Enn er hans minnst fyrir glímuafrek og áratuga starf í þágu íþróttanna. Þó fór svo fyrir duttlunga örlaganna að nú er hans oftar minnst sem sökudólgs í dómsmáli. Árið 1924 var hann kærður, hnepptur í varðhald og dæmdur til átta mánaða betrunarhúsvistar fyrir kynmök við aðra karlmenn. Þar var dæmt eftir 178. grein hegningarlaganna frá 1869: „Samræði gegn náttúrulegu eðli varðar betrunarhúsvinnu.“ Lög þessi giltu í 70 ár uns ný hegningarlög tóku gildi. Ekki er fullkannað hvort fleiri hlutu dóm á þessum árum fyrir brot á nefndri lagagrein, en eftir 1940 hafa ekki legið refsingar við mökum tveggja fullveðja einstaklinga af sama kyni hér á landi.
Guðmundur Sigurjónsson fæddist á Litluströnd í Mývatnssveit 15. apríl 1883, sonur hjónanna Friðfinnu Davíðsdóttur og Sigurjóns Guðmundssonar, næstyngstur tíu barna þeirra. Bræður Guðmundar og afkomendur þeirra bjuggu síðar á Grímsstöðum í sömu sveit. Af systkinum Guðmundar hefur minning Benedikts trúlega lifað lengst, hann var Fjalla-Bensi sá sem sagður er fyrirmynd nafna síns í Aðventu Gunnars Gunnarssonar.
Guðmundur Sigurjónsson ólst upp í sárafátækt en þótti snemma knár þótt lágvaxinn væri og ungur lærði hann að glíma og iðka skautahlaup. glíma Mývetninga fór ekki bara fram á sumrin heldur líka á ísilögðu Mývatni þegar menn sátu og dorguðu á vetrum. Þannig var léttara að halda á sér hita í frostinu, en í öðrum sýslum þótti þetta skrýtið uppátæki – að glíma á svelli!
Aldamótin næstsíðustu voru vakningarár ungmennafélagshreyfingarinnar sem á sinn sérstæða en einlæga hátt tvinnaði saman sjálfstæðishugsjónir Íslendinga og metnað til íþrótta. Nú voru þeir tímar þegar vekja skyldi æskuna af „doðadúr“ til líkama og sálar og í ljósi þeirra hugsjóna er nærtækt að skilja lífshlaup Guðmundar. Hann kom fyrst til Reykjavíkur haustið 1905, 22 ára, og ætlaði sér í verslunarskóla. Þá reyndist skólinn fullskipaður og aldrei settist Guðmundur á skólabekk á langri ævi. En hann kunni að glíma flestum betur, hóf æfingar með Glímufélaginu og sumarið 1907 var hann kominn í flokk pilta sem þreyttu kapp í konungsglímunni á Þingvöllum til heiðurs Friðriki konungi VIII. Ári síðar var Guðmundur kominn á fjórðu Ólympíuleikana í London þar sem flokkur Íslendinga sýndi íslenska glímu undir forystu Jóhannesar Jósefssonar.
Glímulag hans var sérstætt
Eftir að glímufélagið Ármann var stofnað var Guðmundur lífið og sálin í þeim félagsskap um tugi ára. Þar átti hann samfellda sigurgöngu og var það mál manna að Guðmundur væri snjallasti glímumaður landsins í sínum þyngdar- og stærðarflokki á fyrstu árum aldarinnar. „Glímulag hans var sérstætt,“ segir í heimildum, „fáir náðu að læra það og enn færri að beita stígandi þeirri er hann tamdi sér. Hann lagði oft keppinauta sér sterkari og stærri með undralítilli fyrirhöfn. Þar kom til hugsun hans, útsjónarsemi og leikni í brögðum.“ Á næstu árum ferðaðist Guðmundur um landið á vegum Ungmennafélags Íslands og kenndi íþróttir, var fyrsti umferðarkennari í sögu þess félags og eftirsóttur leiðbeinandi. Því lauk þegar hann hélt til Englands árið 1913 til að læra íþróttaþjálfun og nudd en þaðan lá leiðin til Vesturheims.
Fálkar hlaðnir gulli
Í Kanada snerist líf Guðmundar sem fyrr um íþróttir, þar lærði hann grísk-rómverska glímu og ísknattleik sem hann lék með Winnipeg Falcons og varð brátt þjálfari þeirra, en nær allir í liði Fálkanna voru af íslenskum ættum. Þegar heimsstyrjöldin braust út gat Guðmundur eða Gordon Sigurjonsson, eins og hann nefndist, ekki hugsað sér að sitja hjá og árið 1916 slóst hann í hóp sjálfboðaliða í kanadíska hernum sem héldu á vesturvígstöðvarnar í Evrópu. Þar starfaði hann til ársins 1919 sem hjúkrunarmaður í fremstu víglínu og veitti særðum fótgönguliðum þá hjálp sem hægt var að veita. Síðar vildi hann sem minnst um þessa reynslu sína tala.
Starfsemi Winnipeg Falcons lagðist af á stríðsárunum enda börðust félagarnir allir á vígvöllum Evrópu, en þegar heim kom tóku þeir upp þráðinn og hófu að æfa undir forystu Guðmundar. Eftir frækna sigra á heimaslóðum voru þeir svo valdir árið 1920 til að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Antwerpen, og var það í fyrsta sinn sem ísknattleikur varð viðurkennd ólympíugrein. Skemmst er frá að segja að Fálkarnir sigruðu alla andstæðinga sína með yfirburðum og komu heim hlaðnir gulli. Guðmundur fór þó ekki vestur um haf með félögum sínum heldur hélt hann til Svíþjóðar þar sem hann sinnti þjálfun en kom svo heim til Íslands í lok árs 1920 eftir sex ára útivist. Þá var hann 37 ára og átti að baki ævi sem var ævintýri líkust.
Ofurseldur sorglegum lesti
Aftur hóf Guðmundur störf í Reykjavík sem glímukennari, þjálfari í frjálsum íþróttum og nuddari íþróttamanna. Þá gerðist hann gæslumaður geðsjúkra á útibúi kleppsspítala við Laufásveg sem kallaðist Litli-Kleppur, starfaði með guðspekihreyfingunni, spíritistum og góðtemplurum, enda mikill bindindis- og hugsjónamaður, andlega sinnaður og athafnasamur með afbrigðum. Fyrir góðtemplara sinnti hann því sérstæða hlutverki að upplýsa lögregluna um sprúttsölu því nú voru bannár á Íslandi. Það starf átti eftir að kalla yfir hann mikla ógæfu.
Það orð virðist snemma hafa farið af Guðmundi að hann liti aðra pilta hýru auga. Um það vitnar tvíræður kviðlingur sem kveðinn var um hann og hlutverk hans í London 1908, en hann var fánaberi hópsins sem sýndi þar íslenska glímu:
Gvendur undan gutta her
gekk og bar sinn klafa,
af því hann á eftir sér
enginn vildi hafa.
Á þeim árum var samkynhneigð nær hvergi höfð á orði nema í klámvísum og kjaftasögum og varla væri nokkurri vitneskju til að dreifa um hneigðir Guðmundar ef ekki hefði dregið til tíðinda í janúar 1924. Þá barst lögreglu kæra frá Steindóri nokkrum Sigurðssyni þar sem hann sakar Guðmund Sigurjónsson um illa meðferð á því fólki sem hann annaðist á Litla-Kleppi. En kærandinn hafði fleira saknæmt fram að færa:
„Það orðspor hefur legið á Guðmundi og verið að umtali hér í bænum að hann hefði sterka tilhneigingu til að hafa samræði við sitt eigið kyn (homosexualisme). Sjálfur hefi ég í umgengni minni við Guðmund að mestu sloppið við þetta utan einu sinni á Akureyri í sept. sl. þegar ég er staddur á herbergi hans, reyndi hann þá að sýna mér ástaratlot og gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá mig til að sýna sér blíðuatlot og að fá mig til að hneppa frá mér buxnahnöppunum o.s.frv. en þess utan hefi ég af umgengni við Guðmund og kunningja hans komist að því að Guðmundur er ofurseldur þessum mjög svo sorglega lesti.“
Tíu dögum síðar barst annað bréf frá Steindóri þar sem hann dró kæruna til baka og sagði hana til komna fyrir tilstilli nokkurra andstæðinga Guðmundar sem stunduðu leynivínsölu. Hefðu þeir viljað hefna sín á honum fyrir að hafa lagt lögreglunni lið við að ljóstra upp um iðju þeirra. Í bréfinu segir Steindór þá hafa heitið sér fé þegar Guðmundur væri kominn í fangelsi.
Úr landi með hann!
Marklaus kæra eða hvað? Hér mætti ætla að málið hefði verið látið niður falla, en lögregla var þá tekin að yfirheyra menn og eftir að hafa borið sig upp við dómsmálaráðuneytið var Jóhannesi Jóhannessyni bæjarfógeta fyrirskipað að taka málið til meðferðar. Hann var tregur til og sá fyrir sér að virðingu margra væri stofnað í hættu. Í bréfi til dómsmálaráðuneytisins bendir Jóhannes á að kærður sé „mjög hátt settur í Goodtemplarreglunni og myndi þá falla mikill blettur á hana ef böndin bærust að kærðum í opinberri rannsókn þótt ekki yrði hann talinn sannur að sök. með tilliti til þess, hvernig kæran er til komin og sérstaklega þess, að nauðsynlegt væri að geta losnað við mann með ágalla þeim, sem kærðum er gefinn að sök, þættu mér merkilegust úrslit þessa máls vera þau, að kærður færi af landi burt og málið væri svo látið niður falla og þykir mér mjög sennilegt að Goodtemplarreglan mundi vilja vinna að því, að þau mállok yrðu.“
Hér er komið eitt elsta dæmi sögunnar um hugsun sem síðan lifði lungann úr öldinni: Ekki aðeins var kynvillan versti smánarblettur sem hægt var að hugsa sér. Hún var umfram allt útlendur ágalli og varla annað ráð við henni ef upp kæmi á Íslandi en að senda menn af landi brott – þangað sem hún var upp runnin.
Yfirheyrslur og gæsluvarðhald
Nítján einstaklingar voru kallaðir til yfirheyrslu lögreglunnar, allt karlar nema Valgerður ráðskona á Litla-Kleppi. Vitnaleiðslur hófust í lögreglurétti Reykjavíkur 28. febrúar 1924 og þeim lauk 12. mars. Magnús Magnússon, fulltrúi bæjarfógeta, stýrði þeim og kallaði fjórtán manns fyrir réttinn. Brátt varð ljóst að lítið hald var í ásökunum um illa meðferð Guðmundar á sjúklingunum á Litla-Kleppi.
Eðli málsins samkvæmt var hins vegar erfiðara að sanna eða afsanna áburðinn um kynmök hans við karla en sjálfur neitaði sakborningur staðfastlega öllu því sem á hann var borið.
Ekki verður sagt að mál Guðmundar hafi verið tekið neinum vettlingatökum. Strax eftir fyrstu yfirheyrslur yfir vitnum og sakborningi var Guðmundur úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrunarvist. Viku síðar gafst hann upp og játaði þá að hafa átt mök við suma þá karlmenn sem leiddir höfðu verið fyrir réttinn og raunar ýmsa fleiri síðustu 15–18 ár. Í dómsorðunum segir:
„Ákærður segist aldrei hafa gert mjög mikið að þessu en alltaf nokkurn veginn jafnt. Hann segir að fýsn sín til þessa sé eigi mjög sterk og hann geti vel látið á móti henni, en segist hafa álitið að þetta væri hvorki syndsamlegt né refsivert. Hann segist hafa fullkomna samræðishneigð til kvenmanna og hafa gert talsvert að því að hafa holdlegar samfarir við þá. Ákærður hefur neitað því að hafa nokkru sinni haft holdlegar samfarir við unglinga innan 16 ára aldurs og ekkert hefur komið fram í prófum málsins sem veikti þá neitun hans.“
Þá þótti sannað af vitnisburðum og játningu að ákærði og þrjú vitni hefðu átt kynmök saman, einkum með því að fróa sér, tvisvar til þrisvar sinnum með hverjum þeirra. Hefði „samræði þetta átt sér stað án nokkurrar nauðgunar af hendi ákærðs og að því er virðist af nokkurn veginn fúsum vilja hjá vitnunum.“
Margt kemur nútímalesanda kynlega fyrir sjónir í dómsskjölunum. Smámunasamar lýsingar í yfirheyrslunum á tilburðum til kynlífs lýsa ekki beinlínis sakleysi vitnanna og ekki er laust við að sumum þeirra virðist nokkur nautn að frásögnum sínum. nema ritari réttarins hafi fært óvenju vel í stílinn þessa vetrardaga! Þá er það sérkennilegt við málið að þótt sumir þessara manna játi að hafa gengið til leiks með Guðmundi án nauðungar er hvergi að sjá að þeir teljist sjálfir hafa til saka unnið. Samkvæmt lögum voru þó báðir aðilar sekir ef sekt sannaðist. Að baki þessu lá trúlega sá skilningur að ef einangra ætti meinið og útbreiðslu þess bæri að líta á þann eldri sem meinvaldinn. Enda má í dómsskjölunum sjá tilhneigingu til að yngja upp vitnin eins og til að undirstrika varnarleysi æskunnar í málinu. Til dæmis er 23 ára karlmaður þar titlaður „unglingur, Vesturgötu 14B“. Hvað sem þessu líður var öllum réttarreglum fylgt af samviskusemi og Guðmundi boðinn talsmaður, ígildi verjanda á þeim tíma, en hann afþakkaði.
Úrelt hegningarlög
Guðmundur Sigurjónsson var dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir samræði gegn náttúrulegu eðli en sýknaður af áburði um illa meðferð sjúklinga. Hann hóf ekki að afplána dóm sinn fyrr en níu mánuðum eftir að hann féll, í janúar 1925, en var náðaður eftir þriggja mánaða vist í fangelsinu á Skólavörðustíg. Þá var löngu orðið hljótt um mál hans opinberlega. Aðeins einn maður kom honum til varnar eftir að dómur féll, Guðmundur Thoroddsen læknir. Hann ritaði dómsmálaráðherra bréf og kvað sér ofboðið við að frétta að slíkir dómar væru dæmdir hér á landi. Fór hann hörðum orðum um yfirvald á villigötum í skjóli úreltra hegningarlaga og lagði til að nafni hans yrði náðaður. Það er athyglisvert að hér tekur læknir til máls, fulltrúi þeirrar stéttar sem um þetta leyti var að breyta samkynhneigð úr glæp í sjúkdóm og rækta þar nýja hjörð sjúklinga næstu áratugi. En Guðmundur Thoroddsen fer hér allt aðrar leiðir, hann tekur til máls sem róttækur talsmaður mannréttinda og forðast í bréfi sínu að sjúkdómsvæða hneigðir hins dæmda. Í hans augum er hér um að ræða einkamál þeirra sem í hlut eiga:
„Ég hef, sem kennari í réttarlæknisfræði við Háskólann, athugað hvernig réttarmeðvitund manna um kynvillu hefur breyst á seinni árum í útlöndum, þar sem kynvilla er miklu útbreiddari en hér hjá oss og þori nú að fullyrða, að í öllum nágrannalöndum okkar er hætt að hegna fyrir kynvillu ef unglingar eru ekki tældir eða menn teknir með valdi (nauðgað) eða vakið er opinbert hneyksli. Og það er jafnvel hætt að hegna fyrir kynvillu í löndum sem hafa enn jafn úrelt hegningarlög og vér, og því síður mundi vera hegnt fyrir athæfi sem aðeins mætti kalla gagnkvæma masturbatio milli fullorðinna karlmanna.“
Flugvöllur og friðarhöll
Fátt segir af Guðmundi Sigurjónssyni fyrstu árin eftir þessa atburði, en vitað er að eftir dóminn hraktist hann úr Ungmennafélagi Reykjavíkur þar sem hann var áhrifamaður. Um 1930 var hann aftur tekinn að starfa í íþróttahreyfingunni og árið 1942 hóf hann að kenna glímu hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur. Þá hafði hann tekið sér ættarnafnið Hofdal. Sagt er að í ÍR hafi hann átt manna mestan þátt í því að vekja glímuna af dvala og kalla til liðs ýmsa Mývetninga af nýrri kynslóð sem brátt komust í hóp fremstu glímumanna okkar. Það er til marks um traust manna að árið 1948 fylgdi Guðmundur liði Íslendinga á Ólympíuleikana í London sem nuddari íþróttafólksins. Hans síðasta verk í ellinni var að semja kennslubók í glímu og taka þátt í því að endurskoða íslenskar glímureglur.
Guðmundur þótti glaðvær og greiðvikinn félagi, „grínisti góður“ en nokkuð stríðinn. Aldrei varð hann auðugur en taldi sig þó ekkert skorta og ekki bar hann á sér seðlaveski. Síðari áratugi ævinnar bjó hann lengstum á Hjálpræðishernum í Reykjavík.
Hugðarefnin voru mörg og sveitunga sína studdi hann með ráðum og dáð, jafnvel stórgjöfum. Eftir að hann eignaðist landspildu við Sandvatn, vestan Mývatns, lét hann ryðja þar flugvöll árið 1946 til að bæta samgöngur og auka straum ferðamanna.
Um tíma hafði hann í huga að byggja þar gistihús, gott ef ekki „friðarhöll“ að hætti guðspekisinna, en ekkert varð úr því og loks gaf hann kvenfélaginu í sveitinni landið.
Svo veistu að þú varst ekki hér
Fáum sögum fer af því hvernig Guðmundi leið með lífsreynslu sinni en þó glittir þar í sært stolt og varnarstöðu þess sem á jaðrinum stendur. Hann sætti sig aldrei við málalyktir þótt refsitíminn hefði verið styttur til muna, en sótti um uppreisn æru og hlaut hana með konungsbréfi sem Kristján X undirritaði á sumarsetri sínu, Marselisborg, í ágúst 1935.
Lengi var samt hvíslað um eðli hans heima í sveitinni þótt lágt færi. Um það vitnar lítil saga af balli í Mývatnssveit, en þar var Guðmundur hrókur alls fagnaðar enda ágætur dansari. Þegar tískudansinn Boomps-a-daisy barst til landsins um 1940 varð hann fyrstur manna til að stíga hann heima í sveitinni eitt sumarið og sveiflaði dömunni í kringum sig af öryggi og festu. Var þá hvíslað svo ungur maður heyrði: „Ætli hann sé nú búinn að fá réttar áttir?“
Önnur saga og átakanlegri hefur líka varðveist. Eitt sinn fyrir löngu brá ungur Mývetningur sér til Reykjavíkur og hitti Guðmund þar sem hann bjó á Hjálpræðishernum. Þegar þeir kvöddust sagði sá eldri við þann yngri: „Svo veistu að þú varst ekki hér,“ en ekki botnaði pilturinn í því hvað Guðmundur var að fara. Það var ekki fyrr en árið 2008, þegar hann aldraður maður heyrði í fyrsta sinn vikið að hremmingum Guðmundar í sjónvarpsþætti, að hann skildi hvað í orðunum lá. Á sveitunga hans íþróttakappann hafði eitt sinn fallið smán sem ætla má að hafi hvílt á honum eins og mara alla tíð síðan, dæmdur í þeirri litlu Reykjavík fyrir að spilla ungum mönnum. Hvað stoðar manninn eitt konungsbréf?
Útlend óværa
„Stóra kynvillumálið“ eins og það var kallað markaði að því leyti tímamót í sögunni að hér varð samkynhneigð íslensks manns í fyrsta sinn fréttaefni í blöðum. Á fyrstu árum aldarinnar höfðu íslensku blöðin stundum tæpt á „kynvilluhneykslum“ en þar var alltaf um útlenda spillingu að ræða. Nú hafði óværan sannanlega borist til landsins, enda segir Magnús Magnússon dómarafulltrúi, sem stjórnaði réttarhöldunum, frá því í minningum sínum að Guðmundur hafi að eigin sögn vanist á mök við aðra karla í skotgröfunum í Þýskalandi á heimsstyrjaldarárunum. Um það höfum við aðeins orð Magnúsar því þetta kemur hvergi fram í dómsskjölunum þótt ekki skorti þar ítarlegar lýsingar á meintu ástarlífi Guðmundar Sigurjónssonar. útlend skyldi kynvillan vera!
Það er líka dæmigert fyrir stöðu samkynhneigðar í vitundarlífi þjóðarinnar að málefnið var í raun handan hinnar opinberu þjóðfélagsumræðu. Þær fáu fréttir sem sagðar voru af „stóra kynvillumálinu“ voru svo smáar að erfitt er að koma auga á þær í blöðum. En þeim mun meira var um þær skrafað. „Um fátt er meira talað hér í bænum,“ segir í blaðafréttum og um það vitnar Magnús dómarafulltrúi í minningum sínum þegar hann segir umtalið hafa verið slíkt að hann hafi ekki fengið frið fyrir símanum á meðan hann réttaði í málinu. Um leið er ekki laust við að Magnús Magnússon fyllist nokkru ergelsi yfir breyttum tíðaranda þegar hann rifjar upp málaferlin fjórum áratugum síðar: „nú mundi það ekki vekja neina eftirtekt, því að fjöldi manna og það jafnvel ekki af verra taginu eru sagðir „hommar“, og mun jafnvel ekki fjarri, að það þyki „fínt“ og bera vott um háþroskað listamannseðli.“
Fuglasöngur í Reykjahlíð
Guðmundur Sigurjónsson lést í Reykjavík 14. janúar 1967. Haldin var kveðjuathöfn yfir honum þar, en fimm mánuðum síðar, 14. júní, var hann jarðsunginn frá Reykjahlíðarkirkju við Mývatn og grafinn í reit fjölskyldu sinnar. Margir urðu til að minnast hans í blöðum. Rifjaðar voru upp minningar um ljúfan en einbeittan leiðbeinanda, orðheldinn og tryggan félaga sem aldrei lagði illt til nokkurs manns. Á auðmýkingar hans veturinn 1924 var hvergi minnst. Sagt er að þegar Guðmundur fann dauðann nálgast hafi hann mælt svo fyrir að hann skyldi ekki grafinn fyrr en að sumri – svo fuglarnir fengju að syngja yfir honum. Hvort rétt er eftir haft skal ósagt látið, en svo mikið er víst að þannig kusu Mývetningar að minnast hans: Hann er sá eini af sveitungum þeirra sem beðið hefur sérstaklega um Fuglakórinn við útförina sína.
Helstu heimildir
- Þjóðskjalasafn Íslands. Skjöl í máli Guðmundar Sigurjónssonar. Stjórnarráð Íslands I, 1. db. 6, nr. 882.
- Þjóðskjalasafn Íslands. Bæjarfógetinn í Reykjavík.
- Dómabók 1923–1925. VII, 28.
- Ágúst Ásgeirsson. 2007. Heil öld til heilla: Saga ÍR í 100 ár. Reykjavík: Íþróttafélag Reykjavíkur.
- Bjarni Bjarnason. 1967. „Minning – Guðmundur S. Hofdal.“ Tíminn, 25. janúar.
- Eysteinn Þorvaldsson. 1967. „Guðmundur S. Hofdal – Minning.“ Skinfaxi 58 (1).
- Frímann. 1967. „Minning – Guðmundur S. Hofdal.“ Þjóðviljinn, 25. janúar.
- Magnús Magnússon. 1969. Syndugur maður segir frá, Reykjavík: Leiftur.
- Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. 2007. „Iceland 1860–1992: From Silence to Rainbow Revolution.“ Criminally Queer, Amsterdam: Aksant.
- Þorsteinn Einarsson. 1967. „Guðmundur Sigurjónsson Hofdal – Kveðjuorð.“ Morgunblaðið, 25. janúar.
Ég þakka Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur, Baldri Þórhallssyni og Kolbirni Arnljótssyni og sem færðu mér munnlegan fróðleik eftir eldri Mývetningum. Einnig þakka ég Jóni M. Ívarssyni sagnfræðingi fyrir að benda mér á heimildir og færa mér myndir.
Eftirmáli
Eftir að grein þessi birtist í Dagskrárriti Hinsegin daga 2012, hélt höfundur hennar áfram rannsóknum sínum á sögu Guðmundar Sigurjónsson og gildi hennar fyrir sögu samkynhneigðra á Íslandi. Afrakstur þeirra rannsókna birti hann í bókinni Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi (Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Sögufélag 2017). Grein Þorvaldar í þeirri bók nefnist „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli: Réttvísin gegn Guðmundi Sigurjónssyni 1924“ og skal til hennar vísað lesendum til frekari fróðleiks.