Bangsarnir styðja HIV-Ísland

Bangsarnir styðja HIV-Ísland

Frosti Jónsson og Páll Guðjónsson, ásamt fleirum, hafa staðið fyrir samveru Bears on Ice - Ísbangsa á hverju hausti síðan árið 2005. Síðustu þrjú ár hafa Ísbangsar styrkt HIV-Ísland með peningagjöf og skilar það sér beint í fræðslustarfið.

Í ár færðu Ísbangsar HIV-Íslandi 300 þúsund krónur. Ástæðuna fyrir styrknum segir Frosti fyrst og fremst vera þá að þeir vilji styðja það góða starf sem að þar fer fram. „Það skiptir máli að halda uppi upplýstri umræðu, ekki bara út á við til samfélagsins heldur líka inn á við í okkar samfélagi, ekki síst til þess að upplýsa og fræða. Svo er þetta til að sýna í verki smá þakklæti fyrir það frábæra starf sem HIV samtökin eru að vinna. Það versta sem gæti gerst er að þessi umræða annað hvort falli í dvala eða nái ekki upp á yfirborðið.“

Fulltrúar Bears on Ice og stjórn HIV-Ísland
Fulltrúar Bears on Ice og stjórn HIV-Ísland

Bears on Ice er viðburður skipulagður af sjálfboðaliðum og rekinn án hagnaðarsjónarmiða. „Bears on Ice er fyrst og fremst fyrir karlmenn sem vilja skemmta sér með öðrum karlmönnum en við erum líka að höfða til útlendinga og vera ástæða fyrir þá til að koma og sjá og upplifa það sem er að gerast hérna á Íslandi.“ Á síðasta ári hafa um 200 manns ferðast til landsins og hluti af þeim hafa tekið þátt í allri dagskránni en aðrir taka aðeins þátt í völdum dagskrárliðum. „Við höfum verið að reyna að opna viðburðinn og reyna að ná meira til íslensku senunnar, ná til Íslendinganna og það hefur orðið mikil breyting þar á á síðustu þremur árum. Við erum farnir að sjá miklu fleiri Íslendinga mæta á dansleikina og þess háttar.“ Það sem fer fram á þessari fjögurra daga hátíð eru meðal annars ferðalög til að njóta íslenskrar náttúru, matur, músík og menning. Hátíðin stækkar milli ára eingöngu vegna góðs orðspors því enginn peningur fer í markaðssetningu.

Páll, Einar og Frosti
Páll, Einar og Frosti

Frosti vill meina að það sé vel hægt að hafa gaman og vera pólitískur. „Mér finnst að það megi alveg segja að þetta sé ákveðið statement sem felist í okkar nálgun. Við viljum gera þetta á jákvæðum og uppbyggilegum nótum og nálgast umræðuna á þeim forsendum þótt málefnið sé grafalvarlegt. Þetta er líka spurning um hversu móttækilegt fólk er fyrir skilaboðum og oft er það móttækilegra ef maður nálgast hlutina með þessum hætti. Það er bara rosalega mikilvægt að þessi umræða um HIV og PrEP og um heilsufar almennt, sé ekki umræða sem fari bara fram í lokuðum rýmum. Það þarf að vera jafn mikil vitundarvakning meðal almennings og okkar hommana. Viðhorf og bábiljur eru ansi fljótar að hreiðra um sig ef ekkert er gert.“ Starfsemi HIV-Íslands er vel kynnt meðal Ísbangsa og HIV-Ísland þakkar kærlega fyrir peningagjöfina.

Atli Þór Fanndal, ritstjóri Rauða borðans 2017.


Birtist upphaflega í Rauða Borðanum riti HIV-Ísland sem kom út 1. desember 2017. Rauði borðinn er að vanda fullur af fróðleik og viðtölum. Hér má nálgast útgáfuna í ár og fyrri ár: Rauði borðinn

GayIce.is og Bears on Ice er rekið af sömu aðilum og þeir eru líka hluti þeirra sem reka Samkynhneigð.is. Í anda þess sem kemur fram í greininni var það gert að taka upp málstofu HIV-Ísland 1. des 2017 og birta hér eins og má sjá í tengdum greinum og undir Pistlar > Erindi og viðtöl í valmynd.

Rauði Borðinn. 2017

Rauði borðinn Tímarit samtakanna HIV-Ísland 28. árgangur, 29. tölublað Útgáfudagur: 1. desember 2017 Ritstjóri og ábyrgðarmaður Atli Þór Fanndal

Rauði Borðinn 2017