Borgarfirði og heimasmíðað hjálpartæki ástarlífsins sem Ólafur heyrir að fundist hafi í fórum tveggja nafngreindra kvenna í Reykjavík.[22] Skrásetjari alls þessa er frá æskuárum óseðjandi safnari hvers kyns sagna, tvítugur hefur hann dregið saman mikið skrýtlusafn, kostulegt mannlíf kitlar hann alla tíð og vekur stundum með honum óstöðvandi hlátur.[23] Hann lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hvort honum hugnast það sem hann skráir er önnur saga.
Varla er hægt að lá Finni Sigmundssyni þá háttvísi að vilja vernda mannorð þeirra, sem einkum tengjast slúðri um aðskiljanlegar kenjar holdsins í dagbók Ólafs, og þurrka út spor þeirra. Hálfri öld eftir andlát dagbókarritara stóð útgefandinn frammi fyrir sögusögnum um Íslendinga sem ýmsir þekktu og áttu sumir afkomendur. Í litlu landi, þar sem flestir vita deili á öðrum, ólíkt því sem gerist á meðal stærri þjóða, hafa menn lengi talið sér skylt að sýna nokkra nærgætni gagnvart náunganum, ættum hans og afkomendum, þegar færa skal líf í letur á bók.
Það er hins vegar merkilegt tímanna tákn að Finnur Sigmundsson fann sig knúinn til að grípa nær hvert orð Ólafs um hug hans til Geirs Sæmundssonar og stinga í poka með klámvísum og slúðri. Sú ritskoðun er umfram allt heimild um íslenskt vitundarlíf um miðja 20. öld. Árið 1955 voru samkynhneigðar ástir einfaldlega smánarlegri en svo í vitund þorra þjóðarinnar að hægt væri að vekja grun um slíkt í bók sem halda skyldi minningu Ólafs Davíðssonar á loft.
Því sannarlega var um að ræða mikilsvirtan mann. Ólafur átti eftir að verða einn af afburðamönnum íslenskrar menningarsögu, merkur brautryðjandi í náttúrufræðum, einkum grasafræði, auk þess sem hann ritaði brautryðjandaverk í sagnfræði og gerðist mikilvirkur safnari og útgefandi íslenskra þjóðsagna og þjóðfræða. Árið 1955 var óhugsandi að bendla slíkan mann við ástarhjal á öfugum nótum.
Sá undurfríði Geir varð síst ómerkari maður þótt í öðrum greinum væri, vinsæll sóknarprestur á Akureyri, vígslubiskup í Hólastifti fyrstur manna og annálaður söngmaður. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn nam hann söng hjá einum virtasta óperusöngvara Dana á 19. öld, Peter Jerndorff, og átti að mati manna frama í vændum á því sviði hefði hann valið tónlistina að ævistarfi.[24] Eins og í tilviki Ólafs var óhugsandi að bendla þann merkismann við náin atlot og holdlegar nautnir skólasveina forðum daga. Þó vitum við næsta fátt um þátt Geirs í þessari sögu, hún er öll sögð af sjónarhóli Ólafs Davíðssonar.
Að leggja ástar- og girndarhug á eigin kynbræður, um það vitna slitróttar heimildir Vesturlandabúa aftur í aldir eins og félagsfræðingurinn David F. Greenberg hefur rakið.[25] Stöku sinnum eru þær ástir hylltar, oftar er til þeirra vísað af fyrirlitningu og oftast eru þær fordæmdar. Eftir skeið umburðarlyndis í Norður-Evrópu á 19. öld í kjölfar stjórnarbyltingarinnar frönsku, hvað snerti íhlutun laga og réttar um ástir og einkalíf fólks, snerust vindar. Eftir að Prússar náðu undirtökum í nýju sameinuðu ríki Þjóðverja um 1870 voru endurvakin gömul lagaákvæði sem beindust að samkynhneigðu atferli karla. Andi hinna nýju laga barst til nágrannaþjóðarinnar í norðri, dönsk yfirvöld settu þjóðinni ný hegningarlög sem síðar voru lögð nær óbreytt fyrir ráðgefandi þing Íslendinga og samþykkt á Alþingi árið 1869. 178. grein þeirra hljóðaði svo: „Samræði gegn náttúrlegu eðli varðar betrunarhúsvinnu.“
Fleira breyttist í þessum efnum á síðari hluta 19. aldar. Byltingarkenndar breytingar urðu í opinberri orðræðu manna í Norður-Evrópu. Eins og sagnfræðingurinn Dagmar Herzog hefur rakið urðu nokkrir þættir til þess að gera kynhegðun og hvatalíf að opinberu umræðuefni þegar leið að aldamótum og var það nýjung í sögunni.[26] Nú kallaði vændi í vaxandi mæli á opinbera umræðu og ástæðan var einkum ótti borgaralegra stjórnvalda við útbreiðslu kynsjúkdóma. Í öðru lagi urðu þær raddir æ háværari undir lok 19. aldar sem kröfðust nothæfra getnaðarvarna og möguleika á að stjórna getnaði og barneignum. Í þriðja lagi nefnir Dagmar Herzog nýjar rannsóknir í læknisfræði og sálarfræði sem vöktu vaxandi athygli undir aldamótin 1900 og kyntu undir feimnislausum áhuga almennings á mannlegu hvatalífi; nú varð réttlætanlegt, ef ekki sjálfsagt, að leyfa sér að gægjast inn um glugga hins forboðna og leyndardómsfulla. Einn angi þeirrar þarfar og ekki sá veigaminnsti tengdist mökum karla við kynbræður sína. Það varð svo til að magna þennan áhuga sem fyllti fréttablöð, fjölmiðla þeirrar tíðar, þegar í hlut áttu þekktir einstaklingar, listamenn og stjórnmálamenn. Þegar hæst lét ægði öllu saman – háði og spotti, hneykslun og fyrirlitningu – og úr varð mikið siðafár.
Það sem nokkrum áratugum áður hafði þótt lítt merkilegur þáttur í hegðun manna, sem þó skyldi hafa hljótt um, varð undir lok 19. aldar eitt vinsælasta slúðurefni fjöldans, svo vinsælt að það teygði sig yfir landamæri. Um leið efldust yfirvöld í þeirri viðleitni víða í Norður-Evrópu að bæla og berja niður samkynhneigt atferli með auknu eftirliti lögreglu og málsókn fyrir dómstólum. Frægust slíkra mála eru þau sem sótt voru gegn Oscar Wilde og vöktu heimsathygli. Þeim lauk sem kunnugt er með fangelsisdómi árið 1895.
Öll þessi átök skildu þó eftir sig spor því að smám saman varð samkynhneigð að sýnilegu og sjálfstæðu fyrirbæri í vitund Vesturlandabúa.[27] Brátt reis upp virk barátta einstaklinga og félagasamtaka, yfir héruð og landamæri, til að berjast fyrir afnámi refsinga fyrir mök einstaklinga af sama kyni, einkum karla. Þegar saman fór samræða þessara hópa við endurteknar æsifréttir og vaxandi áhugi læknis- og sálarfræði á mannlegu eðli fór það fólk, sem þráði sitt eigið kyn til ásta, nú að líta svo á að það hefði sérstöðu, ætti sér sameiginlega sjálfsvitund og reynslu sem gefa yrði nafn. Til marks um það birtist hugtakið homosexualitet, sem sérstakur eiginleiki tiltekins hóps manna, fyrst í riti meðal þýskumælandi manna árið 1869, sprottið af þörf hópsins til að staðfesta tilfinningar sínar og verjast vaxandi ofsóknum og hertum lagasetningum. Það sem menn höfðu áður litið á sem sitt persónulega sérkenni, oftast veikleika eða löst, fóru þeir nú að sjá sem eðli sitt og upplag, jafnvel meðfætt, og því bæri að virða það. Um leið sá þetta fólk að það deildi mikilvægri reynslu með mörgum öðrum, það stóð ekki eitt á berangri, það var hluti af hópi.
Þessara hræringa varð vissulega vart í Kaupmannahöfn á síðustu tveimur áratugum aldarinnar og þarlend fréttablöð báru auk þess fréttir af því sem var að gerast í álfunni.[28] Þær kölluðu á nokkra opinbera umræðu þótt í veikum mæli væri en áttu hins vegar eftir að magnast til muna um leið og kom fram á nýja öld með svonefndum „siðgæðishneykslum“ sem skóku danskt samfélag. Hvort Ólafur Davíðsson þekkti til þessara átaka í álfunni, um það þekkir sá sem hér ritar engar heimildir, en varla hefur umræða daganna farið með öllu framhjá honum. Í Kaupmannahöfn dvaldi hann við nám og störf frá hausti 1882 til ársins 1897 að hann sneri heim til Íslands. Ekkert er vitað um ástarlíf Ólafs eftir að erótískum dagbókarfærslum æskuáranna sleppir og engum frekari sögum fer af ástum hans, hvorki með körlum né konum, enda kvæntist hann aldrei og eignaðist enga afkomendur. Eitt og annað mun þó hafa verið pískrað um hneigðir hans til karla í sveitum norðanlands og austan eftir að hann sneri heim.[29] Eftir heimkomuna vann Ólafur að fræðilegum hugðarefnum sínum, ýmist heima á Hofi eða á Möðruvöllum, og sinnti annað slagið kennslu við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum. Aldamótaárið 1900 varð Geir Sæmundsson prestur á Akureyri, þá kvæntur maður og faðir tveggja barna sem upp komust, en ekkert er vitað um samskipti þeirra Ólafs þau fáu ár sem þeir voru samtíða í Eyjafirði. Þó bendir stöku heimild til þess að Geir hafi ræktað vináttu við fjölskylduna á Hofi, enda voru þeir séra Davíð, faðir Ólafs, og Geir starfsbræður þar í firði.[30]
„Þegar ég er orðinn gamall og les dagbók þessa þá get ég með sanni sagt: Það voru kátir piltar í þá daga,“ segir Ólafur Davíðssson á einum stað í dagbók sinni og er bersýnilega skemmt þar sem hann skráir viðburði daganna.[31] Þeirrar skemmtunar öldungsins fékk hann aldrei notið. Endalok Ólafs eru kunnari en frá þurfi að segja. Hann drukknaði í Hörgá að kvöldi sunnudagsins 6. september 1903, 41 árs að aldri, einn á ferð á hesti sínum á heimleið eftir að hafa safnað fjörugróðri í rannsóknarskyni á Gásum allan þann dag.
Ólafur Davíðsson var jarðsunginn frá Möðruvallakirkju 15. september 1903 og var útför hans ein sú fjölmennasta sem menn minntust þar um slóðir. Margir hörmuðu sviplegt fráfall góðs og gáfaðs manns í ræðu og riti[32] og í minningu hans orti séra Matthías Jochumsson kveðjuljóð í sjö erindum sem flutt var af einsöngvara við útförina.[33] Þar er þetta að finna:
Hjartans vin, því fórstu frá oss?
Fannst þér kalt að vera hjá oss?
Hvar er ljós?
Og sá maður sem stóð í kór Möðruvallakirkju og söng þessar ljóðlínur – það var enginn annar en Geir Sæmundsson.
© Þorvaldur Kristinsson 2017. Greinin birtist upphaflega í tímaritinu Heimaslóð, 14. hefti, 2017.
Tilvísanir
- [1] Á síðustu árum hafa erlendir fræðimenn aftur á móti komið auga á stöku minningabrot og sjálfsævisögur frá 19. öld sem lýsa samkynhneigðri reynslu og skýrum samkynhneigðum sjálfskilningi karla, í nautn og kvöl. Þar má nefna bókina Queer Lives: Men’s Autobiographies from Nineteenth-Century France. Þýð. og ritstj. W.A. Peniston og N. Erber (Lincoln og London: University of Nebraska Press 2007). Bókin geymir átta stuttar sjálfsævisögur, með aðaláherslu þeirra sem rita á hvatalíf sitt og samkynhneigða reynslu, og birtust þær upphaflega á árunum 1867–1905.
- [2] Ólafur Davíðsson, Dagbók. Lbs. 2686 8vo, 25. mars 1882. Ritháttur og setning greinarmerkja eru hér og í eftirfarandi tilvitnunum færð til þess sem nú tíðkast. Jafnframt er stuðst við útgefna en ritskoðaða gerð dagbókarinnar í Ólafur Davíðsson, Ég læt allt fjúka: Sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1955).
- [3] Um Davíð Guðmundsson (1834–1905) og Sæmund Jónsson (1832–1896), sjá m.a. Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1948–1952) I, bls. 306 og IV, bls. 384. Sjá einnig Ólafur Davíðsson, Ég læt allt fjúka, bls. 78.
- [4] Ólafur Davíðsson í bréfi til Davíðs Guðmundssonar, 7. júlí 1882. Ólafur Davíðsson, Ég læt allt fjúka, bls. 90.
- [5] Ólafur Davíðsson, Dagbók. Lbs. 2686 8vo, 1. nóvember 1881.
- [6] Sama heimild, 23. mars 1882.
- [7] Sama heimild, 15. apríl 1882.
- [8] Sama heimild, 5. apríl 1882.
- [9] Sama heimild og dagsetning.
- [10] Sama heimild, 22. apríl 1882.
- [11] Sama heimild, 9. maí 1882.
- [12] Sama heimild, 2. apríl 1882.
- [13] Sama heimild, 28. mars 1882.
- [14] Sigurður Gylfi Magnússon, Menntun, ást og sorg: Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar (Reykjavík: Sagnfræðistofnun, Háskólaútgáfan 1997), bls. 252–255; Sigrún Sigurðardóttir, „Tveir vinir: Tjáning og tilfinningar á nítjándu öld“, Einsagan – ólíkar leiðir: Átta rigerðir og eitt myndlistarverk. Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon (Reykjavík: Háskólaútgáfan 1998), bls. 145–169.
- [15] Ólafur Davíðsson, Dagbók. Lbs. 2686 8vo, 8. apríl 1882.
- [16] Sama heimild, 11. apríl 1882.
- [17] „Sánkti Páls pistill til Galatamanna“ 5.24. Hið nýa testamenti (Oxford: Hið breska og erlenda biblíufélag 1863). Hér er sú þýðing valin til að sýna skyldleika biblíutextans við orð dagbókarritara. Í síðari biblíuþýðingum hefur þessi ritningarstaður tekið nokkrum breytingum.
- [18] Ólafur Davíðsson, Dagbók. Lbs. 2686 8vo, 29. apríl 1882. Leturbreyting er Ólafs sjálfs sem hefur undirstrikað þessi orð. Slík undirstrikun orða er sárasjaldgæf í handriti dagbókarinnar.
- [19] Sama heimild, 19. maí 1882.
- [20] Ólafur Davíðsson, Ég læt allt fjúka. Sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1955).
- [21] Þorsteinn Antonsson, „Sveinaást Ólafs Davíðssinar.“ Vaxandi vængir. Aftur í aldir um ótroðnar slóðir (Reykjavík: Fróði 1990), bls. 103–109. Greinarhöfundur þakkar Þorsteini fyrir dýrmætt framlag hans. Án hans leiðsagnar í umræddri grein hefði sá sem þetta ritar seint ratað á þá leyndu staði sem hér eru til umræðu.
- [22] Dæmi um þetta er allvíða að finna, sjá Ólafur Davíðsson, Dagbók, Lbs. 2686 8vo, t.d. 24. og 29. mars, 11., 16., 21. og 30. apríl, 6., 9. og 14. maí 1882.
- [23] Dæmi um áfergju Ólafs í sögur af kostulegu mannlífi eru mýmörg í dagbókinni og hve oft hann hlær að litlu tilefni. Ítarlegustu lýsinguna á hláturmildi hans er að finna í dagbókinni 13. maí 1882.
- [24] Um Geir Sæmundsson (1867–1927), sjá nánar Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, II, bls. 32; Eggert Briem, „Geir Sæmundsson vígslubiskup“, Morgunblaðið, 10. ágúst 1927.
- [25] David F. Greenberg, The Construction of Homosexuality (Chicago og London: University of Chicago Press 1988), sjá einkum kaflana „Repression and the emergence of subcultures“ og „The rise of market economies“, bls. 301–397.
- [26] Dagmar Herzog, Sexuality in Europe: A Twentieth-Century History (Cambridge: Cambridge University Press 2011), bls. 6–41.
- [27] Sama heimild, bls. 35–41.
- [28] Wilhelm von Rosen, Månens kulør: Studier i dansk bøssehistorie 1628–1912 II (København: Rhodos 1993), bls. 655–687.
- [29] Sjá Þorsteinn Antonsson, „Sveinaást Ólafs Davíðssonar“, bls. 103. Þorsteinn nefnir þar hvergi heimild sína, en í samtali við greinarhöfund kvað hann Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1902–1997) munnlegan heimildarmann sinn um það mál.
- [30] Valtýr Stefánsson, „Ég leynist við hlið þér sem hulda: Minningar um Ólaf Davíðsson“, Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1957, bls. 407. Valtýr (1893–1963) tilgreinir þar sögu um sættir þeirra feðga, séra Davíðs og Ólafs, þegar sonurinn kom heim að Hofi, próflaus eftir 15 ára útivist, og segir höfundur séra Geir Sæmundsson hafa tekið hana sem eitt ákjósanlegasta dæmi um fyrirgefninguna þegar hann bjó Valtý undir fermingu á Akureyri.
- [31] Ólafur Davíðsson, Dagbók. Lbs. 2686 8vo, 8. maí 1882.
- [32] Sjá t.d. Jón Þorkelsson, „Ólafur Davíðsson“, Þjóðólfur, 55. árg. 40. tbl. 1903; Einar Hjörleifsson, „Ólafur Davíðsson“, Norðurland, 2. árg. 52. tbl. 1903.
- [33] Matthías Jochumsson, „Ólafur Davíðsson fræðimaður“, Ljóðmæli. Fyrri hluti, frumort ljóð (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1956), bls. 407–408. Um útför Ólafs, sjá m.a. „Ólafur Davíðsson“, Gjallarhorn, 1. árg. 27. tbl. 1903.